[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Enn eru eigendur bíla sem áður voru í eigu bílaleigunnar Procar að lenda í vandræðum. Dæmi eru um að bílaumboð neiti að taka bíla sem Procar hefur átt upp í nýja bíla, jafnvel þótt verið sé að kaupa bíl sömu gerðar.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Enn eru eigendur bíla sem áður voru í eigu bílaleigunnar Procar að lenda í vandræðum. Dæmi eru um að bílaumboð neiti að taka bíla sem Procar hefur átt upp í nýja bíla, jafnvel þótt verið sé að kaupa bíl sömu gerðar. Viðmælendur blaðsins gagnrýna að ekki hafi verið brugðist nógu hart við svikum fyrirtækisins. Nú eru til umræðu nokkrar hugmyndir um úrbætur til að draga úr hættunni á að slík mál komi aftur upp.

Nokkrir bíleigendur sem urðu fyrir barðinu á svikum Procar kærðu fyrirtækið til lögreglunnar, meðal annars með aðstoð Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB). Málið er nú til meðferðar hjá héraðssaksóknara. Rannsókn er ekki lokið og ekki hefur verið ákveðið hvort ákæra verður gefin út.

Miðlæg þjónustubók

Eftir að kílómetrasvindlið kom upp snemma á þessu ári, eftir umfjöllun í fréttaskýringarþættinum Kveik í Ríkissjónvarpinu, fóru fulltrúar FÍB og fleiri samtaka á fund í atvinnuvegaráðuneytinu til að ræða viðbrögð.

FÍB lagði til að skoðuð yrði leið sem farin hefur verið í Belgíu og Hollandi um að útbúa miðlæga þjónustubók þar sem kílómetrafjöldi er ávallt skráður þegar bílar eru færðir til skoðunar, í viðgerð, smurningu eða dekkjaskipti. Þannig verði auðveldara að sýna fram á að ekki hafi verið átt við ökumæli bílsins. Til að tryggja persónuvernd getur aðeins eigandi bílsins aflað gagnanna. Áhrifin eru þau að erfitt er að selja bíla í þessum löndum nema slíkt yfirlit sé lagt fram þegar bílar eru settir á sölu.

Frumvarp verður lagt fram

Eins og sést á þessu er það alls ekki séríslenskt vandamál að kílómetrastaða bíla sé færð niður. Í raun og veru virðist það ekki stangast á við lög, það er að segja ef ekki eru gefnar rangar upplýsingar við sölu bílsins. Á þingmálaskrá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er boðað að í nóvember verði lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um bílaleigur þar sem lagt verður til að heimilaðar verði stjórnvaldssektir á bílaleigu ef kílómetrastöðu bíls er breytt. Tilgangurinn er að auka umferðaröryggi og neytendavernd.

María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, telur hollenska fyrirkomulagið áhugavert og vill skoða hvort það henti hér. Þjónustubókin var í eigu hollensku bílgreinasambandanna en er nú komin til ríkisins. María var að koma af fundi evrópsku bílgreinasambandanna og segist hafa spurst sérstaklega fyrir um hollenska kerfið. Það hafi reynst vel. Heyrist henni að mörg lönd Evrópu horfi nú til þess.

Segir María órætt hver eigi að standa að stofnun slíks kerfis en bendir á að einkaaðilar hafi verið byrjaðir á undirbúningi. Félag íslenskra bifreiðaeigenda telur að stjórnvöld verði að koma að málinu með einhverjum hætti.

Geta tengst bílaleigum

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, bendir á, þegar hugmyndin um miðlæga þjónustubók er borin undir hann, að bílaleigur sæki ýmsa þjónustu til fyrirtækja sem þau eiga aðild að eða eru tengd þeim. Enginn ætti að hafa eftirlit með sjálfum sér. Því þurfi að tryggja að aðeins óháðir aðilar færi kílómetrastöðu inn í kerfið.

Breki rifjar upp að Neytendasamtökin hafi frá upphafi lagt áherslu á að bílaleigur verði skyldaðar til að færa bílana til skoðunar árlega og kílómetrastaðan verði þá skráð. Þá verði erfiðara að svindla. Hann viðurkennir að þetta sé íþyngjandi aðgerð en þegar eitt fyrirtæki verði uppvíst að jafn umfangsmiklu svindli og hér um ræðir þá gjaldi önnur fyrirtæki því miður fyrir það. Þetta snúist um öryggi sem sé ein af grunnkröfum í neytendavernd.

Eitt af baráttumálum samtaka evrópska neytendasamtaka er að þrýsta á um að settur verði varnagli í stýrikerfi bíla þannig að ekki verði hægt að skrúfa kílómetrastöðuna niður eða í það minnsta sé hægt að sjá að kílómetrastöðu hafi verið breytt. Breki segir að frumvarp um þetta hafi legið fyrir Evrópuþinginu í þrjú ár og Evrópusamtökin haldi áfram að þrýsta á að það nái fram að ganga.

Enginn þurft að axla ábyrgð

Bílaleigan Procar er enn starfandi á hörðum samkeppnismarkaði bílaleiga. Það fer ekki vel í aðrar bílaleigur sem telja að svikin hafi áhrif á alla sem starfa í greininni. Var fyrirtækinu vísað úr Samtökum ferðaþjónustunnar. Samgöngustofa tók í vor til athugunar að svipta bílaleiguna starfsleyfi en taldi sig ekki hafa lagaheimild til þess þar sem brotin sneru meira að endursölu bíla en útleigu.

„Þetta voru víðtæk svik. Enginn hefur þurft að axla ábyrgð á þeim. Mér finnst magnað að fyrirtækið fái að starfa áfram óáreitt, eins og það hafi aðeins fengið kusk á hvítflibbann,“ segir Breki Karlsson.