Sveinbjörn Jónsson fæddist 28. ágúst 1965. Hann lést 6. september 2019.
Útför Sveinbjarnar hefur farið fram í kyrrþey.
Við erum ekki bara búin að missa frænda heldur í raun bróður.
Við frændsystkinin höfum alltaf verið mikið saman þar sem mömmur okkar voru alltaf að senda okkur á milli sín eða við vorum öll send heim til ömmu og afa.
Það er mikil gjöf að vita til þess að maður eigi heila aukafjölskyldu sem er til staðar þegar maður þarf á því að halda og hver vill ekki eiga aukabróður!
Allt frá því að Ásbörn og Sveinbjörn skriðu saman á gólfinu heima hjá afa og ömmu í Álfheimunum og tóku fyrstu skrefin sín hafa myndast tengsl milli okkur frændsystkinanna sem aldrei verða rofin.
Þeir voru heldur ekki margra ára þegar þeir fóru saman á rólógæsluna í Ljósheimum og voru sammála að fara og nýttu sér skóflur staðarins til grafa sér leið undir girðinguna.
Amma litla hefur orðið frekar hissa þegar þeir mættu óvænt hjá henni með Árna pínulítinn í eftirdragi, því að sjálfsögðu hefðu þeir aldrei skilið hann eftir.
Hann var Árni stóri og var alltaf tekinn með alveg sama hvað. Og það að fá litla frænku sem var svona miklu yngri en allir hinir í hópnum breytti engu. Enginn gat rofið okkar tengsl sem urðu til snemma á lífsleiðinni.
Við höfum alltaf treyst mikið hvert á annað, notið þess að vera saman.
Eins og gerist oft á fullorðinsárunum hefur oft verið langt á milli þess að við hittumst, sérstaklega þegar við höfum búið langt hvert frá öðru, en það hefur aldrei breytt þeirri tengingu sem við höfðum.
Margrét í Ameríku eða Danmörku með sinni fjölskyldu, Árni í Ameríku með sinni og Ásbjörn ýmist í Danmörku eða í Noregi.
Þegar við hittumst var hins vegar alltaf eins og enginn tími hefði liðið.
Við höfum alltaf verið til staðar hvert fyrir annað og getað spjallað og rökrætt um allt milli himins og jarðar frá mismunandi sjónarhornum.
Það var aldrei sjónarhornið sem skipti máli heldur samveran.
Það tekur okkur sárt að núna verðum við að halda áfram án hans Sveinbjörns en hann verður alltaf hluti af okkur.
Við vottum Cosu og börnunum okkar dýpstu samúð. Missirinn er mikill fyrir alla, en þau hafa misst lífsförunaut og föður.
Ásbjörn, Árni,
Margrét og makar.