Halldóra Davíðsdóttir fæddist 19. október 1926 í Dældarkoti í Helgafellssveit og ólst þar upp. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 10. september 2019.

Halldóra var dóttir Davíðs Guðmundar Davíðssonar sem var fæddur í Helludal í Beruvík undir Jökli 1879. Hann fórst með vélbáti frá Elliðaey 1935. Móðir Halldóru var Katrín Júlíana Albertsdóttir. Hún var fædd á Gríshóli í Helgafellssveit 1883. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Grund 1968.

Systir Halldóru var Dagbjört Davíðsdóttir fædd 21. október 1922 í Hrappsey. Hún lést 6. maí.

Hálfsystkini Halldóru samfeðra voru: 1) Eggert Sveinbjörn, fæddur á Hraunhálsi í Helgafellssveit 1901. Hann lést lést 1952. 2) Guðráður Þorsteinn Cesil fæddur á Hraunhálsi 1904. Hann lést 2003. 3) Kristín Brynhildur fæddist á Hraunhálsi 1908. Hún lést 2007.

Halldóra giftist árið 1951 Andrési Árnasyni húsasmíðameistara og verktaka, f. 2. mars 1926, frá Vík í Mýrdal. Foreldrar hans voru Árni Einarsson verslunarmaður frá Vík í Mýrdal og Arnbjörg Sigurðardóttir húsmóðir frá Akranesi. Andrés lést 5. nóvember 1988 í Reykjavík.

Andrés og Halldóra eignuðust fjögur börn, þau eru: 1) Arnbjörg Andrésdóttir, fædd 30. janúar 1950. Hún á einn son Þorstein Sigurðsson fæddur 2. september 1973, hugbúnaðarfræðingur. 2) Davíð Karl Andrésson, fæddur 23. ágúst 1951, húsasmíðameistari og matsmaður. Davíð á þrjú börn, þau eru: a) Snorri Páll, fæddur 8. júní 1970, líffræðingur. Móðir hans er Greta Þuríður Eyland Pálsdóttir. b) María Sjöfn Dupuis, fædd 7. febrúar 1974, myndlistarkona, hönnuður og kennari. c) Styrmir Þór, fæddur 16. maí 1976, húsasmíðameistari. Sambýliskona hans er Fanný Kolbrún Bogadóttir. Dætur þeirra eru Birna Ósk, fædd 2009, og Elísa Unnur, fædd 2012. Móðir Maríu Sjafnar og Styrmis er Bonnie Laufey Dupuis fædd í Bandaríkjunum 1954. 3) Elínborg Hanna Andrésdóttir, fædd 23. apríl 1957, prests- og leiðtogamenntuð í Svíþjóð. Börn Elínborgar og Árna Jóhannssonar eru: a) Andrés Heimir, fæddur 17. mars 1981, verkfræðingur. Sambýliskona hans er Berglind Rósa Halldórsdóttir. Sonur Andrésar og Berglindar er Kristófer Högni, fæddur 2016. b) Sandra Theódóra, fædd 26. júní 1986, lögfræðingur. Sambýlismaður hennar er Einar Jónsson vélfræðingur. Börn Söndru og Einars eru Aldís Eva, fædd 2014, og drengur fæddur 4 ágúst 2019. 4) Hannes Bergur Andrésson, fæddur 8. júní 1958, trésmiður. Maki er Ingibjörg Jóna Baldursdóttir, fædd 14. maí 1955. Barn Ingibjargar, fóstursonur Hannesar er: a) Baldur Andri Regal. Sambýliskona hans er Elínborg Sigurðardóttir. Baldur á tvö börn; Petru og Sigurð Rúnar. b) Helgi Pétur, fæddur 7. júlí 1983, tónlistarmaður og matreiðslumaður. Sambýliskona hans er Inga Huld Tryggvadóttir. Þeirra dóttir er Jóní, fædd 2017. Sonur Helga er Flóki, fæddur 2009. Móðir hans er Andrea Marel Þorsteinsdóttir.

Barn Andrésar Árnasonar og Guðbjargar Guðmundsdóttur var Guðmundur, fæddur 31. maí 1948. Hann lést 13. júní 2011. Halldóra var húsmóðir og eftir hana liggur mikið safn málverka, leirmuna og margar aðrar gerðir af listaverkum.

Útför Halldóru fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 20. september 2019, klukkan 11.

Mamma er farin. Ég hef oft hugsað um að það kæmi að því. Mamma elskaði börnin sín og gerði miklar kröfur á móti. Hún var dæmigerð húsmóðir eins og var á sjötta áratugnum. Ég man eftir henni í stígvélum í þvottahúsinu.

Þvottavél með spaða og vindu sem var handsnúin. Síðan var þvotturinn settur í bala og slanga ofan í til að skola þvottinn. Hún söng af hjartans lyst.

Það sama var að ske hjá húsmóðurinni uppi. Við vorum sendar til að kaupa inn, Svana dóttir Sigríðar uppi og ég. Við stálumst til að kaupa sælgæti. Akranesárin voru skemmtileg. Mamma fór með Akraborginni til Reykjavíkur og keypti föt á sig og okkur krakkana. Hún var flott til fara eins og konur voru á þessum árum. Ég var eins og sést best á myndum mjög flott klædd.

Eldri systir mömmu giftist ekki og kom oft frá Reykjavík til Akraness. Það var skemmtilegt. Hún gaf okkur þvílíkar gjafir. Pabbi vann og vann. Það kom strákur í heimsókn. Við fórum í leiki, mjög gaman. Mamma sagði mér að hann væri bróðir minn, Guðmundur. Pabbi átti hann áður. Þetta fannst mér toppurinn þá stundina. Ég fór með pabba að heimsækja hann og tína egg. Á Akranesi voru bræðurnir Karl Sighvatsson og Sigurjón Sighvatsson. Þeir áttu heima í næstu götu. Ameríkanar voru mikið á ferðinni að taka myndir og gefa krökkum sælgæti. Við fluttum í Kópavog 1961. Pabbi fékk betri vinnu hjá Vita- og hafnamálum að byggja bryggjur úti um allt land og í Sundahöfn. Hann sá um hitaveituframkvæmdir í Kópavogi og víðar.

Mamma var mikill dýravinur. Í sveitinni þar sem hún ólst upp átti hún hvítan hest sem hún nefndi Fjöður. Hundur sem kallaður var Kaffon var dýrkaður. Mamma talaði aldrei illa um foreldra sína. Faðir hennar fórst með vélbát frá Elliðaey þegar hún var níu ára. Hún var hjá fósturforeldrum í Dældakoti eftir það. Heitir núna Borgarland. Mamma fór á Húsmæðraskólann á Staðarfelli í Dölum. Hún kynntist pabba um það leyti á balli á Skildi í Helgafellssveit. Þau hófu búskap fljótlega eftir það á Akranesi, á Kirkjubraut. Það var sami sjarminn og alltaf. Oddur í Brú, karl sem var hinum megin við götuna seldi Moggann. Mamma átti vinkonur á Akranesi; Henný Didda og Hadda, Dúnna og Hedda. Hedda var frá Bolungarvík og var snillingur í heimilisstörfum að strauja og stífa.

Mamma elskaði barnabörnin sín og að fylgjast með öllu. Eftir að við fluttum í Kópavog var mamma í Samkór Kópavogs í mörg ár. Mamma átti vinkonur í Kópavogi. Man ég eftir konu sem var kölluð Lóa, einnig var Ásta og fleiri.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vera hjá mömmu síðustu stundirnar sem hún lifði. Hún var falleg kona og sérstaklega aðlaðandi.

Ég kveð þig, elsku mamma, en vildi samt vilja hafa þig alltaf.

Þín dóttir

Arnbjörg.

Amma mín og ég deildum sömu ástríðunni fyrir myndlistinni sem hafði áhrif á mig í uppvextinum og líklega vegna áhrifa hennar fór ég listabrautina í lífinu. Ég mun sakna samræðna okkar um listina og þeirra óendanlegu hugmynda sem við ræddum fram og til baka en aldrei skorti á hugmyndaauðgi hennar varðandi listina (og aldrei var léttur húmorinn langt undan!). Hún vann myndlist sína í mismunandi miðla, sem dæmi málverk, leirverk og textílverk, og fjallaði hún þá helst um náttúru og landslag.

Ég kveð ömmu mína með sorg en í senn með þakklæti í hjarta fyrir að auðga líf mitt.

María Sjöfn.