Ungmenni í dag, krakkar á aldrinum 13-15 ára, hafa með greiðu aðgengi að upplýsingum öðlast góða þekkingu á ýmsum efnum, svo sem loftslagsmálum. Í umhverfismálum mæla þau stundum af þekkingu sem búast mætti við hjá fertugu fólki. Í raun er heili nýrrar kynslóðar að þróast á einhvern þann hátt að við sem eldri erum getum ekki ímyndað okkur hvert stefnir. Þetta kom fram í máli Auðar Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, sem var í viðtali á morgunvakt rásar 1 í gær.
Og það er ekki bara í því sem snýr að hraðfara umhverfisbreytingum sem klárir krakkar eru með allt á hreinu. Í dag er ekkert mál að gúgla réttu svörin, vinna með upplýsingarnar og draga af þeim ályktanir. Heimur batnandi fer.
Hlutverk fjölmiðla er að segja frá samtímanum, greina frá staðreyndum og bregða upp mynd af lífi á líðandi stundu. Góður fjölmiðill á að því leyti að vera aðgöngumiði okkar út í samfélagið. Nú er hins vegar svo komið að almenningur, án þess að fjölmiðlar – þar með talið ljósvakinn – komi þar nokkuð nærri, getur aflað sér upplýsinga um flesta hluti, gagnreynt þær og breytt samkvæmt því.
Upplýsingastríðið er háð á nýjum forsendum.
Sigurður Bogi Sævarsson