Hlynur Jónasson fæddist 26. janúar 1944 á Rifkelsstöðum í Eyjafjarðarsveit. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 14. september 2019.
Hann var sonur hjónanna Þóru Kristjánsdóttur, f. 9.5. 1909, d. 25.4. 1995, og Jónasar Halldórssonar, f. 9.11. 1903, d. 5.2. 1987. Hann átti fimm systkini, þau eru: Marselína, f. 9.12. 1933, Kristján, f. 4.3. 1937, d. 6.5. 1998, Gunnar, f. 16.8. 1939, Héðinn, f. 20.7. 1946, og Sigurður, f. 21.10. 1954.
Hlynur kvæntist Vilborgu Gautadóttur árið 1976. Þau eiga þrjár dætur: Ragnheiði Baldursdóttur, gift Sigfúsi Aðalsteinssyni; Eddu J. Baldursdóttur, gift Sigmari Grétarssyni; og Þóru Hlynsdóttur, gift Hallgrími Friðriki Sigurðarsyni.
Barnabörn hans eru sex talsins, Guðrún, Egill og Hlynur Sigfúsarbörn, Orri og Álfheiður Sigmarsbörn og Iðunn Vilborg Hallgrímsdóttir.
Hlynur ólst upp á Rifkelsstöðum, fluttist svo til Akureyrar og bjó þar til dánardags. Hann starfaði sem mjólkurbílstjóri, vörubílstjóri hjá Stefni og frá 1979-2011 á skrifstofu Menntaskólans á Akureyri.
Útför Hlyns fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 20. september 2019, klukkan 10.30.
Kær skólabróðir minn og vinur er nú fallinn frá. Í haust eru 60 ár síðan við hittumst fyrst við setningu á Laugaskóla í Reykjadal. Þar dvöldum við í þrjá vetur og með okkur tókst mikil og góð vinátta sem aldrei hefur borið skugga á. Við tókum námið ekki alltaf mjög alvarlega og oft stóðum við að ýmsum prakkarastrikum, sem okkur hefur þótt gaman að rifja upp í hópi skólafélaga okkar. Við stríddum oft hvor öðrum enda vorum við sessunautar öll árin á Laugum. Eitt sinn þegar mér varð á að dotta í tíma, þá hnippir Hlynur í mig og segir að kennarinn sé að kalla á mig upp að töflu, þar stóð ég eins og illa gerður hlutur, horfði á kennarann sem var ekki minna hissa því hann hafði ekkert verið að kalla á mig! Ég launaði honum þetta seinna.
Hlynur var góður í brids og oft spiluðum við einnig borðtennis saman, en fótboltinn var í uppáhaldi hjá honum og það varð hlutskipti hans að verja markið í Laugaliðinu. Hann hafði alla tíð mikinn áhuga á fótbolta bæði sem stuðningsmaður KA og ekki síst fylgdist hann vel með sínu uppáhaldsliði, Manchester United, og fór hann stundum utan til að horfa á þá leika í ensku deildinni. Mér er minnisstætt hvað það var gaman að fara með honum á krá og horfa á leiki í ensku deildinni og hversu vel hann lifði sig inn í leikinn.
Á síðari árum höfum við Bjarney átt því láni að fagna að ferðast oft með þeim hjónum Hlyni og Vilborgu bæði innanlands og utan og betri ferðafélaga er ekki hægt að hugsa sér. Nú seinast í ágúst fórum við saman að Laugarhóli í Bjarnarfirði og áttum þar skemmtilega daga með útskriftarhópnum okkar frá Laugum eins og svo oft áður. Þar var Hlynur hress og kátur að vanda og tók þátt í umræðum um hvar og hvenær hópurinn ætti að hittast næst.
Það var einnig mjög gaman að vera boðinn í grill í fallega sumarbústaðinn þeirra hjóna.
Hlynur var íhugull og fylgdist vel með þjóðmálaumræðunni og það var gaman að ræða við hann um framfaramál, sérstaklega málefni sem snerta Akureyri og Eyjafjörð. Eftir því sem hann ferðaðist meira varð hann æ sannfærðari um að þetta landsvæði væri eitt það besta á jörðinni.
Nú hefur Hlynur yfirgefið þessa jörð en eftir sitja minningar um góðan dreng og þakklæti fyrir vináttu og ófáar samverustundir.
Vilborgu og fjölskyldu sendum við innilegar samúðarkveðjur,
Haukur og Bjarney.
Kveðja frá Menntaskólanum á Akureyri
Við kveðjum með söknuði Hlyn Jónasson fyrrverandi starfsmann Menntaskólans á Akureyri. Hlynur vann við skólann í 33 ár og var skólanum trúr og hollur starfsmaður. Hann starfaði lengst af við ljósritun og bóksölu en gekk í þau störf sem þurfti. Starfsstöð hans var framan af í suðurenda Gamla skóla en þegar nýjasta byggingin, Hólar, var tekin í notkun var hans bækistöð í anddyri hennar. Hann var því alltaf í miklum og góðum samskiptum við nemendur. Þegar hann lét af störfum gáfu nemendur skólanum trjáplöntu, hlyn, sem gróðursett var sunnan við Gamla skóla og dafnar þar og vex.
Hlynur var fjölhæfur samstarfsmaður og úrræðagóður og gott að leita til hans með hvað eina.
Menntaskólinn á Akureyri minnist Hlyns með þökkum og sendir eiginkonu hans og fjölskyldu samúðarkveðjur.
Menntaskólanum á Akureyri,
Jón Már Héðinsson
skólameistari.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Hvíl í friði, kæri vinur, með
kærri þökk fyrir allt.
Karl Ottesen, Sigurjóna Þórhallsdóttir og fjölskylda.