Landkönnun Nemendur úr Hvolsskóla við sporð Sólheimajökuls. Fylgst hefur verið með þróun mála á þarna frá 2010 og breytingin er mikil.
Landkönnun Nemendur úr Hvolsskóla við sporð Sólheimajökuls. Fylgst hefur verið með þróun mála á þarna frá 2010 og breytingin er mikil. — Ljósmynd/Aðsend
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Stefánsson fór nýjar leiðir í náttúrufræðikennslu við grunnskólann á Hvolsvelli. Jöklar eru mældir, gróðursett og endurnýtt. Fékk viðurkenningu á Degi íslenskrar náttúru nú í vikunni.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Í náttúrufræðum eru nemendur aldrei móttækilegri en þegar hægt er að fylgjast með þróuninni; hvernig landið og umhverfið eru stöðugt að breytast. Mér fannst því upplagt að fara nýjar leiðir í kennslunni. Í skólanum voru líka góðar undirtektir við slíku, sem gerðu starfið mögulegt,“ segir Jón Stefánsson, grunnskólakennari á Hvolsvelli.

Kennsla, rannsóknir og upplifun

Bryddað var upp á ýmsu á Degi íslenskrar náttúru sl. mánudag, 16. september. Þetta er afmælisdagur Ómars Þ. Ragnarssonar fréttamanns sem á löngum ferli sínum hefur sagt frá mörgu athyglisverðu sem talist getur umhverfismál. Sá fréttaflutningur hefur átt sinn þátt í því að vekja áhuga almennings á náttúruvernd og umhverfismálum, sem nú geta talist mál málanna.

Annar eldhugi í vernd íslenskrar náttúru var svo Sigríður Tómasdóttir frá Brattholti í Biskupstungum (1871-1971), konan sem lagði allt í sölurnar snemma á 20. öldinni svo Gullfossi yrði ekki fórnað fyrir virkjun. Sú barátta skilaði sér – og á Degi íslenskrar náttúru hefur umhverfisráðhera frá árinu 2010 veitt Náttúruviðurkenningu Sigríðar í Brattholti fólki sem lagt hefur mikið af mörkum í umhverfismálum. Og að þessu sinni komu verðlaunin í hlut Jóns Stefánssonar sem hefur, eins og segir í umsögn ráðherra, verið framúrskarandi „að nýta nærumhverfi barnanna – náttúruna á heimaslóðum þeirra – til kennslu, rannsókna og upplifunar“.

Miklar breytingar

„Mér þykir afar vænt um þessa viðurkenningu,“ segir Jón Stefánsson, sem á langan kennaraferil að baki. Hann kom til starfa við Hvolsskóla árið 2008 og var fljótlega falin verkefnisstjórn í náttúrufræðikennslu. Svo fór boltinn að rúlla árið 2010 þegar gerður var út leiðangur með nemendur úr 7. bekk að Sólheimajökli og hop hans mælt, samkvæmt vísindalegum aðferðum. Það hefur verið gert á hverju ári síðan og í mælingum á síðasta ári reyndist undanhaldið vera 379 metrar á átta árum.

„Náttúran við jökulinn hefur breyst afar mikið á þessum tíma. Fyrst þegar við komum þarna var sléttur sandur framan við skriðjökulinn en nú er þar mikið lón. Þegar við mældum dýpt þess fyrst árið 2014 reyndist það vera 40 metrar en var í fyrra komið í yfir 60 metra,“ segir Jón um framvinduna við Sólheimajökul sem þykir athygliverð. Frá henni og mælingum Hvolsskólanema hefur oft verið sagt í fjölmiðlum – og erlendir þjóðhöfðingjar hafa á stundum farið austur til að kynna sér stöðu mála. Má þar nefna François Hollande sem var á svæðinu haustið 2015, þá sem forseti Frakklands, og í sumar fylgdu nemendur úr Hvolsskóla Frank-Walter Steinmeier, forseta Þýskalands, og Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, um svæðið.

Annað nýmæli í náttúrufræðikennslu Jóns við Hvolsskóla er landgræðsluverkefni nemenda í 5. bekk, sem hafa farið reglulega austur í Landeyjar til að kanna áhrif og árangur ólíkra aðferða við landgræðslu. Sömuleiðis hafa nemendur gróðursett plöntur við Þjófafoss í Landsveit, komið svo aftur að tveimur árum liðnum og séð árangurinn. Jafnframt hafa nemendur skólans tvívegis verið útnefndir Varðliðar umhverfisins , í verkefni umhverfisráðuneytis, Landverndar og fleiri.

Bæta fyrir útblásturinn

„Bráðnun jökla er afleiðing af loftslagshlýnun, en að gróðursetja, draga úr sóun, endurnýta og fleira slíkt eru aðgerðir til að bæta fyrir útblásturinn og afleiðingar hans,“ segir Jón Stefánsson um náttúrufræðina sem er sterkur þáttur í öllu starfi Hvolsskóla. Má þar nefna að skólinn fékk Grænfánann svonefnda fyrir ellefu árum og samkvæmt því tvinnast umhverfismál saman við alla kennslu og annað starf, eins og lýst er hér að framan.