Flestir muna hvílíkt áfall morðið á Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, var. Þau hjónin höfðu brugðið sér í kvikmyndahús og óskuðu ekki eftir fylgd öryggisvarða. En áfallið var ekki eingöngu vegna þess hver átti í hlut heldur hitt að slíkt gerðist í einu friðsælasta ríki veraldar, „vöggustofunni“ Svíþjóð. Við bættist að morðið upplýstist ekki þótt framið væri á fjölförnum stað og milljörðum varið til rannsóknar þess. En nú er spurt hvers vegna ástandið í Svíþjóð er orðið eins og sést m.a. af lýsingu Gústafs A. Skúlasonar?
„Í skotárás í Nacka nýverið gátu árásarmenn varla haldið á hríðskotabyssunum, þannig að kúlurnar „úðuðust“ um allt með þeim afleiðingum að nemandi í tónlistarskóla sem bjó mörgum hæðum frá jörðu missti sjónina á öðru auga, því hann var óvart heima, þegar árásarmennirnir komu við. Þá fékk saklaus leigubílstjóri „óvart“ kúlu í sig. Ekki er langt síðan að 18 ára stúlka í norðurhluta Stokkhólms var „óvart“ drepin því hún var heima þegar „heilsað“ var upp á þar sem hún bjó. Það sem slegið hefur Svía óhug er hrottaleg aftaka á ungri hjúkrunarkonu nýlega sem hélt á tveggja mánaða gömlu barni sínu í fanginu þegar morðinginn skaut hana í höfuðið á miðri götu um hábjartan dag í Malmö. Þá hafa sprengingar „óvart“ drepið og sært saklausa íbúa og vegfarendur sem voru á vitlausum stað á vitlausum tíma.
Lögreglan varar fólk við víða um land að vera á ferð eftir að rökkva tekur og biður fólk að vera vökult ef það sér grunsamlega „pakka“. Nú hefur lögreglan í Stokkhólmi fengið aðstoð frá Bandaríkjunum í baráttunni við ofbeldið og fv. lögreglustjóri Rick Fuentas er (henni) innan handar. Í viðtali við Expressen segir Fuentes að lögreglan í Bandaríkjunum mæti ekki jafn miklu ofbeldi í formi sprengjuárása og gerist í Svíþjóð: „Ég sé ekki handsprengjuárásir, það hefur ekki gerst.““
Og hvers vegna er ekki sagt frá slíku í fréttum hér?