Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Nemendur í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum, foreldrar þeirra og starfsfólk komu saman á Klambratúni í Reykjavík í gærmorgun af því tilefni að fyrsti Waldorfskólinn hóf göngu sína í Stuttgart í Þýskalandi í september 1919 og verður haldið upp á tímamótin víða um heim.
Austurríski heimspekingurinn Rudolf Steiner kynnti hugmyndir að nýrri samfélagsskipan eftir fyrri heimsstyrjöldina. Þær gengu út á að frelsi skyldi vera leiðarljós menningarlífsins, jafnrétti leiðarljós réttarkerfisins og bræðralag leiðarljós viðskiptalífsins. Emil Molt, eigandi Waldorf Astoria-verksmiðjunnar í Stuttgart, hreifst af hugmyndunum og fékk Steiner til þess að leiða stofnun skóla fyrir börn starfsfólksins. Hagnaður ársins 1918 var notaður til að fjármagna framkvæmdina.
Nokkrir Íslendingar, sem höfðu lært um hugmyndir Steiners og kynnst starfseminni á Sólheimum í Grímsnesi, stofnuðu fyrsta íslenska Waldorfleikskólann í Lækjarbotnum 1. desember 1990 með uppeldisfræði heimspekingsins í huga. Haustið eftir að leikskólinn Ylur var stofnaður hóf Waldorfskólinn í Lækjarbotnum starfsemi með fjóra nemendur. Nú eru um 70 nemendur í 1. til 10. bekk, en annar sambærilegur skóli er í Reykjavík, Waldorfskólinn Sólstafir.
Góður árangur
Aðalheiður Ólafsdóttir kennari segir að vel hafi tekist til. Mikil áhersla sé lögð á handverk, tengsl við náttúruna, útiveru og listir og námið hafi reynst góður grunnur fyrir framhaldsnám. „Nemendum okkar hefur verið hrósað fyrir námsáhuga og fróðleiksfýsn. Má ætla að námskrá Waldorfskólanna, þar sem lögð er áhersla á heildrænan þroska barnsins með áherslu á listræna og verklega þætti, styðji þetta.“
Árlegur jólabasar skólans verður laugardaginn 16. nóvember og verða býflugur afmælisþemað að þessu sinni. Aðalheiður segir að mikið sé lagt upp úr basarnum og allir leggi sitt af mörkum. Starfsfólk, foreldrar og nemendur vinni saman í litlum hópum í þeim tilgangi að efla félagsleg tengsl. Á sérstökum þemadögum sé öllum bekkjum blandað saman og unnið í hópum að sérstökum verkefnum til að selja á basarnum. Jurtatínsla sé í gangi allt sumarið, ræktun fari fram í gróðurhúsi, krakkarnir séu með skólagarða, farið sé í berjamó og afurðirnar nýttar í eldhúsi skólans og á basarnum. „Við tengjum vel saman starf og leik,“ segir Aðalheiður.
Einkunnarorð skólans í Lækjarbotnum eru hugur, hjarta og hönd. Foreldrarnir og starfsfólkið skipta sér í hópa, tileinkaða ákveðnum verkefnum. Hugurinn sér um upplýsingar, efni og fræðslu. Hjartahópurinn hugsar um félagsleg tengsl og samskipti út á við, en höndin sinnir verklegum þáttum, viðhaldi á húsum, garðvinnu og fleira. „Lækjarbotnar eru mikil náttúruperla og nemendur njóta alls þess sem svæðið hefur upp á að bjóða.“