[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Dánartíðni barna undir fimm ára aldri og kvenna af barnsförum hefur lækkað verulega á síðustu tveimur áratugum, samkvæmt tveimur nýjum skýrslum frá Sameinuðu þjóðunum.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Dánartíðni barna undir fimm ára aldri og kvenna af barnsförum hefur lækkað verulega á síðustu tveimur áratugum, samkvæmt tveimur nýjum skýrslum frá Sameinuðu þjóðunum. Er það einkum rakið til aukins aðgangs að góðri heilsugæsluþjónustu á viðráðanlegu verði, að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Í skýrslunum kemur þó fram að misvel hefur gengið eftir heimshlutum að fækka dauðsföllunum.

Í annarri skýrslunni kemur fram að 5,3 milljónir barna undir fimm ára aldri dóu á síðasta ári, nær helmingi færri en árið 2000. Tæpur helmingur þessara barna dó við fæðingu eða innan mánaðar eftir hana. Að jafnaði dóu 7.000 nýburar dag hvern í heiminum á síðasta ári.

Í hinni skýrslunni kemur fram að dauðsföllum kvenna vegna fylgikvilla meðgöngu eða fæðingar fækkaði um rúman þriðjung frá síðustu aldamótum. 295.000 konur dóu af þessum sökum árið 2017 en 451.000 árið 2000. Þótt dauðsföllunum hafi fækkað dóu að meðaltali um 800 konur á dag af völdum fylgikvilla meðgöngu eða fæðingar, að sögn skýrsluhöfundanna.

Talið er að á ári hverju deyi alls 2,8 milljónir nýbura og kvenna af barnsförum í heiminum og í flestum tilfellum ætti að vera hægt að koma í veg fyrir dauðsföllin, að því er fréttaveitan AFP hefur eftir Henriettu Fore, framkvæmdastjóra Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. „Vel heppnuð barnsfæðing gefur alls staðar tilefni til að gleðjast en samt verður fæðing að fjölskylduharmleik á ellefu sekúndna fresti í heiminum að meðaltali,“ sagði Fore. Hún bætti við að í mörgum tilfellum væri hægt að koma í veg fyrir dauða nýbura og kvenna af barnsförum með því að sjá þeim fyrir góðri fæðingarþjónustu, hreinu vatni, nægri næringu, lyfjum og bóluefnum.

Dánartíðnin 50 sinnum hærri í Afríku sunnan Sahara

Í skýrslunum kemur fram að aðgangurinn að slíkri þjónustu er minnstur í Afríku sunnan Sahara. Þar er dánartíðni kvenna af barnsförum nær 50 sinnum hærri og dánartíðni ungbarna 10 sinnum hærri en í auðugum ríkjum heims. Á síðasta ári dó eitt af hverjum þrettán börnum í Afríku sunnan Sahara undir fimm ára aldri, en aðeins eitt af hverjum 196 í Evrópulöndum.

Ein af hverjum 37 konum í Afríkulöndunum deyr af barnsförum, en Evrópu er meðalhlutfallið ein á hverja 6.500.

Þótt dauðsföllunum hafi fækkað víðast hvar í heiminum frá síðustu aldamótum hefur dauðsföllum kvenna af barnsförum fjölgað í þrettán löndum. Í flestum tilvikum er fjölgunin rakin til átaka eða mikilla efnahagsþrenginga, meðal annars í Sýrlandi og Venesúela. Fjölgunin var þó mest í Bandaríkjunum þar sem dánartíðni kvenna af barnsförum hækkaði um 58% frá árinu 2000. Dánartíðnin var þar um 19 konur á hverjar 100.000 barnsfæðingar árið 2017.

78 börn í Afríku – tvö á Íslandi

Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að í heiminum deyja að meðaltali 39 börn undir fimm ára aldri á hver þúsund fædd börn. Í Afríku sunnan Sahara er hlutfallið 78 börn að meðaltali og í Evrópu fimm börn. Á Íslandi dóu tvö börn undir fimm ára aldri á hver 1.000 fædd börn á síðasta ári, en átján árum áður var hlutfallið fjögur börn, að því er fram kemur á vef Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Stefnt hefur verið að því að dánartíðni barna undir fimm ára aldri verði ekki hærri en 25 á hver þúsund fædd börn árið 2030 og mörg lönd hafa þegar náð því markmiði. Rúmlega 50 lönd eiga þó enn langt í land með það.