Rósa Margrét Tryggvadóttir
rosa@mbl.is
Búist er við að áfram muni rigna töluvert á Vesturlandi í dag en Veðurstofa Íslands gaf út appelsínugula viðvörun fyrir Faxaflóa og Breiðafjörð upp úr hádegi í gær vegna úrhellisrigningar. Varað er við auknum líkum á skriðuföllum á vesturhelmingi landsins. Skriður hafa þegar fallið, m.a. á Skarðsströnd við Breiðafjörð í gær.
„Þetta er mestallur vesturhelmingur landsins sem við erum að fylgjast með,“ sagði Einar Bessi Gestsson, sérfræðingur í vatnafari hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld. Einar kveður vatnavexti vera í fjölda áa og lækja á vesturhelmingi landsins og segir Norðurá í Borgarfirði til að mynda hafa risið hratt frá því í fyrrinótt.
Segir hann að sérstaklega hafi verið mikil úrkoma á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum í gær.
Ferðamenn í sjálfheldu
Úrhellisrigningin hefur valdið ýmiss konar vandræðum í þjóðfélaginu síðustu daga. Niðurföll hafa til að mynda víða stíflast og flætt hefur í kjallara og bílskúra fólks.Íslenska Umhverfishetjan lét slag standa á móti veðrinu og losaði m.a. stífluð niðurföll. Í samtali við mbl.is segir ofurhetjan, sem er grímuklædd og hefur enn ekki komið fram undir nafni, það vera valdeflandi að láta gott af sér leiða.
Þrír ferðamenn lentu einnig í sjálfheldu vegna rigningarinnar en þeir urðu innlyksa í Langavatnsdal þar sem vegur fór í sundur vegna vatnavaxta. Þurfti að kalla til þyrlu Landhelgisgæslunnar þeim til bjargar.
Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að áfram sé spáð töluverðri rigningu í dag. Segir hann þó von á að laugardagurinn verði töluvert úrkomuminni þó að áfram verði vætusamt. Veður fer þó hlýnandi, en spáð er allt að 20 stigum á norðaustanverðu landinu á sunnudag.