Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Teitur Gissurarson teitur@mbl.is „Allt tal um að stéttarfélögin séu að taka sér tíma til að fara yfir tilboðið er óskiljanlegt.

Teitur Gissurarson

teitur@mbl.is

„Allt tal um að stéttarfélögin séu að taka sér tíma til að fara yfir tilboðið er óskiljanlegt. Við höfnum algjörlega fullyrðingum um að bandalagið hafi ekki komið af heilum hug í þessa vinnu, enda hefur stytting vinnuvikunnar verið eitt helsta baráttumál BSRB árum saman og stærsta krafa bandalagsins í yfirstandandi kjarasamningsviðræðum.“ Þetta sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í samtali við mbl.is í gær um viðtal Morgunblaðsins við Hörpu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra skrifstofu kjaramála hjá Reykjavíkurborg, í gær.

Í viðræðum BSRB og Reykjavíkurborgar hefur stytting vinnuviku verið helsta deiluefnið og sagði Harpa m.a. í gær að Reykjavíkurborg hefði lagt fram tilboð sem fæli í sér styttingu vinnuviku um þrjár klukkustundir. Eðlilegt væri að stéttarfélög tækju tíma í að meta tilboðið. Eins og áður segir þótti Sonju þessi ummæli undarleg, enda hefði BSRB hafnað tilboðinu strax í vor.

Þá sagði Sonja að fullyrðingar Hörpu um að í niðurstöðu tilraunaverkefnis BSRB og Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuviku hefði komið fram að ekki hefði verið hægt að halda því verkefni áfram nema með viðbótarmönnun og viðbótarfjármagni væru beinlínis rangar. „Niðurstöðurnar fjalla alls ekki um þetta. Niðurstöðurnar fjölluðu einmitt um að þetta væri hægt, bæði á dagvinnustöðum og vaktavinnustöðum án þess að þeir fengju viðbótarfjármagn. Hins vegar er ljóst að sumir vinnustaðir sem eru með sólarhringsvaktir gætu þurft viðbótarfjármagn, en það hefur legið fyrir frá upphafi,“ sagði hún.

Þá nefndi Sonja síðustu ummæli Hörpu um að tilraunaverkefnið hefði bara náð til mjög afmarkaðs hóps. Það hefði einnig verið rangt því verkefnið hefði náð til um fjórðungs allra starfsmanna Reykjavíkurborgar, um 2.200 af þeim 8.500 starfsmönnum sem starfa hjá borginni.