Skjalagjöfin Guðfinna Guðmundsdóttir, ekkja Þórðar Björnssonar ríkissaksóknara, afhendir hér Svanhildi Bogadóttur borgarskjalaverði handrit Þórðar að sögu utanþingsstjórnarinnar. Skjalasafn Þórðar er nú varðveitt þar.
Skjalagjöfin Guðfinna Guðmundsdóttir, ekkja Þórðar Björnssonar ríkissaksóknara, afhendir hér Svanhildi Bogadóttur borgarskjalaverði handrit Þórðar að sögu utanþingsstjórnarinnar. Skjalasafn Þórðar er nú varðveitt þar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Borgarskjalasafni Reykjavíkur barst í gær merkileg gjöf, þegar Guðfinna Guðmundsdóttir, ekkja Þórðar Björnssonar ríkissaksóknara, færði safninu handrit Þórðar að sögu utanþingsstjórnarinnar 1942-1944.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Borgarskjalasafni Reykjavíkur barst í gær merkileg gjöf, þegar Guðfinna Guðmundsdóttir, ekkja Þórðar Björnssonar ríkissaksóknara, færði safninu handrit Þórðar að sögu utanþingsstjórnarinnar 1942-1944. Faðir Þórðar, Björn Þórðarson, var forsætisráðherra stjórnarinnar, og varðveitti Þórður skjöl hans að honum gengnum. Uppkast Þórðar er um 700 blaðsíður og er geymt í tíu möppum.

„Hann skrifaði þetta allt og aflaði sér upplýsinga og setti saman,“ segir Guðfinna, en Þórði entist ekki aldur til þess að gefa handrit sitt út á bók, líkt og hugur hans stóð til.

Hún segir að eitt af því sem hafi hvatt Þórð til verksins hafi verið vilji hans til þess að leiðrétta ýmsar rangfærslur sem uppi hafa verið um utanþingsstjórnina og störf föður síns í henni. „Eitt af því sem sagt hefur verið er að Björn hafi verið lögskilnaðarmaður í sjálfstæðismálinu,“ segir Guðfinna. „En hið rétta er að hann vildi fylgja því sem þjóðin kaus.“ Hún bætir við að Björn hafi náð að sannfæra Svein Björnsson, ríkisstjóra og síðar fyrsta forseta lýðveldisins, um að rétt væri að slíta tengslin við Dani þegar árið 1944, frekar en að bíða fram yfir stríðslok.

Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður segir að safnið hafi ekki tök á að gefa handrit Þórðar út á bók, en að vilji standi til að allar möppurnar tíu verði ljósmyndaðar og gerðar aðgengilegar á vef safnsins, almenningi og sagnfræðingum til hagsbóta.

Matseðlar og Íslandsmyndir

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guðfinna afhendir Borgarskjalasafninu gögn úr fórum sínum, en fyrsta afhendingin á skjölum þeirra Björns og Þórðar fór fram árið 1998, og skjalagjöfin í gær var hin tuttugusta. Guðfinna hefur því á rúmlega tuttugu árum gefið skjalasafninu um eina skjalagjöf á ári. Svanhildur segir ekki algengt að safninu berist svo stór skjalasöfn yfir svo langan tíma, en auk skjala þeirra feðga varðveitir safnið einnig gögn Bjarna Benediktssonar eldri og Ólafs Thors, formanna Sjálfstæðisflokksins, en þau bárust í einu lagi.

„Á meðal þess sem Guðfinna hefur gefið okkur eru dagbækur Björns Þórðarsonar frá árunum áður en hann verður forsætisráðherra, og þar er lýst nokkuð aðdragandanum að þeirri embættisskipan,“ segir Svanhildur, en þær dagbækur eru aðgengilegar á vefnum.

Að auki má geta þess að Þórður varðveitti mjög margt af því sem honum áskotnaðist á lífsleiðinni, en auk handritsins færði Guðfinna safninu í gær matseðla úr ýmsum opinberum kvöldverðum sem hún og maður hennar sóttu vegna embættis hans, en ekki er sjálfgefið að slíkar heimildir séu varðveittar. Þá var Þórður mikill áhugamaður um lýsingar útlendinga á landinu, og varðveitir safnið því meðal annars bókasafn Þórðar með Íslandslýsingum, sem og gömul Íslandskort.

Svanhildur segir að í þeim munum sem Guðfinna gaf leynist mikill fjársjóður fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar. „Já, það var allt geymt,“ segir Guðfinna að lokum.