Tryggvi Felixson
Tryggvi Felixson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Tryggva Felixson og Þórhildi Fjólu Kristjánsdóttur: "Þjóðin býr yfir tækni, þekkingu og auðlegð til að ná markmiðinu um kolefnishlutleysi. Sterkan vilja og víðtæka samstöðu skortir. Breytum því!"

Fyrir um 30 árum vöknuðu þjóðir heims upp við vondan draum; hættulegar loftslagsbreytingar voru um það bil að eyðileggja lífsskilyrðin á heimili okkar, jörðinni. Í skyndi voru gerðir alþjóðlegir samningar um hvað bæri að gera. En svo gerðist lítið meira, og alls ekki nóg. Líka á Íslandi þar sem losun gróðurhúsalofttegunda hefur vaxið um liðlega 30% frá árinu 1990.

Þessa dagana má lesa í fréttum um mat OECD á stöðu íslensks efnahagslífs og til hvaða aðgerða er þörf að grípa, til að tryggja velsæld Íslendinga á næstu árum. Þar er litla sem enga leiðsögn að finna um það hvernig stýra má efnahagslífinu á sjálfbæra braut svo lífsskilyrðum komandi kynslóða verði ekki spillt. Það hlýtur að vera tímaskekkja eða mistök hjá OECD! Allt virðist eiga að vera eins og í gær þótt aðalritari Sameinuðu þjóðanna hafi boðað til leiðtogafundar um loftslagsbreytingar 23. september nk. undir fyrirsögninni: „Baráttan við loftslagsbreytingar er kapphlaup sem mannkynið getur unnið og verður að vinna.“

Glæpur gegn mannkyni

„Unga fólkið er framtíðin“ heyrist oft sagt í hátíðarræðum. En það er ekki björt framtíð sem við bjóðum unga fólkinu ef við sem fullorðin erum getum ekki snúið óheillaþróun hamfarahlýnunar til betri vegar.

Við vitum að víðtæk alþjóðleg samstaða er forsenda árangurs í aðgerðum gegn hamfarahlýnun. Það sem við gerum á Íslandi, eða jafnvel allri Evrópu, leysir ekki loftslagsvandann. En það þjónar ekki sem afsökun.

Aðgerðaleysi heimsins, ófullnægjandi aðgerðir og sýndarmennska er glæpur gegn mankyninu; komandi kynslóðum, börnum og barnabörnum. Það er því ekki valkostur. Afstaða forystu hins öfluga ríkis Bandaríkjanna til aðgerða gegn hamfarahlýnun er óviðunandi, stórhættuleg og má líkja við alvarlega stríðsglæpi. Ráðamenn þjóðarinnar þurfa að segja það hátt og skýrt þegar tækifæri gefst.

Grípa þarf til aðgerða í dag, en jafnframt skipuleggja aðgerðir til lengri tíma litið. Við þurfum samtímis að leggja upp í kapphlaup og langhlaup.

Á Íslandi hefur ríkisstjórnin sett fram og að einhverju leyti fjármagnaða áætlanir um aðgerðir. Við vitum hins vegar ekki enn hvaða árangri þeim er ætlað að skila. Þær eru hugsanlega í mesta lagi góð byrjun. En þær eru ófullnægjandi framlag Íslands til lausnar þeim stóra vanda sem við blasir.

Ertu með?

Þess vegna er frekari aðgerða þörf og ríkari áherslu þarf að leggja á þetta mál frá öllum hliðum. Það þarf að koma skýrt fram í fjárlögum og öllum áætlunum um innviðauppbyggingu. Með sanngjörnum grænum gjöldum, sköttum og styrkjum sem hvetja til breytinga. Með uppgræðslu og verndun jarðvegs. Með fræðsluátaki, kynningu og orðræðu leiðtoga þjóðarinnar og embættismanna bæði innanlands og hvar sem færi gefst á alþjóðavettvangi.

Hvert og eitt okkar þarf einnig að taka til í eigin ranni og skipuleggja daglegt líf og frístundir svo kolefnissporið fari minnkandi.

Kolefnishlutleysi er raunhæft markmið þar sem þjóðin býr yfir tækni, þekkingu og auðlegð til að ná því marki. Raunverulegur vilji og víðtæk samstaða er það sem skortir.

Af þessum ástæðum hvetur Landvernd til þess að við sem styðjum kröfu unga fólksins mætum til þess fundar sem það hefur boðað nú á föstudaginn 20. september nk. Sýnum þar raunverulegan vilja og samstöðu í verki! Allir, líka þeir sem ekki geta mætt á þann fund, geta skrifað undir kröfu til stjórnvalda landsins um frekari og raunhæfar aðgerðir sem skili mælanlegum árangri. Þú getur skrifað undir þessa kröfu með því að fara á heimasíðu Landverndar. Þitt framlag skiptir máli fyrir þau lífsskilyrði sem við ætlum kynslóðum framtíðarinnar.

Tryggvi er formaður Landverndar. Þórhildur Fjóla er varaformaður og leiðir loftslagshóp Landverndar. tryggvi@landvernd.is

Höf.: Tryggva Felixson, Þórhildi Fjólu Kristjánsdóttur