Kristín Magdalena Bjarnadóttir McGuinness fæddist 9. desember 1948 í Hafnarfirði. Hún lést 22. ágúst 2019 í Jamestown, Tennessee í Bandaríkjunum.

Foreldrar Kristínar voru Bjarni Sævar Jónsson, f. í Hafnarfirði 7.3. 925, d. 17.7. 1963, og Hrönn Torfadóttir, f. í Hafnarfirði 12.12. 1929, d. 21.12. 2006.

Systkini samfeðra: Eygló og Jón Þór, systkini sammæðra: Karl, Jóhanna, Ingiber, Ásdís, Hafþór og Albert.

Eiginmaður Kristínar: Mark McGuinness. Sonur Kristínar er Marc Óskar Ames, f. 12.4. 1971, maki Jessica Ames. Barnabörn hennar eru: Spencer Óskar, f. 2001, Andrew Ingiber, f. 2003, Isabella Kristín, f. 2013, Sasha, Xavier og Seimeon.

Bálför Kristínar fór fram í Bandaríkjunum.

Kveðja frá systkinunum í Hafnarfirði

Þú gengin ert hugglöð á frelsarans fund

og fagnar með útvaldra skara,

þar gleðin er eilíf, þar grær sérhver und.

Hve gott og sælt við hinn hinsta blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara.

Nú kveðja þig vinir með klökkva og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur að sjá

í alsælu og fögnuði himnum á,

er sofnum vér síðasta blundinn.

(Hugrún)

Sendum innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina Kristínar.

Eygló og Jón Þór

og fjölskyldur.

Elsku hjartans Kristín frænka kvaddi þessa jarðvist eftir erfið veikindi, 70 ára að aldri, og það voru mjög sár tíðindi.

Kristín fæddist í Hafnarfirði 9. desember 1948. Við vorum bræðradætur, blóðfaðir hennar, Bjarni Sævar Jónsson, var bróðir föður míns, Baldurs Jónssonar, og ég er þess fullviss að þeir báðir hafi umvafið hana ásamt öðrum nánum ættingjum hennar og vinum sem þegar voru komnir í Sumarlandið, þegar hún birtist þar hinn 22. ágúst síðastliðinn.

Alveg frá því ég var lítil stelpa leit ég upp til Kristínar frænku, hún var alltaf svo skemmtileg og hláturmild.

Og alltaf var henni vel fagnað þegar hún heimsótti okkur öll, föðurfjölskyldu sína í Hafnarfirði, sem þótti ótrúlega vænt um Kristínu.

Við frænkurnar héldum góðu sambandi í gegnum árin, hringdum hvor í aðra næstum mánaðarlega, eða eins oft og við gátum, og alltaf heilsaði hún með: „Hæ elsku hjartað mitt“, og svo spjölluðum við endalaust og fengum alltaf hlátursköst í hverju símtali, sem eru og verða mér svo ógleymanleg og dýrmæt.

Hún bjó síðast í Tennessee með eiginmanni sínum, Mark McGuinness, og í nágrenni við sinn elskaða einkason, Marc Óskar (Magga), og hans stóru og yndislegu fjölskyldu, sem hún elskaði út af lífinu.

Elsku hjartað mitt, Kristín frænka mín, hvíldu í friði mín elskuleg, sakna þín óendanlega og elska allar minningar tengdar þér í gegnum tíðina, sem aldrei munu gleymast.

Votta Mark, Magga frænda og fjölskyldu hans, sem og nánum ættingjum hennar hér heima, innilega samúð.

Hlý kveðja,

Sigrún Baldurs frænka.