Margrét Kristjánsdóttir (Maddý) fæddist á Ísafirði 8. september 1935 og ólst þar upp. Hún lést í faðmi fjölskyldu sinnar 11. september 2019.

Foreldrar hennar voru hjónin Kristján Hannes Jónsson forstjóri og hafnsögumaður og Anna Sigfúsdóttir húsmóðir. Bróðir Maddýjar var Jón Símon Kristjánsson og uppeldisbróðir hennar Sigmundur Sigfússon. Maddý útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands árið 1954. Hún stundaði nám í píanóleik og tónsmíðum við Tónlistaskóla Reykjavíkur. Á námsárum sínum í Reykjavík bjó Maddý hjá fjölskylduvinum, þeim Láru Arnardóttur og Steingrími Jónssyni.

Maddý gegndi um tíma starfi hjá Útvegsbankanum í Reykjavík. Árið 1957 hélt Maddý utan til náms og útskrifaðist í gluggaútstillingum frá hönnunarskólanum Bergenholtz í Kaupmannahöfn. Heim komin að námi loknu vann hún við fag sitt í versluninni Kjörgarði í Reykjavík. Árið 1960 flutti Maddý til Bandaríkjanna þar sem verðandi eiginmaður hennar, Örn Arnar, var við framhaldsnám í læknisfræði.

Maddý og Örn giftust í desember 1960 í Minneapolis og hafa búið þar síðan, að undanskildum tveimur árum er þau bjuggu á Íslandi í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar. Maddý og Örn eignuðust fjögur börn sem öll eru búsett í Bandaríkjunum. Þau eru Anna Sigríður f. 1962, Bernhard, f. 1964, Rannveig, f. 1965, og Kristján Örn, f. 1970. Barnabörnin eru átta.

Maddý vann við gluggaútstillingar í stórversluninni Dayton´s til ársins 1962 og aftur snemma á áttunda áratug síðustu aldar. The American Swedish Institute hefur árlega sett upp norræna jólasýningu. Maddý nýtti hönnunarhæfileika sína við uppsetningu þessara sýninga þar sem hún hannaði íslensku jólaborðstofuna í yfir fjörutíu ár. Auk húsmóðurstarfa tók Maddý virkan þátt í íslenska samfélaginu í Minneapolis, m.a. í kvenfélaginu Heklu og Íslendingafélaginu. Frá árinu 1997 aðstoðaði Maddý Örn í starfi hans sem ræðismaður Íslands í Minneapolis. Sem menntaður tónlistamaður var Maddý einnig virk í tónlistalífi tvíburaborganna St. Paul og Minneapolis, eins og t.d. í „Thursday Musical". Síðast en ekki síst stóðu Maddý og Örn í áraraðir fyrir fjölmörgum samkomum fyrir íslenska námsmenn sem komu til tvíburaborganna til náms við Háskólann í Minnesota.

Útför Margrétar Kristjánsdóttur Arnar; Maddýar, fer fram frá Normandale Lutheran Church, Edina í dag, 20. september 2019, kl. 11. f.h. að Minnesota-tíma.

Með hlýju og þakklæti minnist ég Maddýjar. Tæp 60 ár eru síðan foreldrar mínir og foreldrar Önnu Siggu kynntust sem Íslendingar í útlandinu. Mikill vinskapur var á milli fjölskyldnanna og við Anna Sigga mikið saman fyrstu fjögur ár ævi okkar. Í gegnum frásagnir og ljósmyndir „man“ ég þessa ljúfu tíma vel. Fölskylda mín flutti til Íslands og Maddý, Örn og börnin bjuggu áfram úti og fluttu til Íslands árið sem við Anna Sigga urðum átta ára gamlar. Það var líflegt og gaman. Maddý einstaklega frumleg og hafði endalausa orku og tíma fyrir okkur börnin. Afmælisveislur voru eftirminnilegar, húsið skreytt, nýstárlegir leikir og flottar veitingar. Maddý hélt hrekkjavöku og það var eins og að ganga inn í ævintýraheim. Árin tvö á Íslandi voru dýrmæt. Elstu börnin lærðu íslensku og eignuðust vini. Leiðin lá aftur út. Tengslin slitnuðu ekki. Eftir að ég varð fullorðin breyttust þau. Maddý var ekki lengur bara mamma Önnu Siggu heldur líka kær vinkona. Á Arnarhóli var vel tekið á móti öllum. Við sátum tvær og spjölluðum langt fram á nótt. Maddý ung í anda, óhefðbundin, bætti allt í kringum sig og gerði lífið litríkara. Brosið hlýtt, innilegt og náði til augnanna. Maddý alltaf í núinu. Við fjölskyldan dvöldum um jólaleytið hjá Maddý og Erni og dvöldum með Önnu Siggu og fjölskyldu í Litlu-Hlíð yfir áramótin. Þegar við komum heim á Arnarhól á nýárskvöld var búið að setja upp nýársskreytingar. Sonur minn varð svo heillaður að síðan höfum við dekkað með dimmbláum dúk með silfruðum stjörnum um áramót.

Maddý ólst upp á Ísafirði, fór í framhaldsskóla og tónlistarskóla í Reykjavík og virtan hönnunarskóla í Kaupmannahöfn. Átti kæra ættingja í Danmörku. Bjó og starfaði í nær sex áratugi í Bandaríkjunum. Maddý sagði mér að það hefði verið stórt skref fyrir sig að fara til Ameríku og alls ekki auðvelt. Örn hefði verið í námi, mikilli vinnu og lítið sést heima fyrir. Lífið hefði oft verið erfitt og hún stundum einmana. Ýmis félagsstörf og samskipti við Íslendinga hjálpuðu henni. Maddý vann að góðgerðarmálum m.a. á sviði heilbrigðismála. Setti árlega upp íslenskt jólaborð og hélt barnajólaböll í „The Swedish Institute“. Greiddi götu íslenskra nemenda og fjölskyldna þeirra í áratugi. Þá eru ótaldar allar stórveislurnar og móttökurnar sem hún hélt fyrir Íslendinga heima á Arnarhóli eða í Grænuhlíð. Þessari opinberu hlið á Maddý kynntist ég bara af afspurn. Ég þekkti fjölskyldukonuna. Elli kerling fór ekki blíðum höndum um Maddý og tók mikið frá henni. Það var sárt. Maddý, sem hafði ánægju af að vera með fólki, spjalla, syngja og hafa gaman, missti málið og fleira. Það var erfitt. Maddý breyttist þó ekkert, fylgdist vel með öllu, hafði sama brennandi áhuga á lífinu og unga fólkinu og brosti sínu fallega, hlýja brosi. Með hjálp tölvu gat hún verið í samskiptum. Örn og Maddý ferðuðust mikið, sinntu vel fjölskyldu sinni og stórum vinahópi, komu reglulega til Íslands og tóku virkan þátt í menningarlífinu þar sem þau voru stödd hverju sinni.

Við fjölskyldan sendum Erni og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Sigurbjörg (Idda). mbl.is/minningar

Ég kvaddi hana Maddý mína í hinsta sinn á undurfögrum septemberdegi, fjórum dögum fyrir afmælið okkar, vitandi að þetta gæti verið síðasta kveðjan. Hún var ótrúlega hress miðað við veikindin og þrátt fyrir að geta ekkert talað gat hún tjáð sig með snertingu og brosi; þessu einstaklega fallega brosi sem allt og alla bræddi. Við ræddum afmælisdaginn og hvað við ætluðum að gera til að halda upp á hann, þ.e. ég talaði og hún brosti, kreisti höndina mína, strauk kinnina mína og hló og gaf mér allt sem hún átti. Við kynntumst fyrir 29 árum þegar við fjölskyldan fluttum til Minnesota en þá voru þau heiðurshjón búin að búa hér í 30 ár. Ég ætlaði svo sannarlega ekki að búa hér vestra í meira en eitt ár, hámark tvö, en 29 árum seinna erum við enn hér og með mikilli hjálp Maddýjar og hennar einstöku hlýju og góðu nærveru höfum við stungið niður rótum og orðið stoltir Minnesota-búar. Hún sagði mér einhvern tímann að Gulla Björnsson heitin hefði sagt að þegar við værum farnar að bíða eftir því árlega að State Fair byrjaði og nytum þess að vera í 35 stiga hita og raka þá fyrst værum við orðnar „Minnesotan“. Við Maddý vorum sammála um að þessu fyrra myndum við aldrei ná en ákváðum að það þýddi það að við værum íslenskar fyrst og „Minnesotan“ í okkur væri svo í öðru sæti. Íslendingurinn í Maddý hvarf aldrei og stoltari landa hef ég sjaldan hitt.

Maddý kenndi mér ótal margt og þá sérstaklega það að „blómstra þar sem mér er plantað“ en hún var meistari í því. Bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu því hún var mikil og góð garðyrkju- og blómakona en ekki síður var hún einstaklega jákvæð manneskja sem átti gott með að sjá það góða í öllu, hversu erfitt sem það virtist við fyrstu sýn. Hún blómstraði í Minnesota sem manneskja, eiginkona, mamma, amma og tengdamamma og gerði öllum í kringum sig kleift að blómstra. Það var ekki alltaf auðvelt, hún sagði mér einhvern tímann að einu sinni sem oftar hefði hún fengið bréf í pósti sem skrifað var til Mrs. Örn Arnar og hún velti fyrir sér hvað hefði orðið um hana Margréti Kristjánsdóttur frá Ísafirði en hún fann leiðir til að blómstra og lét ekki smámuni lífsins byrgja sér sýn. Hún var stolt, tignarleg og einstaklega glæsileg kona og það var mannbætandi að umgangast hana.

Maddý og Örn voru höfðingjar heim að sækja og þær eru ófáar veislurnar sem þau hafa haldið fyrir Íslendinga og þau hafa verið miðpunkturinn í íslenska samfélaginu í Minnesota í tugi ára. Þau hjónin voru samstiga í því að ekkert væri nógu gott fyrir Íslendinga og þau gerðu líf okkar sannarlega ríkara og skemmtilegra með örlæti sínu, umhyggju og gæsku.

Elsku Örn, Anna, Benni, Rannveig og Kristján, við finnum til með ykkur en minningin um yndislegu Maddý gerir sorgina aðeins bærilegri. Það var svo fallegt að sjá hversu vel þið önnuðust Maddý í veikindunum; óeigingjörn, hlý og örlát. Þið eruð einstök.

Katrín Frímannsdóttir

og Haraldur Bjarnason

(Kata og Halli).

Kæra Maddý. Við kveðjum þig með söknuði og þökkum þér áralanga vináttu.

Ég man mjög vel hvenær og hvernig við hittumst fyrst í Minnesota. Ég var nýbyrjuð í hjúkrunarfræðinámi haustið 1986 og Arnór búinn að vera lengur. Þið Örn áttuð miða á tónleika sem þið gátuð ekki notað og vilduð láta stúdenta njóta góðs af. Ég man ekkert eftir tónleikunum, en man mjög vel þegar við Arnór komum að sækja miðana. Þið tókuð svo einstaklega vel á móti okkur.

Við vorum, eins og margir aðrir íslenskir stúdentar, tíðir gestir á heimili ykkar. Það var alltaf veisla þegar við heimsóttum ykkur, vetur, sumar, vor og haust, og tilefnin margvísleg. Og þú potturinn og pannan í öllu. Það er svo margt að þakka fyrir og gott að rifja upp á þessum tímamótum.

Boðin á ykkar fallega heimili voru okkur stúdentum ótrúlega mikilvæg í mörgum skilningi. Það var alltaf gaman! Boðin voru ekki einvörðungu tilbreyting í oft mjög einhæfu og jafnvel fátæklegu stúdentalífi, við fengum góðan mat og skemmtum okkur vel. En það var ekki allt; við vorum einstaklega velkomin til ykkar og fundum vel hversu annt þið létuð ykkur um velferð okkar. Þið fylgdust svo vel með, á ykkar hógværa og glaðlega máta, hvernig okkur vegnaði og við vissum að í ykkur áttum við bakhjarl ef eitthvað bjátaði á. Eitt 17. júní-boð í Grænuhlíð er sérlega eftirminnilegt. Þið buðuð fjölda manns eins og vanalega og það var glatt á hjalla. Við sigldum á Lake Minnetonka, Kristján sonur þinn dró okkur á sjóskíðum þvers og kruss yfir vatnið og söngur ómaði fram eftir kvöldi.

Þið hafið margsinnis boðið mér að búa hjá ykkur í ferðum mínum til Minneapolis; eftirminnilegast fyrir nokkrum árum þegar ég sárlasin hírðist á hóteli við háskólann og þú vildir láta Örn sækja mig svo mér gæti batnað almennilega. Þið voruð okkar fjölskylda í margvíslegum skilningi og nú eigið þið ótrúlega stóran barnahóp, auk hins myndarlega hóps sem stendur ykkur næst.

Það er svo dýrmætt að hafa fengið að njóta vináttu þinnar og ykkar Arnar í öll þessi ár. Sérstaklega var gaman að þið skylduð koma í sextugsafmælið okkar Arnórs í Gróttu fyrir tveimur árum. Þú áttir orðið erfitt með tal en lést það ekki á þig fá og notaðir I-paddinn til að tala við fólk. Áhuginn fyrir fólki og málefnum var samur og fyrr og gleðin í fyrirrúmi.

Við sendum Erni, Önnu, Rannveigu, Bernharði, Kristjáni og þeirra fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur. Megi góðar minningar um yndislega konu ylja ykkur í sorginni.

Helga og Arnór.

Þó þú langförull legðir

sérhvert land undir fót,

Við í stjórn Hollvinafélags Minnesotaháskóla viljum minnast Margrétar Arnar eða Maddýjar, eins og hún var alltaf kölluð, með nokkrum orðum.

Íslendingar hafa ætíð verið víðförulir, sótt sér menntun erlendis eða ákveðið að flytjast búferlum. Þá skiptir samveran við landann miklu máli. Fjölmargir Íslendingar hafa sótt menntun sína til Háskólans í Minnesota (University of Minnesota) í Bandaríkjunum og í því ríki er einnig fjöldi Vestur-Íslendinga.

Þannig hófst saga Maddýjar Arnar vestanhafs þegar hún fluttist með eiginmanni sínum, Erni Arnar lækni, sem var að hefja sérnám við Minnesotaháskóla. Þau hjón tóku virkan þátt í samfélagi Íslendinga og Vestur-Íslendinga sem var og er mjög samheldið. Maddý var ein af máttarstólpum þessa samfélags, hún tók virkan þátt í starfi „The Hekla Club“, elsta kvenfélagsins í Vesturheimi, ásamt því að sinna menningarstarfi og var óþreytandi að kynna land og þjóð.

bera hugur og hjarta

samt þíns heimalands mót.

(Stephan G. Stephansson)

Ætíð var talað um Maddý og Örn í sömu andrá, þau voru teymi og sinntu af mikilli trúmennsku vesturíslenska samfélaginu auk annarra Íslendinga sem fluttust búferlum eða dvöldu í Minnesota til skamms tíma. Að vera stúdent erlendis getur verið flókið en jafnframt spennandi. Það tekur tíma að koma sér fyrir í öðru landi og annarri menningu, kynnast kerfinu og takast á við annað það sem fylgir. Það fyrsta sem íslenskir stúdentar fengu að vita var að alltaf væri hægt að leita til Maddýjar og Arnar eftir aðstoð eða upplýsingum og síðan var heimboð að hausti eða vori á heimili þeirra hjóna, sem þau nefndu Arnarhól. Heimili þeirra var mikið menningarheimili og þau höfðingjar heim að sækja.

Einnig verður að minnast á óþrjótandi starf þeirra hjóna við að styðja við stúdenta frá Háskóla Íslands sem komu til Minnesota í gegnum Styrktarsjóð Valdimars Björnssonar. Maddý og Örn hafa unnið mikið starf við að bæði efla sjóðinn og kynna hann.

Maddý sinnti óeigingjörnu starfi fyrir samfélagið fyrir vestan meðfram því að sinna sínu eigin heimili og stórri fjölskyldu. Hún tók öllum fagnandi með sínu fallega viðmóti og hafði einlægan áhuga á því sem hver og einn var að gera í sínu námi og vellíðan þeirra. Fyrir það verður seint fullþakkað.

Stjórn Hollvinafélags Minnesotaháskóla sendir Erni, börnum og öðrum ættingjum innilegar samúðarkveðjur. Hugur okkar er fyrir vestan á þessari kveðjustund.

Fyrir hönd stjórnar Hollvinafélags Minnesotaháskóla,

Jónína Kárdal

formaður.