[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Valur Gíslason fæddist 20. september 1959 í Ólafsfirði og ólst þar upp. Hann bjó í Ólafsfirði fram til 2007 þegar fjölskyldan flutti til Akureyrar þar sem hann hefur verið búsettur síðan. Björn Valur útskrifaðist með 3.

Björn Valur Gíslason fæddist 20. september 1959 í Ólafsfirði og ólst þar upp. Hann bjó í Ólafsfirði fram til 2007 þegar fjölskyldan flutti til Akureyrar þar sem hann hefur verið búsettur síðan.

Björn Valur útskrifaðist með 3. stigs skipstjórnarpróf frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1984, hann lauk kennsluréttindanámi frá Háskólanum á Akureyri sem framhaldsskólakennari árið 2006 og tók fanskt skipstjórnarpróf í Concarneau í Frakklandi haustið 2018. Hann hefur jafnframt lokið fjölmörgum starfstengdum réttindanámskeiðum hér heima og erlendis á undanförnum árum.

Björn Valurbyrjaði til sjós 15 ára gamall á bátum í Ólafsfirði. Hann var sjómaður og síðar stýrimaður og skipstjóri á bátum og togurum frá Ólafsfirði, þ.ám. sumum af farsælustu togurum Íslands t.d. Sólbergi ÓF-12 og Kleifabergi ÓF-2. Hann var yfirmaður á norskum flutningaskipum á árunum 2013-2016. „Ég hef frá árinu 2017 starfað sem skipstjóri í Frakklandi og tók vorið 2018 við togaranum EMERAUDE, nýjum og fullkomnum frystitogara gerðum út frá Saint Malo í Frakklandi og er skipstjóri á því skipi í dag.“ Björn Valur hafði umsjón með og kenndi fyrsta stig skipstjórnar í Ólafsfirði í tvö ár og hélt fjölda námskeiða fyrir smábátasjómenn á Norðurlandi í mörg ár, svokallað pungapróf.

Björn Valur var bæjarfulltrúi Vinstrimanna og óháðra í Ólafsfirði á árunum 1986-1998 og gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir bæjarfélagið á þeim tíma. Hann var kjörinn á Alþingi fyrir Norðausturkjördæmi vorið 2009 og sat á þingi til 2013. Björn Valur var varaformaður og síðar formaður fjárlaganefndar Alþingis á árunum eftir hrun, formaður samgöngunefndar, formaður þingflokks Vinstri-grænna og varaformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í nokkur ár, svo fátt eitt sé nefnt.

Björn Valur starfrækti ásamt áhöfninni á Kleifabergi ÓF-2 hljómsveitina Roðlaust og beinlaust sem gaf út nokkra geisladiska með sjómannalögum sem seldir voru til styrktar Slysavarnaskóla sjómanna. Björn Valur hefur samið fjölda laga og texta og hafa nokkur þeirra verið gefin út á geisladiskum hljómsveitarinnar.

„Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á tónlist, hlustað mikið á tónlist og lærði á gítar í nokkur ár. Ég hef frá barnsaldri stundað stangveiðar í ám og vötnum á Norðurlandi og geri enn.“

Björn Valur verður um borð í skipi sínu EMERAUDE í dag.

Fjölskylda

Eiginkona Björns Vals er Þuríður Lilja Rósenbergsdóttir, f. 12.8. 1961, náms- og starfsráðgjafi. Foreldrar hennar voru hjónin Rósenberg Jóhannsson leigubílstjóri, f. 27.5. 1928 d. 13.7. 1974, og Sigurbjörg Petra Hólmgrímsdóttir tónlistarkona, f. 2.5. 1936, d. 27.4. 2006.

Börn Björns Vals: 1) Björgvin Davíð, f. 17.10. 1976, d. 5.9. 1992; 2) Sigurveig Petra, f. 2.1. 1981, leikskólakennari, búsett á Akureyri. Sonur hennar er Björgvin Máni, f. 5.10. 2003; 3) Berglind Harpa, f. 18.9. 1985, þroskaþjálfi, búsett á Akureyri. Eiginmaður Ágúst Örn Pálsson, starfsmaður Akureyrarbæjar í Hlíðarfjalli. Börn þeirra eru Edda Vigdís, f. 31.3. 2010, og Valur Páll, f. 15.1. 2015; 4) Katla Hrund, f. 13.10. 1990, sjávarútvegsfræðingur, búsett í Danmörku. Sambýlismaður Kevin Prömpler viðskiptafræðingur: Dóttir Kötlu er Fanndís Bára, f. 14.11. 2011.

Systkini Björns Vals eru Aðalsteinn Stefán, 27.1. 1951, athafnamaður, búsettur í Mosfellsbæ; Gísli, f. 23.8. 1953, rekstrar- og mönnunarfulltrúi Samkaupa, búsettur í Reykjavík; Kristín Jónína, f. 25.6. 1965, kennari í Reykjavík, búsett á Seltjarnarnesi.

Foreldrar Björns Vals voru hjónin Gísli M. Gíslason, skipstjóri og netagerðarmeistari, f. 27.3. 1924, d. 27.9. 2009, og Sigurveig Anna Stefánsdóttir húsmóðir, f. 15.5. 1930, d. 8.4. 2015. Þau voru búsett í Ólafsfirði.