Ég fékk gott bréf þar sem segir: „Þegar Halldór Blöndal var forseti alþingis eftir langan feril sem almennur þingmaður og ráðherra ortu bræðurnir Jón og Magnús Magnússynir frá Staðarbakka í Miðfirði limru í orðastað Halldórs og frumflutt var á...

Ég fékk gott bréf þar sem segir: „Þegar Halldór Blöndal var forseti alþingis eftir langan feril sem almennur þingmaður og ráðherra ortu bræðurnir Jón og Magnús Magnússynir frá Staðarbakka í Miðfirði limru í orðastað Halldórs og frumflutt var á árshátíð Húnvetningafélagsins í Reykjavík árið 2000“:

Ég held er ég hugsa til baka

þótt hafi af nógu að taka

að eitt upp úr standi

á Ísalandi

að nú undir Hvalfjörð má aka.

Ólafur Stefánsson skrifar á Leir: „Það er gömul saga og ný að snjallyrði og skáldskapur er oft kennt frægum persónum, þótt viðkomandi sé ekki höfundur að, og hið haga orð kannski miklu eldra en sá sem talinn er hafa átt hugmyndina. Sama hugsun getur komið fram í margskonar myndum öld eftir öld og aftur í gráa forneskju ef hægt er að rekja svo langt.

Vísa sem sumir kenna við Goethe og Magnús Ásgeirsson þýddi svo snilldarlega er svona:

Hvar sem söngvar hljóma þér,

hefurðu samfylgd góða.

Vondum mönnum var og er

varnað allra ljóða.

Þessa hugsun má finna í bókum, þótt Goethe karlinum sé alveg sleppt í upptalningunni. Í Don Quijote Servantesar, sem reyndar er ekki ófrægari Goethe, en tveimur öldum eldri, stendur: „Náðuga frú, þar sem músík er getur ekkert slæmt þrifist.“

Og í enn eldri bók frá 1543 segir í einu ljóða Luthers: „Hér ber enginn illan hug, af íþrótt sungið bæði og dug.“

En það var reyndar Johann Gottfried Seume (1763-1810) sem hitti naglann á höfuðið í söngvum sem hann gaf út 1804:

Ef söngur hljómar, sestu þar í næði

sorgarlaust, slíkt vita landar hér.

Hvar söngur hljómar, enginn rændur er,

illar sálir þekkja'ei nokkurt kvæði.

En alþýðan sem oftast á síðasta orðið stytti það svona og gerði ódauðlegt :

„Hvar söngur hljómar, sestu þar í næði,

svaðamenni þekkja engin kvæði.““

Vindar gjalla viknar jörð

varmi allur þrýtur,

blikna hjallar hlíð og skörð

hærast fjallastrýtur.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is