Hagalín Guðmundsson fæddist 20. júlí 1921 í Innri-Hjarðardal, Önundarfirði. Hann lést 11. september 2019 á Hjúkrunarheimilinu Grund.

Foreldrar hans voru Sigríður Hagalínsdóttir, f. 1885, d. 1947, og Guðmundur Gilsson, f. 1887, d. 1978. Systkini Hagalíns eru níu: Gils (1914-2006), Ingibjörg (1916-2014), Helga (1918-1940), Þórunn (1920-2011), Kristján (1923-2013), Magnús (1924-2006), Ragnheiður (1925-2014), Páll (1927-2016) og Bjarni, f. 1930.

Árið 1950 kvæntist Hagalín Þórdísi Guðmundsdóttur (1924-1992) frá Ytra-Vatni, Skagafirði. Börn þeirra eru: 1) Yngvi, f. 1950, kvæntur Guðbjörgu Halldórsdóttur. Fyrri kona hans var Sólveig Victorsdóttir. Þau eiga einn son, fjögur barnabörn og eitt barnabarnabarn. 2) Sigríður, f. 1952, gift Skafta Þ. Halldórssyni. Þau eiga þrjú börn og þrjú barnabörn. 3) Guðrún, f. 1953, gift Arne B. Vaag. Þau eiga þrjá syni og fimm barnabörn. 4) Guðmundur, f. 1956, kvæntur Ágústu Halldórsdóttur. Þau eiga þrjú börn og átta barnabörn.

Hagalín stundaði nám við Núpsskóla 1939-40 og síðar við Bændaskólann á Hvanneyri 1943-1945. Þau Þórdís tóku alfarið við búinu í Innri-Hjarðardal 1950 og bjuggu þar til ársins 1988 er þau fluttust í Kópavog þar sem Hagalín bjó þar til hann fór á Hjúkrunarheimilið Grund 2016.

Hagalín sinnti ýmsum störfum meðfram búskapnum. Hann var mjólkurbílstjóri og sláturhússtjóri á Flateyri, var í hreppstjórn Mosvallahrepps, formaður Búnaðarfélags Mosvallahrepps, Ræktunarfélags V-Ísafjarðarsýslu, og sat í skólanefnd Holtsskóla. Hagalín kom á fót sjóminjasafni við Hjarðardalsnaust. Á seinni árum fékkst hann við ýmiskonar handverk, svo sem bókband en þó einkum glerlist.

Hann verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, 20. september 2019, klukkan 13.

Ekki veit ég með vissu hvað lífið er – eða dauðinn, ef því er skipta. Gerir það nokkur? Hitt veit ég líkt og aðrir að við eigum þetta ljósblik, lífið. Það er því best að baða sig í birtunni og láta ekki myrkrið yfirtaka okkur á meðan það er hægt. Mér fannst tengdafaðir minn, Hagalín Guðmundsson, bóndi í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði, löngum gera það betur en flestir aðrir þótt lífið væri honum stundum mótdrægt. Hann var ljúfur maður og elskulegur, barngóður og börnin hans og barnabörn dáðu hann og elskuðu.

Hagalín var af þeirri kynslóð bænda sem tóku tæknina í notkun, rafvæddi heimilið með ljósavél áður en rafmagnið var lagt í sveitina, átti vörubíla, dráttarvélar, hleðsluvagna, mjaltakerfi, yfirleitt af nýjustu gerð. Hann átti alltaf góða bíla og góðar vélar. Hann var verkmaður góður og hafði jafnan á orði um óunnin verk að best væri að þeim væri lokið strax í gær.

Eitt það fyrsta sem ég skynjaði þegar ég kynntist honum var að hann var bæði frár og skyggn eins og sagt var um Arnfirðing nokkurn í Gísla sögu. Á yngri árum mátti sjá hann hlaupa upp um fjöll og sjón hans var svo góð að hann gat greint í sundur hvaða fé væri á fjalli í mikilli fjarlægð. Hann sá líka lengra en flestir aðrir, var bæði berdreyminn og draumspakur og hjálpaði mörgum sem áttu erfitt andlega. Draumar skiptu hann miklu.

Í lok 9. áratugarins neyddist Hagalín til að bregða búi og flytja í Kópavog vegna sjúkdóms konu hans, Þórdísar Guðmundsdóttur, sem veiktist af alzheimer. Það var jafnræði með þeim hjónum fram að því að sjúkdómurinn heltók hana og heimili þeirra mikið kærleiksheimili. Eftir að hún dó tók við langvarandi sjúkdómstímabil í ævi hans. Kannski lagðist líka sorgin svona þungt á hann. En einn góðan veðurdag hittum við kona mín hann við góða heilsu og glaðan í bragði. Hann hafði dreymt draum sem hann varð að segja okkur. Þegar hann sá Þórdísi, konu sína fyrst fór hann yfir Breiðadalsheiði á vörubíl sem hann átti á þeim árum. Hún hafði ráðið sig sem vinnukona á bæ innar í firðinum. Í draumnum var hann kominn til að sækja hana á Ísafjörð. Þau óku af stað og fóru einhverra hluta vegna oft utan vegar þýfða og grýtta heiðina. Bíllinn hristist og skalf og Hagalín tók eftir því að rifa myndaðist milli hans og Þórdísar í bílnum. Að lokum datt sæti hennar niður og hún greip í sæti hans og hékk á því nokkra stund. Að síðustu missti hún takið og féll niður.

Í seinni hluta draumsins sá hann Þórdísi á gráum hesti. Hann var svo stór að Hagalín velti fyrir sér hvort hann væri íslenskur. Þau voru stödd á miklu túni og hún benti blíðlega á brúnan hest í fjarska og sagði: „Þarna er þinn hestur.“

Svo var hún horfin.

Í botni þessa draums skynjum við vissulega vægðarlausa aðför veruleikans eins og Sigfús Daðason orðaði það í einu ljóða sinna en einnig birtuna; trúna, vonina og kærleikann.

Megi Hagalín hvíla í friði.

Skafti Þ. Halldórsson.

Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.

(121. Davíðssálmur)

Nú hefur elsku afi Hagalín kvatt þetta líf. Það tók hann tíma að sleppa tökum á lífinu, lífstakið var þétt. Líkt og vestfirska aldan sleppir seint taki á sendinni strönd Önundarfjarðar. Önundarfjörður, þar fæddist afi og ólst upp og bjó lengst af, í faðmi fjallanna. Þórustaðahorn og Þorfinnur gnæfa yfir Hjarðardalnum.

Hér kunni afi best við sig, hér átti hann heima. Ég var svo heppinn að fá að upplifa síðustu búskaparár afa og ömmu í Hjarðardalnum. Ég fór hvern morgun eftir mjaltir fram að Stórasteini með kýrnar og hljóp sem fætur toguðu heim í hafragraut og súrt slátur. Ég fékk að upplifa og læra hvernig afi og amma báru endalaust virðingu fyrir náttúrunni og skepnunum. Hvernig þau voru hluti af þessari fallegu en hörðu náttúru og afi var svo sannarlega náttúrubarn.

Hann þekkti hvern stein, hverja öldu, hverja þúfu og hvert mið í fjöllunum þegar farið var á sjó til veiða.

Hann var bóndi af Guðs náð. Hann las búnaðarritið og kynbótaskýrslur þegar hann lagði sig eftir hádegismatinn. Engar ákvarðanir voru teknar án nákvæmrar yfirlegu. Hann og amma Dísa umgengust sínar skepnur af virðingu, án alls asa. Þau kunnu best við sig í samspili við náttúruna. Við erum mörg sem kunnum best við okkur í náttúrunni og í návist við dýrin. Kannski er það vegna þess að náttúran minnir okkur á hvaðan við erum og hvar við eigum heima. Þessi harða náttúra Vestfjarða sem gerir manneskjuna ógnarsmáa. Fjöllin eru þar ár eftir ár, öld eftir öld, há, fögur og hrikaleg. Þau vaka yfir og umvefja kynslóðir sem koma og fara.

Afi Hagalín var einn af þeim síðustu af sinni kynslóð sem kveðja. Kynslóð sem ólst upp við að allir þurftu að leggja sitt af mörkum, hversu gamall sem maður var. Hann sagði mér sögur af því þegar hann gekk til prestsins í Holti í undirbúningi fermingar. Margar nætur áður var farið á sjó og þreytan var farin að segja til sín hjá ungum dreng.

Það endaði þannig að afi sofnaði undir kirkjuveggnum og kom allt of seint til fræðslunnar og fékk tiltal fyrir. Hann vann einnig sem unglingur við að bera 50 kg sekki allan daginn í Síldarvinnslunni á Sólbakka og þegar heim var komið tóku hefðbundin bústörf við. Svona liðu dagarnir og árin í skjóli fjallanna.

Í Biblíunni er Guði oft líkt við klett eða fjall. Og á sama hátt og fjallið er stöðugt og bærist ekki, er Guð stöðugur og bærist ekki, þrátt fyrir að margt í okkar lífi sé óreiðukennt og úr jafnvægi. Þá er Guð þar, sama hvað. Hann vakir yfir kynslóðum sem koma og fara, alveg eins og fjöllin háu fyrir vestan. Í dag felum við traustasta fjallinu afa Hagalín.

Í skjóli þess hittir hann ömmu Dísu sem finnst hún örugglega vera búin að bíða allt of lengi eftir afa en að lokum sleppti hann takinu á vestfirsku ströndinni og sigldi á ný mið.

Elsku afi, takk fyrir allt og allt.

Haraldur Örn Gunnarsson.

„Jáá jááá, það er nú líkast til.“ Afi okkar ljúfmennið og barnakallinn er nú farinn til ömmu og eflaust farinn að hjálpa henni að sinna blómunum og hitta Binna vin sinn.

Það var alltaf ljúft að komast í sveitina til afa og ömmu, þar tóku þau á móti okkur með opnum örmum og besta hafragraut í heimi. Hjá þeim lærðum við að bera virðingu fyrir öllu lifandi en þau voru bæði natin og umhyggjusöm gagnvart dýrunum og hugsuðu vel um gróðurinn.

Sumrin í Hjarðardal gáfu okkur þær dýrmætustu minningar sem við berum í brjósti. Fegurð fjarðarins og væntumþykjan alltumvefjandi frá bæði afa og ömmu. Dagarnir voru teknir snemma í mjöltum, Bragi fór snemma að fá ýmis krefjandi störf.

Allt frá því að rabba við Sokku og Ljómalind (kýr), leika við Kát og Snotru (hundar), gefa morguntöðuna og rölta með kýrnar í úthagann.

Afi var okkur fyrirmynd í nánast öllu. Hann var gríðarlega vinnusamur og sinnti því sem sinna þurfti án þess að þurfa sérstaka hvatningu til. Sveitastörfin voru mörg og ekki einangruð við hefðbundin húsdýr heldur sinnti hann æðarvarpi, herti fisk, reykti kjöt og verkaði.

Við sem vorum svo heppin að eiga þennan afa fengum svo að fylgja með í flest verk enda sótti hann í félagsskap og hafði gaman af fólki. Þegar fólk upplifir einstaklinga eins og Hagalín afa er erfitt að einangra fá atvik sem skilgreina manneskjuna.

Nóg er að hugsa um afafang, ímynda sér lyktina og hlýjuna og finna ástina sem streymdi fá honum til okkar allra.

Þegar amma og afi fluttu í Kópavoginn nutum við þess að hafa þau nær okkur. Afi kom og passaði þegar eitthvert okkar var lasið, keyrði í tónlistarskólann, fór með á slysó og bakaði heimsins bestu jólakökur og hafrakex, sem var svo smurt með allt of miklu smjöri.

Honum var margt til lista lagt og þurfti alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni.

Hann tók upp glerlist og bókband eftir að amma dó og var sérstaklega iðinn við glerlistina. Varla er til það heimili Önfirðinga sem ekki skartar glerlist eftir afa.

Að minnsta kosti eru heimili okkar skreytt með listaverkum eftir afa sem við höldum mikið upp á og þykir vænt um.

Þó að honum þætti nú gott að fá kökur og sérstaklega ís, þá passaði þessi mikli sælkeri sig alltaf á því að gæta hófs. Hann hugsaði vel um heilsuna, borðaði hollt og hreyfði sig mikið á hverjum degi og gaf okkur oft góð ráð varðandi heilsu.

Það var alltaf stillt á Rás 1 hjá afa og hann tók samviskusamlega þátt í morgunleikfiminni í útvarpinu á hverjum degi. Þegar við vorum saman í bústaðnum okkar í Hjarðardal tókum við að sjálfsögðu líka þátt í henni.

Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að hafa afa hjá okkur öll þessi ár og hugsum til baka með hlýju í hjarta. Hagalín afi er í okkar huga allt það besta sem mannkynið hefur boðið upp á.

Enn þann dag í dag höfum við ekki hitt manneskju sem getur talað um afa Hagalín á neikvæðan hátt. Hann var hjálpsamur, góður við bæði dýr og menn og tók ábyrgð sína í samfélagi manna alvarlega.

Bragi Skaftason,

Sólveig Skaftadóttir,

Sigrún Skaftadóttir.