Kjartan Konráð Úlfarsson fæddist á Vattarnesi við Reyðarfjörð 10. júní 1935. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Boðanum í Kópavogi 4. september 2019.

Kjartan var sonur Úlfars Kjartanssonar útvegsbónda á Vattarnesi, f. 26. nóv. 1895, d. 22. mars 1985, og Maríu Ingibjargar Halldórsdóttur húsfreyju, f. 16. sept. 1897, d. 29. sept. 1939.

Systkini Kjartans eru: Kjartan, f. 1917, d. 1917, Halldóra Hansína, f. 1918, d. 2000, Jón Karl, f. 1920, Eygerður, f. 1922, d. 1982, Indíana Björg, f. 1924, d. 2008, Bjarni Sigurður, f. 1926, d. 2013, Aðalbjörn, f. 1928, d. 2009, Steinunn Sigurbjörg, f. 1931, d. 2018, Hreinn, f. 1937, d. 2017, og María Úlfheiður, f. 1939.

Kjartan kvæntist 4. janúar 1958 Margréti Andersdóttur, f. 1934 í Vestmannaeyjum. Börn þeirra eru 1) Anders, f. 1961, maki Dagbjört Þuríður Oddsdóttir, f. 1963. Börn þeirra eru a) Margrét, sambýlismaður Ingþór Zóphoníasson, b) Heiður Karítas, sambýlismaður Fannar Már Oddsson, c) Kristín Harpa, sambýlismaður Bjarni Hrafn Magnússon, Bjarni á tvö börn. d) Davíð. 2) María Ingibjörg, f. 1964, maki Andrés Eyberg Jóhannsson, f. 1966. Börn þeirra eru a) Herbjörg, maki Friðrik Hilmar Zimsen Friðriksson, b) Jóhann Reynir. 3) Úlfar, f. 1965, maki Ingunn Heiðrún Óladóttir, f. 1963. Börn þeirra eru a) Viktor Daði, b) Sandra Mist.

Kjartan flutti 15 ára gamall til Vestmannaeyja þar sem hann lærði rennismíði í Vélsmiðjunni Magna og varð meistari í þeirri iðngrein. Kjartan starfaði við rennismíði allt til ársins 1971 þegar hann hóf störf hjá Samvinnutryggingum og síðar hjá VÍS þar sem hann vann til starfsloka. Kjartan og Margrét byrjuðu sinn búskap í Vestmannaeyjum þar sem þau byggðu sér hús en fluttu til Reykjavíkur 1967, síðar í Garðabæ og síðustu árin bjuggu þau í Kópavogi.

Útför Kjartans fer fram frá Lindakirkju í dag, 20. september 2019, klukkan 13.

Nú þegar ég kveð föður minn og lít yfir farinn veg er margs að minnast. Ég var á unglingsárum þegar foreldrar mínir ákváðu að kaupa fokhelt raðhús og fjölskyldan myndi flytja í Garðabæ. Næstu mánuði á eftir var unnið sleitulaust í því að byggja upp húsið og á örfáum mánuðum tókst að koma því í það horf að hægt var að flytja inn í það. Við tóku ár þar sem ég fékk tækifæri til að vinna með pabba að ýmsum verkefnum í húsinu og einnig í bílskúrnum, þar sem fengist var við ýmis verkefni. Gilti einu hvort um var að ræða bílaviðgerðir eða smíðavinnu af ýmsu tagi.

Allt lék þetta í höndum hans. Hann hafði sem ungur maður lært rennismíði og var meistari í þeirri iðn. Í bílskúrnum var rennibekkur sem var óspart notaður og þá stundum galdraðir fram hlutir sem manni hefði ekki dottið í hug að hægt væri að smíða heima í bílskúr. Pabba óx ekkert í augum, hann var vandvirkur og úrræðagóður og það var sama hvað var, hann var alltaf tilbúinn að takast á við þau verkefni sem fyrir lágu. Hann var alltaf tilbúinn að aðstoða fjölskyldu og vini og gilti einu hvort það var heima við, austur á landi eða jafnvel í Noregi.

Eins var um heimili foreldra minna að þar var alltaf opið fyrir alla og tekið á móti gestum um skemmri eða lengri tíma ef þörf krafði. Pabbi hafði mikla ánægju af því að ferðast og þá sérstaklega um hálendi Íslands. Sérstaklega er mér minnisstætt þegar við feðgar tókum á móti tveimur frændum okkar frá Bandaríkjunum og keyrðum með þá um Ísland sumarið 1993. Dugði þá ekkert minna en að fara á tveimur bílum og var farið víða um, t.d. upp að Skálafellsjökli í sunnanverðum Vatnajökli og inn í Öskju til að sýna gestunum landið. Þessi ferð var ágætt dæmi um gestrisni hans og hvernig hann vildi taka á móti fólki sem heimsótti hann. Ekkert var til sparað og reynt að gera ferðina sem eftirminnilegasta. Hann var mér ómetanleg fyrirmynd og hef ég búið að því.

Blessuð sé minning hans.

Úlfar.

Nú hefur tengdafaðir minn, Kjartan Konráð Úlfarsson, eða Daddi eins og hann var jafnan kallaður, kvatt þetta líf. Á kveðjustundu hellast minningarnar yfir, ljúfar og hlýjar, sem gott er að orna sér við. Ég kom inn í fjölskylduna fyrir rúmum 30 árum, feimin og kvíðin en það reyndist óþarfi, mér var frá fyrsta degi tekið opnum örmum af öllum í fjölskyldunni, hjónunum Dadda og Lillu og börnum þeirra. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Heimilislífið í Ásbúð 77 var einstaklega ljúft og gott. Það sem einkenndi fjölskylduna var gagnkvæm virðing, hlýja og einstök hjálpsemi og þar var gott að búa. Mér er sérstaklega minnisstæð hjálpsemin, það var sama hvað í gangi var, allir hjálpuðust að, ég sagði stundum í gríni að það væri ekki hægt að laumast til að mála eitt herbergi, allir voru komnir til aðstoðar. Daddi var einstaklega laghentur og það var ekkert sem ekki var hægt að laga eða bæta, sama hvort það voru húsgögn, heimilistæki eða bílar. Enda var það alltaf viðkvæðið hjá elsta barnabarninu ef eitthvað var að; „afi laga“, sama hvort það var bilaður hlutur, fatnaður eða sár á fingri. Gestrisnin í Ásbúð 77 var mikil og þess nutu mínir ættingjar ekki síður en aðrir. Foreldrar mínir, systkini og þeirra börn, allir velkomnir í Ásbúð, borðið hlaðið af veitingum og gisting ávallt velkomin.

Nú er 84 ára ævi lokið. Þegar ég hugsa til baka er þakklæti efst í huga, þakklæti fyrir að taka mér eins og ég er, fyrir að vera einstaklega umburðarlyndur og hjálpsamur tengdafaðir, fyrir að vera góður, fræðandi og umhyggjusamur afi og síðast en ekki síst að bíða eftir mér á kveðjustund, það var mér ómetanlegt.

Góða ferð, kæri tengdapabbi, hvíldu í friði. Við hugsum vel um Lillu þína.

Dagbjört Þuríður.

Nú kveðjum við góðan mann, tengdaföður minn Kjartan Konráð Úlfarsson eða Dadda eins og hann var alltaf kallaður. Tengdapabbi var úrræðagóður og bjó yfir þeim einstaka hæfileika að finna lausnir á öllu, hvort sem það var að gera við bíla, breyta húsnæði eða smíða jólagjafir handa barnabörnunum, allt var þetta gert af einstakri fagmennsku og útsjónarsemi.

Það voru ófá skiptin þar sem við settumst niður og hann hannaði nýtt verkfæri til að leysa vandamál sem kom upp, svo var það smíðað og málið leyst og auðvitað var það látið heita að við hefðum hannað verkfærið saman.

Betri kennara gat ég ekki fengið við að undirbúa mig og okkur Maríu að byrja að takast á við fjölskyldulífið. Ég kem inn í fjölskylduna, hafði engan áhuga á bílum, kunni ekkert á þá göfugu iðn að smíða eða skapa eitthvað, en það kom ekki að sök, mér var strax treyst fyrir því að rafsjóða og renna í rennibekknum það sem þurfti, maður lærir jú á mistökunum, og gerir hlutina bara aftur og allir tóku þátt í þessu saman því allt var þetta fjölskylduverkefni, sama hvort það var að gera við bílinn okkar eða að flísaleggja baðherbergið, allir komu saman að verkinu. Hann hafði einstakt lag á að drífa okkur yngra fólkið áfram við verkin og sá til þess að verkin voru kláruð af fagmennsku. Að verki loknu var svo alltaf tími til að skreppa í bíltúr og skoða brimið á Reykjanesinu eða skreppa austur fyrir fjall og skoða brúarframkvæmdir. Seinustu árin var líkaminn farinn að gefa eftir en hugurinn var alltaf til í framkvæmdir, og ef við höfðum á orði að við þyrftum að fara að gera þetta eða hitt þá var alltaf viðkvæðið „hvenær á ég að mæta“. Elsku Daddi, hvíl í friði, takk fyrir alla hjálpina og alla ráðgjöfina, án þín væri ég bara hálfur maður.

Þinn „uppáhalds“-tengdasonur,

Andrés Eyberg

Jóhannsson.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Með þessum fallegu orðum Ingibjargar Sigurðardóttur kveð ég elsku Kjartan móðurbróður minn, eða Dadda eins og hann var kallaður, með innilegu þakklæti fyrir allt. Ég á margar og góðar minningar tengdar Dadda og Lillu og þeirra fjölskyldu. Það er ljúft að líta til baka og hugsa um allar góðu stundirnar, hvort sem það voru heimsóknir, ferðalög eða ýmsar framkvæmdir sem hjálpast var að við.

Daddi var heill og sannur, traustur og alltaf boðinn og búinn að rétta fólkinu sínu hjálparhönd þegar á þurfti að halda, vildi allt fyrir það gera. Og þau stóðu sannarlega saman, hann og Lilla. Heimili þeirra hefur alltaf staðið ættingjum og vinum opið og þangað sannarlega gott að koma, alltaf auðfundið hversu velkominn maður er.

Fyrir alla ómetanlegu hjálpina sem ég hef fengið og allar góðu og gefandi stundirnar þakka ég af alhug.

Ég sendi Lillu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur og bið Guð að blessa allar góðu minningarnar um kæran frænda.

Gunnhildur Anna

Vilhjálmsdóttir.