„Þetta var sérstakt augnablik fyrir mig og fjölskylduna sem var í stúkunni. Það var draumur að spila hérna, en ég hefði viljað færa þeim eitt eða þrjú stig,“ sagði Rúnar Már Sigurjónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, eftir að hafa leikið á Old Trafford í Evrópudeildinni. Astana, lið Rúnars, mætti þar Manchester United en í aðdraganda leiksins kom fram í fjölmiðlum að Rúnar hefði verið stuðningsmaður enska liðsins um langa hríð.
United hafði betur 1:0 en Rúnar lék allan leikinn fyrir Astana.
„Þetta spilaðist eins og við reiknuðum með; þeir voru með boltann og markmaðurinn okkar átti góðan leik. Í stöðunni 0:0 og 1:0 trúðum við alltaf að við gætum skorað eitt mark og fengið stig, en við sköpuðum ekki nægilega mikið. United notaði unga leikmenn sem vildu sanna sig og við vorum nærri því að ná stigi,“ var ennfremur haft eftir Rúnari hjá UEFA.
Íslendingaliðin frá Rússlandi virðast ekki sterk ef marka má þessa fyrstu umferð riðlakeppninnar en þau töpuðu illa. Hörður Björgvin Magnússon lék allan leikinn með CSKA Moskvu sem tapaði fyrir Ludogorets í Búlgaríu, 1:5. Arnór Sigurðsson lék ekki með CSKA Moskvu vegna meiðsla.
Jón Guðni Fjóluson var á varamannabekknum hjá Krasnodar sem tapaði í Sviss fyrir Basel. Knattspyrnustjóri Krasnodar hefði líklega betur teflt Jóni fram í miðverðinum því Basel vann 5:0.
Arnór Ingvi Traustason lék fyrstu 86 mínúturnar með Malmö þegar liðið tapaði 1:0 fyrir Dynamo Kíev í Úkraínu. Albert Guðmundsson var á varamannabekk AZ Alkmaar sem gerði vel í að ná í 2:2-jafntefli við Partizan á útivelli, þrátt fyrir að vera manni færri frá 27. mínútu. sport@mbl.is