Viðar Garðarsson fæddist 24. október 1939 á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hann lést á Landspítalanum 4. september 2019.

Foreldrar Viðars voru hjónin Garðar Guðjónsson, f. 7.4. 1912, d. 15.12. 1995, bifreiðastjóri, og Freyja Eiríksdóttir, f. 27.8. 1915, d. 23.1. 2000, verkakona.

Systir Viðars: Ása Bryndís Garðarsdóttir, f. 28.4. 1949; skrifstofumaður, búsett í Reykjavík.

Viðar kvæntist Sonju Olsen Garðarsson, f. 12.8. 1941 í Noregi, húsfreyju, árið 1962. Börn Viðars og Sonju eru 1) Jón Garðar, f. 12.8. 1962, hótelstarfsmaður, búsettur í Reykjavík; 2) Viðar Freyr, f. 16.12. 1963, verslunarmaður, búsettur á Akureyri. Maki Jaruek Intharat, f. 31.3. 1973. Börn: Viðar Tiger, f. 10.6. 2008, og Natalie Freyja, f. 12.9. 2014; 3) Signe, f. 12.5 1966, verslunareigandi, búsett í Kópavogi. Maki: Heiðar Ingi Ágústsson, f. 10.6. 1968. Börn: Íris Kara, f. 25.7. 1989; Sunna Rún, f. 14.7. 1995, og Bryndís Eva, f. 20.12. 1997. Langafabörn, börn Írisar og Magnúsar Þórs Magnússonar, Karí, f. 2.6. 2015, og Sara, f. 1.6 2017. 4) Bryndís, f. 11.12. 1970, verslunarmaður, búsett á Akureyri. Maki: Aðalsteinn Helgason, f. 8.11 1971. Börn: Elmar Þór, f. 16.2. 1995; Viðar Óli, f. 24.8. 1998, og Sonja Marín, f. 18.7. 2004; 5) Margrét Sonja, f. 17.5. 1974, viðskiptafræðingur, búsett á Akureyri. Maki: Árni Kristinn Skaftason, f. 27.2. 1979. Börn: Kara Margrét, f. 18.1. 2009; Maron Már, f. 5.5. 2012, og Lovísa Mía, f. 8.1. 2014.

Viðar gekk í Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hann lauk prófi sem mjólkurfræðingur frá Statens Meieriskole í Þrándheimi í Noregi árið 1962. Viðar vann sem mjólkurfræðingur í ostagerð hjá Mjólkursamlagi KEA frá árunum eftir nám til ársins 1982. Árið 1980 stofnaði Viðar fyrirtækið Skíðaþjónustuna á Akureyri sem hóf sölu á skíðabúnaði, hjólum og tengdum vörum og þjónustu. Fyrirtækið byrjaði smátt í bílskúrnum heima við í Kambagerðinu en stækkaði fljótt og fluttist árið 1983 í eigið húsnæði á Fjölnisgötu þar sem verslunin hefur verið starfrækt æ síðan.

Skíði, skíðabúnaður og aðstæður til skíðaiðkunar áttu hug Viðars alla tíð, hann stundaði skíðaíþróttina af miklu kappi og var m.a. Íslandsmeistari í flokkasvigi. Viðar var frumkvöðull í skíðaíþróttinni og tók þátt í uppsetningu á fyrstu skíðalyftu Akureyringa, toglyftu í Hlíðarfjalli, sem var knúin áfram með gömlum mótor úr Mjólkursamlagi KEA. Viðar átti einnig farsælan feril sem skíðaþjálfari til margra ára. Viðar var sæmdur gullmerki Skíðasambands Íslands fyrir óeigingjarnt starf í þágu skíðaíþróttarinnar. Hann hlaut einnig viðurkenningu Íþróttaráðs Akureyrar fyrir störf að félags-, íþrótta- og æskulýðsmálum og athafna- og nýsköpunarverðlaun Akureyrar 2011 fyrir framúrskarandi þjónustu, þrautseigju og góðan rekstur fyrirtækis.

Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 20. september 2019, klukkan 13.30.

Einstakur vinur okkar, Viddi Garðars, er fallinn frá. Vidda kynntumst við þegar hann var skíðaþjálfari okkar hjá Skíðaráði Akureyrar þar sem hann var aðalþjálfari til margra ára. Sem þjálfari var hann þolinmóður og hvetjandi og hafði alltaf tíma fyrir okkur unga fólkið. Hann náði miklum árangri með sitt fólk og lagði grunninn að eftirtektarverðum árangri akureyrskra skíðamanna á árunum 1970-1980. Árangurinn sem hann náði með sínu fólki á Skíðalandsmóti Íslands á Siglufirði árið 1973 verður sennilega aldrei endurtekinn en þá hreppti félagið öll verðlaun sem í boði voru í alpagreinum. Viðar var hlédrægur en á þessu móti brosti hann alla daga og var stoltur af sínu fólki.

Viddi hélt úti æfingum í öllum veðrum og sagði að við myndum bara herðast við það. Við byggjum á Íslandi og þyrftum að geta tekist á við snjókomur og storma. Hann þýddi yfir á íslensku norsk hefti um skíðaþjálfun og það gerði hann til að gera okkur að betri skíðamönnum. Þegar skíðakeppni var fram undan byrjaði hann viku áður að undirbúa okkur fyrir keppnisdagana. Við áttum að hugsa um keppnisbrekkurnar, fá upp keppnisákafann og vera andlega tilbúin þegar að starti kæmi. Hann var líka okkar sálfræðingur.

Viddi lagði áherslu á samveru okkar iðkenda og í lok æfinga var ósjaldan legið í skíðabrekkunum, horft á fallegan stjörnubjartan himininn eða norðurljósin. Þessar stundir eru okkur ógleymanlegar.

Þegar þjálfunarferlinum lauk setti Viddi á stofn Skíðaþjónustuna sem hann rak allar götur síðan.

Þarna var gott að koma og eiga fjöldamargar fjölskyldur hér á Akureyri og á landinu öllu honum mikið að þakka. Þarna var hægt að koma með eldri útbúnað, skíði eða hjól, og skipta út fyrir stærra eða nýrra.

Oft á tíðum borguðu menn eftir efnum og aðstæðum og ósjaldan borgaði hann með sínum viðskiptamönnum.

Viddi gat verið svolítið þver og var ekki mikið að nýta sér nýjustu tækni. Hann var með borðsíma og svaraði ekkert of oft í hann, viðskiptavinirnir gátu bara komið á staðinn, og það gerðu þeir líka. Hann geymdi nótur og reikninga í rassvasanum og okkur er sagt að hann hafi ávallt vitað hvaða vörur hann fékk og hversu mikið, þótt skráningin væri ekki nema í hausnum á honum. Hann borgaði alla reikninga á réttum tíma og vissi nákvæmlega hvað hann skuldaði. Tölvur nýtti hann sér ekki, treysti á minnið. Viddi var nýtinn og nægjusamur og getum við sem erum honum yngri margt af honum lært.

Viddi flutti allar sínar vörur um bæinn á hvítum gömlum Volvo-bíl. Þegar þessi bíll var á götum bæjarins var eins og hann væri bílstjóralaus, en Viddi sat nú samt undir stýri, sást bara voðalega lítið.

Nú hefur þessi bíll lokið sínu hlutverki, hann komst ekki í gegnum síðustu skoðun, og það hefur kær vinur okkar líka gert. Þeirra lífsgöngu lauk á svipuðum tíma.

Kæri vinur, við þökkum þér samfylgdina og allt sem þú kenndir okkur.

Sonju og allri fjölskyldunni vottum við samúð okkar.

Margrét Baldvinsdóttir,

Tómas Leifsson.

Það var mikil blessun fyrir mig þegar leiðir okkar Vidda lágu saman í Hlíðarfjalli, ég þá 15 ára unglingur sem hafði nýverið eignast þrjár vinkonur sem allar hétu Margrét og voru þær mjög góðar á skíðum, sjálf kunni ég nánast ekkert fyrir mér í þeirri íþrótt. Skíðafólkið í Hlíðarfjalli tók einstaklega vel á móti mér sem nýliða í hóp þeirra og þar var Viddi fremstur í flokki með sitt ljúfa og hlýja viðmót sem einkenndi hann alla tíð. Hann kenndi mér á skíði, kenndi mér að njóta lífsins í Hlíðarfjalli með þeim góðu félögum og vinum sem vöndu komur sínar þangað bæði seint og snemma í hvaða verðri sem var. Þarna eignaðist ég góða vini og hafði þessi tími mótandi áhrif á líf mitt. Vináttubönd mín við Vidda rofnuðu aldrei, hann fylgdist af áhuga og einlægni með lífshlaupi mínu, barna minna og barnabarna og sýndi okkur öllum einstakt traust og virðingu, fyrir það hef ég ætið verið honum þakklát.

Blessuð sé minning Viðars Garðarssonar. Votta ég Sonju og afkomendum þeirra hjóna samúð mína og megi þau öll eiga farsælt líf.

Guðrún Frímannsdóttir.