Borgarfulltrúi Miðflokksins lagði fram tillögu í borgarstjórn í vikunni um að undirbúin yrði „uppsögn samnings Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um tilraunaverkefni til eflingar almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu...

Borgarfulltrúi Miðflokksins lagði fram tillögu í borgarstjórn í vikunni um að undirbúin yrði „uppsögn samnings Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um tilraunaverkefni til eflingar almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til 10 ára sem gerður var í maí 2012. Samhliða skuli brýnum úrbótum á helstu samgönguæðum borgarinnar, sem frestað var vegna samningsins, framhaldið.“

Vinstri flokkarnir í meirihlutanum, Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Vinstri grænir, ásamt Sósíalistaflokknum, felldu þessa tillögu, en auk Miðflokksins studdi Sjálfstæðisflokkurinn hana.

Vinstri flokkarnir börðu hausnum við steininn í bókun vegna tillögunnar þar sem þeir viðurkenndu að markmiðið um að auka hlutdeild almenningssamgangna hefði „ekki náðst ennþá en um 4% fara sinna ferða í strætó“. En þó að ekkert hafi gengið telja þessir flokkar ekki enn fullreynt!

Í bókun Sjálfstæðisflokks og Miðflokks er bent á að markmiðið hafi verið skýrt um að hlutdeild almenningssamgangna skyldi a.m.k. tvöfaldast á tímabilinu. Hlutfallið hefði ekkert breyst, en milljörðum verið varið af vegafé í verkefnið.

Í bókuninni segir ennfremur að fyrirhugað sé að fara í „sérstakt átak í vegamálum á höfuðborgarsvæðinu og því rímar framkvæmdastopp á sömu framkvæmdunum ekki við þær fyrirætlanir“.

Það er vægt til orða tekið.