Mynd Time af Trudeau.
Mynd Time af Trudeau.
Fjölmiðlar í Kanada birtu í gær gamalt myndskeið þar sem Justin Trudeau forsætisráðherra sést skopstæla hörundsdökkt fólk með því að vera með svartan andlitsfarða. Myndskeiðið var tekið snemma á síðasta áratug aldarinnar sem leið.
Fjölmiðlar í Kanada birtu í gær gamalt myndskeið þar sem Justin Trudeau forsætisráðherra sést skopstæla hörundsdökkt fólk með því að vera með svartan andlitsfarða. Myndskeiðið var tekið snemma á síðasta áratug aldarinnar sem leið. Trudeau baðst afsökunar í fyrradag vegna ljósmyndar sem tímaritið Time birti þar sem hann sést skopstæla þeldökkt fólk með því að nota dökkbrúnan andlitsfarða í veislu fyrir 18 árum. Hann viðurkenndi að hann hefði verið með svipaðan andlitsfarða þegar hann söng lag Harrys Belafonte frá árinu 1956, „Banana Boat Song (Day-O)“, í hæfileikakeppni framhaldsskóla þegar hann var unglingur. „Ég get sagt að mér urðu á mistök þegar ég var yngri og ég vildi að ég hefði ekki gert það. Ég vildi að ég hefði vitað betur þá en ég gerði það ekki og mér þykir það mjög miður. Ég veit núna að það er eitthvað rasískt við að gera þetta,“ sagði Trudeau. Hann hefur átt undir högg að sækja fyrir þingkosningar sem verða 21. október, m.a. vegna nýlegs úrskurðar eftirlitsmanns þings Kanada sem komst að þeirri niðurstöðu að forsætisráðherrann hefði brotið lög með því að beita sér gegn saksókn á hendur kanadísku stórfyrirtæki.