Valin Rakel Hönnudóttir er þrautreynd landsliðskona.
Valin Rakel Hönnudóttir er þrautreynd landsliðskona. — Morgunblaðið/Eggert
Jón Þór Hauksson, þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur valið hópinn fyrir leikina gegn Frakklandi og Lettlandi í október. Ísland mætir Frakklandi í vináttuleik 4. október og fer leikurinn fram í Nimes.

Jón Þór Hauksson, þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur valið hópinn fyrir leikina gegn Frakklandi og Lettlandi í október.

Ísland mætir Frakklandi í vináttuleik 4. október og fer leikurinn fram í Nimes. Fjórum dögum síðar mætir Ísland liði Lettlands á útivelli í undankeppni EM.

Frá sigurleikjunum á móti Ungverjum og Slóvökum sem fram fóru á Laugardalsvelli um mánaðamótin eru tvær breytingar á landsliðshópnum. Rakel Hönnudóttir (Reading) og Sandra María Jessen (Bayer Leverkusen) koma inn fyrir Blikana Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur.

Rakel lék síðast með landsliðinu í vináttuleik gegn Suður-Kóreu í apríl en Sandra lék síðast í vináttuleik á móti Finnum í júní.

„Þetta er í takti við það sem við höfum verið að gera. Þær Karólína og Áslaug Munda munu spila með 19 ára liðinu hér heima í undankeppni og fá þar mikilvæga landsleiki og munu styrkja það lið. Það er mikilvægt fyrir okkur að 19 ára liðið komist upp úr riðlinum með þann draum að komast í lokakeppnina sem myndi gefa okkur gríðarlega reynslu upp á framhaldið og nýtast A-landsliðinu seinna meir.

Rakel fær tækifæri aftur. Hún hefur gríðarlega reynslu og er frábær leikmaður. Hvað Söndru Maríu varðar þá hefur hún verið óheppin með meiðsli en hún er komin vel af stað með Leverkusen og ég er mjög spenntur að fá þær tvær inn,“ sagði Jón Þór m.a. í gær. Hópinn er að finna á mbl.is/sport.