Hamarsrétt Ferðafólk eykur mjög álagið á Vatnsnesvegi.
Hamarsrétt Ferðafólk eykur mjög álagið á Vatnsnesvegi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Áætla má að kostnaður við að leggja nýjan veg með bundnu slitlagi um Vatnsnes kosti um 3,5 milljarða króna. Vegurinn kemst reglulega í fréttir vegna þess hversu illa hann fer í rigningum og veldur heimamönnum og ferðafólki erfiðleikum.

Áætla má að kostnaður við að leggja nýjan veg með bundnu slitlagi um Vatnsnes kosti um 3,5 milljarða króna. Vegurinn kemst reglulega í fréttir vegna þess hversu illa hann fer í rigningum og veldur heimamönnum og ferðafólki erfiðleikum.

Bundið slitlag liggur frá hringvegi að Hvammstanga og fimm kílómetrum betur. Þá eru eftir 70 kílómetrar fyrir nesið, að hringveginum á austanverðu nesinu. Vegurinn er mjór malarvegur, með útskotum til að bílar geti mæst.

Gunnar H. Guðmundsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Akureyri, segir að tekist hafi á undanförnum árum að hafa gott malarslitlag á veginum. Ekki verði þó við náttúruöflin ráðið. Umferð sé þung og ómögulegt að halda honum við í rigningatíð. Um 400 bílar fara um Vatnsnes á sólarhring á sumrin og er þetta með umferðarþyngstu malarvegum á landinu.

Ekki hægt að takmarka umferð

Vegagerðin telur ekki fært að takmarka umferð um veginn. Þá þyrfti að velja hverjir fengju að aka um hann og hverjum ætti að snúa frá.

Segir Gunnar að eina varanlega lausnin sé að byggja veginn upp og leggja á tvöfalt slitlag. Þurfi að styrkja veginn, breikka í 6,5 metra, rétta úr hlykkjum og jafna hæðir og lægðir. Gróf kostnaðaráætlun bendir til að heildarkostnaður gæti orðið um 3,5 milljarðar króna.

Framkvæmdin er ekki á samgönguáætlun ríkisins. Heimamenn eru að þrýsta á um að hann komi inn við endurskoðun áætlunarinnar sem lögð verður fyrir Alþingi nú í haust. helgi@mbl.is