Spjallaði ég við leikmenn í algjörri sigurvímu eftir leikina og var ekki annað hægt en að samgleðjast þeim. Halldór Smári Sigurðsson er einn þeirra sem ég ræddi við eftir sigur Víkings í bikarúrslitum. Halldór er einn mesti Víkingur landsins og fáir sem eiga jafn mikið skilið að vinna titil með einu félagi eins og Halldór með Víkingi. Hann hefur gengið í gegnum súrt og sætt. Þriðjungur þeirra leikja sem Halldór hefur spilað með Víkingi hefur verið í 1. deildinni og því ekki alltaf raunhæfur möguleiki á titli. Þrátt fyrir það hefur hann alla tíð haldið tryggð við uppeldisfélagið.
Halldóri líkar greinilega vel við bikarkeppnina því öll þrjú mörk hans á ferlinum hafa komið í bikarkeppninni. Hann á enn eftir að skora í deildarkeppni. Vonandi tekst það áður en Halldór kemst á sama aldur og Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen.
Að sjá Rúnar Kristinsson með tárin í augunum eftir að KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn var líka svakalegt. Gleðin var ósvikin og tilfinningarnar tóku yfir. Það sýndi hversu mikilvægur titillinn er fyrir Rúnar og KR-inga, enda liðinu ekki endilega spáð svo góðu gengi fyrir leiktíðina.
Það verður mjög áhugavert að sjá hvað Rúnar gerir á næstu mánuðum. Verður hann enn hjá KR, eða leitar hugur hans út? Ég held að Rúnar hafi alla burði til að ná árangri í þjálfun erlendis.