Loftur Þorsteinsson fæddist í Haukholtum, Hrunamannahreppi, 30. maí 1942. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 5. september 2019.

Foreldrar hans voru hjónin Ástbjört Oddleifsdóttir, f. 28. júlí 1913, d. 11. febrúar 1983, og Þorsteinn Loftsson, f. 23. september 1905, d. 25. janúar 1991. Bróðir Lofts er Oddleifur, f. 3. maí 1936, eiginkona hans er Elín Kristmundsdóttir, f. 12. mars 1942.

Eftirlifandi eiginkona Lofts er Hanna Lára Bjarnadóttir frá Hörgsdal á Síðu, f. 10. ágúst 1951, dóttir Dórótheu Theodórsdóttur, f. 24. maí 1926, d. 19. desember 2016, og Bjarna Bjarnasonar, f. 12. maí 1902, d. 6. júlí 1992. Börn Lofts og Hönnu eru: 1) Þorsteinn, f. 19.6. 1981, eiginkona hans er Steinunn Lilja Heiðarsdóttir, f. 17.10. 1986. Börn þeirra eru: a) Loftur, f. 12.3. 2014, b) Víglundur, f. 12.5. 2015, og c) Heiðdís Hanna, f. 21.7. 2019. 2) Magnús Helgi, f. 3.8. 1983, sambýliskona hans er Alina Elena Balusanu, f. 13.4. 1980. Börn þeirra eru: a) Anna María, f. 22.8. 2005, og b) Ástbjört, f. 1.1. 2008. 3) Berglind Ósk, f. 6.3. 1987, sonur hennar er a) Anton Ýmir, f. 24.10. 2013. Synir Hönnu og stjúpsynir Lofts eru: 4) Edvin, f. 4.9. 1971, og 5) Ólafur Bjarni, f. 20.8. 1973, eiginkona hans er Marlín Aldís Stefánsdóttir, f. 12.5. 1982. Börn þeirra eru: a) Baldur Þór, f. 4.12. 2005, og b) Eva Ósk, f. 23.2. 2009. Dóttir Marlínar er Árdís Lilja, f. 4.9. 2001.

Loftur ólst upp í Haukholtum og átti heima þar lengst af. Árið 2007 fluttu Loftur og Hanna að Ásastíg á Flúðum.

Eftir nám í íþróttaskólanum í Haukadal lauk Loftur búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1961. Loftur hóf sinn búskap í félagsbúi með föður sínum Þorsteini. Síðar var Loftur í félagsbúi með Oddleifi bróður sínum í Haukholtum, en þeir skiptu síðan búinu þegar sveitarstjórnarmálin fóru að taka yfir hjá Lofti. Fjárbúskap stundaði Loftur til 2004 þegar synir hans tóku við búrekstrinum.

Loftur starfaði í stjórn ungmennafélags Hrunamanna um árabil og var virkur í leikhópi félagsins í fjölda ára. Hann var kjörinn í hreppsnefnd Hrunamannahrepps 1978 og sat þar í samtals 24 ár, þar af 20 ár sem oddviti og sveitarstjóri. Það var á miklu uppbyggingartímabili á Flúðum. Loftur var formaður Sambands sunnlenskra sveitarfélaga árin 1990-1991 og starfaði í fjölmörgum nefndum og ráðum á vettvangi sveitarstjórna, sem og í heimasveit sinni. Þegar Loftur sagði skilið við oddvita- og sveitarstjórastólinn 2002 setti hann orku sína í fjárbúið í Haukholtum og ýmis önnur störf tengd búskap og fleiru, t.d. fóðureftirlit, sauðfjármarkavörslu og störf í réttinni í sláturhúsi Suðurlands svo eitthvað sé nefnt.

Útför Lofts fer fram frá Skálholtsdómkirkju í dag, 20. september 2019, klukkan 14.

Með kökk í hálsi og tárvot augu hef ég sest niður síðustu daga og gert tilraunir til að hefja skrif en ekki fundið réttu orðin. Nú loks hef ég áttað mig á því að það eru engin orð rétt eða röng í minningargrein um föður sinn en ég ætla að byrja með smá texta sem ég fann á netinu rétt fyrir andlát föður míns. Ég þýddi hann yfir á íslensku.

„Sorg, hef ég lært að er í raun bara ást. Það er öll sú ást sem þig langar að gefa en getur ekki. Öll þessi ónotaða ást safnast saman í hvarmi auga þíns, kökkurinn í hálsinum og holrúmið í brjóstinu. Sorg er í raun ást sem hefur engan samastað.“

(Jamie Anderson)

Ég lærði það frekar ung að ég þyrfti að deila athygli föður míns með mörgum, þá er ég ekki bara að tala um bræður mína fjóra og mömmu heldur allt sveitarfélagið eins og það lagði sig. Það gat oft reynst erfitt verandi algjör pabbastelpa.

Því var ekki óalgeng sjón að sjá stelpuskottið seinnipart dags eftir skóla inni á hreppsskrifstofunni að sniglast í kringum föður sinn. Ófá heimalærdómsverkefnin voru afgreidd þar með dyggri aðstoð hans því alltaf gat hann litið upp úr sínum verkefnum til þess að aðstoða litla skottið með heimanámið.

Samband okkar pabba var á margan hátt einstakt. Við höfðum mjög ólíkar skoðanir á mörgum hlutum og mögulega hefði ég ekki getað valið mér ólíkara líf en hans. En það sem hélt okkur nánum fram á síðasta dag var virðing. Ég virti hann og hans skoðanir og hann virti mig og mínar.

Það eru ófáir hlutirnir sem pabbi kenndi mér sem ég hef í farteskinu í gegnum lífið. Má þar telja; virðingu fyrir náunganum, hreinskilni, dugnað, samkennd, þrjósku, þolinmæði, brúkun hamars, naglhreinsun dekkja, rjómaísát og svo margt fleira, listinn er langur.

Síðustu vikurnar áttum við pabbi margar einlægar stundir, þótt ég vissulega vildi óska að þær hefðu verið fleiri. Eftirminnilegust er sjálfsagt sú þegar ég er að keyra hann frá Reykjavík á Selfoss eftir miklar rannsóknir á spítalanum.

Við ræddum á leiðinni um heima og geima. Þarna vorum við sjálfsagt farin að átta okkur aðeins á alvarleika veikinda hans. En þegar við komum að Kambabrún þögnum við bæði, ég hægi ögn á bílnum og ég finn hvernig hann sýgur í sig útsýnið. Það var heiðskírt og bjart, sást vel alla leið til Vestmannaeyja og við sáum hvernig haustlitirnir voru að byrja að taka yfir. Fegurð náttúrunnar tók alla okkar athygli.

Þar með var uppáhaldsárstími pabba genginn í garð, haustið.

Þegar ég hugsa til baka um tíma okkar pabba saman er þakklæti mér efst í huga. Þakklátust er ég fyrir að sonur minn hafi fengið að kynnast afa sínum og sé orðinn nógu gamall til að hægt sé að viðhalda minningunni um afa Loft með sögum og upprifjunum.

Hvíldu í friði, elsku pabbi, ég mun alltaf sakna þín.

Litla stelpuskottið þitt,

Berglind Ósk.

Elsku faðir minn, Loftur Þorsteinsson, verður jarðsunginn í dag. Ég á þér svo margt að þakka og minningarnar margar og góðar. Eitt er víst að alltaf varst þú til í að hjálpa mér í einu og öllu. Sama hvert verkefnið var. Man ég að sem unglingur setti ég mér það markmið að gerast sjómaður. Þá studdir þú mig í því og keyrðir mig þangað sem ég þurfti að fara, enda ég ekki kominn með aldur til að keyra sjálfur. Alltaf vissir þú hvar báturinn minn var á veiðum því þú fylgdist alltaf með og ég veit að þú gerir það enn. Ég fann alltaf öryggi í því að þú værir með puttann á púlsinum í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Í búskapnum var alltaf hægt að leita til þín um ráðleggingar. Þótt við værum ekki alltaf sammála komumst við oftast á góðar niðurstöður.

Ómetanlegt er hversu mikið þú hjálpaðir Alinu þegar ég var í burtu og hjálpaðir henni sem þú gast og það var gríðarlegt öryggi bæði fyrir mig sem og hana. Ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, Alinu, Önnu og Ástbjörtu. Ég þakka þér allan þennan tíma sem ég hef haft þig með mér til að kenna mér og leiðbeina.

Þó sólin nú skíni á grænni grundu

er hjarta mitt þungt sem blý.

Því burt varst þú kallaður á örskammri stundu,

í huganum hrannast upp sorgarský

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða,

svo fallegur, einlægur og hlýr.

En örlög þín ráðin – mig setur hljóða,

við hittumst ei aftur á ný.

Megi algóður guð þina sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó kominn sért yfir í aðra heima

Mun minning þin lifa um ókomin ár.

(Sigríður Hörn Lárusdóttir)

Hvíldu í friði, elsku faðir.

Magnús Helgi.

Í dag kveð ég tengdaföður minn. Fyrir 15 árum kynntist ég Lofti og með sínu hlýja brosi bauð hann mig velkominn í fjölskyldu sína.

Hann var mikill bóndi með sterkar skoðanir og ég lærði mikið af honum. Sauðburður var fyrir honum eins og jól fyrir börnin; tilhlökkun og gleði þar í fyrirrúmi. Loftur var góður maður sem var alltaf tilbúinn til að hjálpa öðrum.

Frábær afi sem sinnti barnabörnunum sínum sem best hann gat. Ég vil þakka þér samfylgdina og alla þá ást og hlýju sem þú hefur veitt mér.

Þú mátt vita það að þú ert demantur

bjartur.

Ég veit ég hef sagt það áður,

En ég bara verð að segja það aftur.

Það sem þú hefur gert fyrir mig er svo

ótrúlega margt.

Ég get ekki þakkað þér nóg, hvað get

ég meira sagt?

Ég veit þó að þakklæti mitt er mjög

svo breitt,

Góðir hlutir hafa einungis af þér leitt.

(Birna Rún)

Þökk fyrir allt og hvíldu í friði.

Alina.

Nú minnumst við hins frábæra manns Lofts Þorsteinssonar afa okkar. Hann var alltaf með tyggjó á sér til að geta gefið okkur. Afi var líka svo mikill ískall, alltaf með besta ísinn og það klikkaði ekki að þegar við vorum í heimsókn átti hann ís í frystikistunni og gaf okkur. Fékk sér líka, okkur til samlætis. Þegar við vorum yngri gaf hann okkur alltaf nammi á laugardögum. Honum fannst aldrei leiðinlegt að spila við okkur eða tefla. Hann hjálpaði okkur líka með allt heimanámið og bara að læra allt um hverdagslífið. Ef það vantaði einhvern til að skutla okkur eða ná í okkur var afi alltaf reiðubúinn.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Hvíldu í friði, kæri afi.

Anna María og Ástbjört.

Elsku afi minn, ég mun elska þig að eilífu. Mér fannst svo gaman að tefla við þig þegar ég kom og var hjá ykkur ömmu í sveitinni. Göngutúrarnir okkar saman „afahringinn“ voru alltaf skemmtilegir. Takk fyrir að eiga alltaf handa mér grænmeti á borðinu, skyr í ísskápnum og ís í frystinum. Mamma segir að þú sért orðinn engill sem vakir yfir mér og ég veit þá að ég verð alltaf öruggur.

En alltaf í huga mínum verður hann

afi minn góði sem ég ann

í himnaríki fer hann nú

þar verður hann glaður, það er mín trú

Því þar getur hann vakað yfir okkur dag og nótt

svo við getum sofið vært og rótt

hann mun ávallt okkur vernda

vináttu og hlýju mun hann okkur senda

Elsku afi, guð mun þig geyma

yfir okkur muntu sveima

en eitt vil ég þó að þú vitir nú

minn allra besti afi, það varst þú.“

(Katrín Ruth, 1979)

Þú varst besti afinn og ég mun aldrei gleyma þér.

Þinn dóttursonur,

Anton Ýmir.

Þú Árnesþing ég elska nafnið þitt.

Þar upp til fjalla er helgisetrið mitt.

Þessar línur úr ljóði Eiríks Einarssonar frá Hæli komu upp í hugann þegar föðurbróðir okkar, hann Loftur frændi, var látinn. Héraðinu sínu unni hann og helgaði stóran hluta ævistarfsins. Helgisetrið hans upp til fjalla var Haukholt, þar fæddist hann, þar ólst hann upp og þar bjó hann nær alla sína ævi.

Loftur var glaðsinna og góður maður. Minningar um hann eru margar, sérstaklega frá barnæsku okkar. Þá bjuggu þeir bræður pabbi og Loftur félagsbúi. Fjósið var sameiginlegt, þó að kýrnar væru í séreign. Mjaltatímarnir voru því samverustundir tvisvar á dag alla daga. Samvinna var við öll önnur helstu störf eins og heyskap, sauðburð, smalamennskur og klakveiði á haustin. Loftur var foringinn, hann var stjórnsamur en stjórnaði af hógværð og kænsku.

En Loftur var líka stríðinn og naut þess að gera at í okkur krökkunum. Þegar nóg var komið og þolinmæði okkar á þrotum þá brosti hann góðlátlega út í annað munnvikið. Pípan var í hinu.

Til margra ára átti Loftur sterkan og góðan bleikálóttan fjallhest sem hét Stormur. Það ríkti mikil eftirvænting hjá okkur þegar farið var á móti safninu inn að afréttargirðingu að sjá þegar þeir birtust félagarnir Loftur og Stormur. Ekki má heldur gleyma hundinum honum Smala. Ávallt komu þeir á vesturkantinum og þekktust langt að.

Loftur var mikill leikari og tók virkan þátt í leikstarfi Ungmennafélags Hrunamanna. Hann var hæfileikaríkur og gat leikið hvaða hlutverk sem var. Æfingar voru tíðar og oft langt fram á nótt. Eftir frumsýningu tóku við leikferðir um allt Suðurland. Þegar önnur leikfélög komu með verk sín á Flúðir tók Loftur okkur gjarnan með á þær sýningar og hvatti okkur til að njóta leiklistarinnar.

Það má með sanni segja að Loftur var ákaflega félagslyndur maður, hann naut sín vel innan um fólk og hafði sterkar skoðanir á samfélagsmálum. Hann var ræðinn og sagði skemmtilega frá enda vel að sér um menn og málefni. Það kom því ekki á óvart hversu mikinn hluta starfsævinnar hann helgaði ýmiss konar félags- og sveitarstjórnarmálum. Þau áttu hug hans allan og þessi störf stundaði hann af alúð og kappi. Loftur var oddviti og sveitarstjóri í Hrunamannahreppi í tvo áratugi og lagði sig allan fram um að sinna því starfi. Sumarfrí eða frí til að sinna búrekstrinum tók hann sjaldan, þjónustan við samfélagið var númer eitt. Við erum stolt af Lofti frænda og þeirri óeigingjörnu vinnu sem hann vann fyrir sveitina.

Eftir að Loftur og Hanna fluttu heimili sitt að Flúðum kom hann nær daglega upp í Haukholt, til að leggja lið og líta eftir. Alltaf kom hann við í kaffi hjá foreldrum okkar í þessum ferðum, nærri því til síðasta dags. Þau munu sakna þessara samverustunda sem og gamalla tíma. Það er tómlegra um að litast á hlaðinu í Haukholtum eftir fráfall Lofts.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Ásta, Elín og Jón Þorsteinn.

Að morgni 5. september síðastliðins hringdi hún Berglind frænka mín í okkur Guðbjörgu til að láta okkur vita að faðir hennar og frændi minn og vinur Loftur Þorsteinsson hefði látist þá um nóttina.

Þetta hefði svo sem ekki átt að koma mér á óvart því við Guðbjörg höfðum heimsótt hann á sjúkrahúsið á Selfossi tveimur dögum fyrr og duldist okkur ekki að hann var orðinn mjög veikur.

Eins og tíðkaðist í æsku minni var ég sendur ungur í sveit á sumrin. Það varð gæfa mín að fá að vera krakki hjá Þorsteini föðurbróður mínum og hans góðu konu Ástu eins og hún var ævinlega kölluð þótt rétta nafnið hennar væri Ástbjört, en þau voru bændur í Haukholtum í Hrunamannahreppi, þar sem faðir minn var uppalinn. Þau Ásta og Steini áttu tvo syni, Oddleif og Loft, en Loftur var tveimur árum eldri en ég og tókst því strax góð vinátta á milli okkar. Ég endaði á að vera sjö sumur hjá þeim og lauk veru minni sem vetrarmaður þegar Loftur fór í bændaskólann á Hvanneyri. Ég naut þess auðvitað að Loftur kunni vel til verka við bústörfin strax á unga aldri og hann kenndi mér svo margt. Hann kenndi mér að raka með hrífu, slá með orfi og ljá, kenndi mér að raka með hestarakstursvél, reka kýrnar og mjólka.

Hann kenndi mér að þekkja fjármörkin á bænum, „sýlt og fjöður framan hægra, hálft af framan vinstra“. Þegar hann sagði mér þetta „hálft af framan vinstra“ þótti mér það alveg rosalegt, en hann sýndi mér þá hvernig þetta leit út og þá fannst mér þetta ekkert rosalegt. „Tvírifað í sneitt framan hægra, boðbíldur framan og fjöður aftan vinstra.“ Boðbíldur framan, hver gat eiginlega munað svona skrítið orð. Það fór svo að ég fór að geta sagt til um hver af bænum átti kind sem ég sá úti í haga.

Ég átti þess kost í nokkur ár að smala með honum Lofti heimahagana í Haukholtum og á nærliggjandi bæjum. Það var ótrúlegt að fá að fylgjast með honum Lofti frænda, hvernig hann gat beitt hundinum sínum, sem stökk til þegar húsbóndinn hvatti hann, lagðist niður og beið nýrra fyrirskipana og stökk svo af stað aftur. Þannig hjálpuðust þeir að. Þá var ekki síður ótrúlegt að fylgjast með samspili manns og hests við smalamennskurnar. Hvernig hvor um sig treysti hinum og hvernig þeir leystu úr vandamálum sem virtust blasa við mér borgarbarninu. Mér er svo minnisstætt þegar við vorum eitt sinn að smala í Haukholtum og ég var að reyna að teyma hestinn sem ég var með niður allbratta brekku, en hann vildi hvergi fara. Þá kom Loftur þar að, steig af baki og algjörlega átakalaust teymdi hestinn sinn niður brekkuna, svo vel treysti klárinn honum, en ég valdi mér aðra leið.

Loftur var mikill félagsmálamaður, gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveitina sína var m.a. í hreppsnefnd í 24 ár og þar af sem oddviti í 20 ár.

Við Guðbjörg og fjölskyldan okkar þökkum Lofti fyrir samfylgdina og sendum eftirlifandi eiginkonu hans, henni Hönnu Láru, og börnunum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur, jafnframt sendum við bróður hans Oddleifi og fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

Ragnar Snorri Magnússon.

Augun hans Lofts leiftruðu af húmor og gleði. Hann unni sveitarfélagi sínu, Hrunamannahreppi, sem naut starfskrafta hans um langan tíma, fyrst sem virks ungmennafélaga og síðar sem sveitarstjórnarmanns, oddvita og sveitarstjóra. Hann var einnig góðbóndi í Haukholtum, bjó lengi í félagsbúi með Oddleifi bróður sínum og fjölskyldum þeirra bræðra.

Ég rifja það gjarnan upp þegar ég varð sveitarstjóri á Hvolsvelli í ársbyrjun 1990 að gömlu góðu oddvitarnir í Árnessýslu tóku „strákinn“ undir vænginn, þeir Loftur í Haukholtum, Gísli í Kjarnholtum, Jón í Vorsabæ, Böðvar á Búrfelli og ekki má gleyma Páli í Sandvík. Allir þessir höfðingjar hafa nú kvatt þetta jarðlíf og ég verð þeim ævarandi þakklátur enda var ég þá nýr, kominn úr öðru umhverfi og óreyndur á þessu sviði. Í huga minn kemur lítil vísa eftir föður minn sem hljóðar svo:

Gatan er vörðuð gleði og sorgum,

gjöf er vort æviskeið.

Einn í dag svo annar á morgun,

allir á sömu leið.

Dauðinn er órjúfanlegur hluti lífsgöngunnar. Eftir standa margar góðar minningar, söknuður og þakklæti. Þessir góðu sveitarhöfðingjar urðu síðar góðir liðsmenn þegar ég tók þátt í landsmálapólitíkinni. Seinna varð ég sveitarstjóri í Hrunamannahreppi á ólgu- og óróatíma í sveitinni og ég minnist þess hve Loftur fagnaði komu minni á Flúðir og var mér hjálpsamur og jákvæður í alla staði. Í oddvita- og sveitarstjórnartíð hans varð mikil uppbygging á Flúðum og á vissan hátt má segja að Flúðir hafi orðið að einum vinsælasta ferðamannastað landsins og líkist yfir sumartímann meira litlum ferðamannabæ í Danmörku en sveitaþorpi á Íslandi.

Hann brann fyrir framgangi sveitarinnar. Sunnlendingar fengu einnig notið starfskrafta Lofts, því hann var m.a. um tíma formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og sat í ótalmörgum nefndum tengdum sveitarstjórnarmálum. Að góðbænda sið unni Loftur sauðkindinni og sá áhugi fluttist yfir til barna hans og konu, Hönnu Láru Bjarnadóttur. Ég stríddi stundum strákunum þeirra og sagði að þeir jörmuðu af áhuga fyrir sauðfjárræktinni. Það var alveg óhætt að gera að gamni sínu við Loft því hann var húmorískur og stríðinn. Á Hrunamannaafrétti sló einnig hjarta Lofts eins og svo margra bænda í sveitinni. Á kveðjustund lifa endalaust margar minningar og ég sé fyrir mér gamla oddvitahópinn sem fagnar komu Lofts. Þeir taka á móti vini sínum við himnahliðið, glaðværir og traustir og syngja honum til heiðurs sálmalagið um „Kristján í Stekkholti“. Því miður getum við Steinunn ekki fylgt Lofti síðasta spölinn en sendum Hönnu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur með þakklæti og söknuð í huga. Minningin um glaðværan sveitarhöfðingja lifir í hjörtum okkar.

Ísólfur Gylfi Pálmason.

Á kveðjustund er margs að minnast eftir áratuga samstarf þar sem hæst bar samstarf okkar Lofts Þorsteinssonar í sveitarstjórn Hrunamannahrepps. Þegar ég var fyrst kjörinn í sveitarstjórn hafði Loftur verið hreppsnefndarmaður í 16 ár, þar af 12 sem oddviti. Fyrir nýliðann var margt sem þurfti að setja sig inn í og þá var gott að geta leitað í reynslubrunn og þekkingu Lofts sem hann var fús að veita. Á þessum tíma voru oddvitar uppsveita Árnessýslu átta. Menn eins og Gísli í Kjarnholtum, Böðvar á Búrfelli, Þórir á Laugarvatni, Steinþór í Þrándarholti og Jón í Vorsabæ – allir sem einn öflugir talsmenn síns heimahéraðs eins og Loftur í Haukholtum. Allir þjónuðu þeir lengi sínum sveitungum. Þeir áttu með sér víðtæka samvinnu um lausn margra mála og þegar þeir mættu á fundi á stærri sviðum eins og samstarfi sunnlenskra sveitarfélaga eða á landsvísu var bara von á góðu.

Það var bæði gefandi og gaman að kynnast þessum körlum og þessum tíma sveitarstjórnarmálanna. Allir áttu það sammerkt með Lofti að gefa sig alla í verkefnið og í raun verja öllum tíma og starfsævi í að þjónusta samsveitunga sína.

Sveitarstjórnarvinnan er í senn gefandi og skemmtileg en um leið tekur hún mikinn tíma sem menn hafa þá ekki í annað.

Það er því einstakt þegar fólk er tilbúið að verja starfsævinni við vinnu fyrir samborgarana. Það gerði Loftur og gaf allt sitt í verkefnið. Verður það seint fullþakkað. Fátækleg orð sett fram af mikilli virðingu mega sín þar lítils.

Á starfstíma Lofts urðu miklar framfarir í okkar sveitarfélagi. Það efldist að burðum, atvinnulíf varð fjölbreyttara með stofnun öflugra fyrirtækja, uppbygging hitaveitunnar svo eitthvað sé nefnt.

Samhliða varð veruleg fjölgun íbúa, yfirtaka á rekstri grunnskólans, stofnun leikskóla og bygging. Sterkur landbúnaður, sauðfjárræktin og afrétturinn voru ávallt ofarlega í huga Lofts. Öll þessi verkefni tókst oddvitinn, sem allan starfstíma sinn var líka sveitarstjóri, á við og var í fararbroddi.

Fyrir utan alla ólíku og mannlegu þættina sem líka þurftu úrlausnar við.

Ég vil að ferðalokum þakka Lofti samstarf, samvinnu og stuðning alla tíð.

Elsku Hanna, Steini, Maggi, Berglind, Eddi, Óli og fjölskyldur, við Elsa sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góður Guð styrkja ykkur og styðja í sorginni. Minning Lofts Þorsteinssonar lifir áfram, samofin okkar samfélagi.

Sigurður Ingi Jóhannsson.