Fiskur og fiskur Dæmi eru um að ódýrari tegundir hafi siglt undir fölsku flaggi í verslunum og veitingahúsum. Miklir hagsmunir geta verið í húfi.
Fiskur og fiskur Dæmi eru um að ódýrari tegundir hafi siglt undir fölsku flaggi í verslunum og veitingahúsum. Miklir hagsmunir geta verið í húfi. — Morgunblaðið/SÆ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Ekki er endilega víst að matvælasvindl hafi aukist á síðustu árum, en hins vegar hefur málaflokkurinn fengið aukna athygli neytenda og eftirlitsaðila.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Ekki er endilega víst að matvælasvindl hafi aukist á síðustu árum, en hins vegar hefur málaflokkurinn fengið aukna athygli neytenda og eftirlitsaðila. Þá eru tæki og tól til að greina hugsanlegt svindl mun fullkomnari en áður, m.a til að greina hvort neytendur fái rétta tegund fisks eða kjöts afhenta eða hvort viðbætt efni séu í vörunni. Mörg dæmi eru um að langa eða eldistegundin pangasius séu seld sem þorskur eða að hrossakjöt sé selt sem úrvals nautakjöt.

Í næstu viku standa Matvælastofnun og Matís fyrir fræðslufundi um matvælasvindl. Fundurinn er hluti af þriggja ára norrænu verkefni, sem styrkt er af norrænu ráðherranefndinni. Sérstaklega eru boðaðir á fundinn fulltrúar matvælaeftirlits heilbrigðieftirlitsins, starfsmenn Matvælastofnunar, starfmenn Matís, ásamt fulltrúum frá Tollstjóraembættinu og Ríkislögreglu. Allar Norðurlandaþjóðirnar, að Finnlandi undanskildu, koma að verkefninu og er markmiðið að skilgreina sameiginlega túlkun á matvælasvindli og koma á samvinnu Norðurlanda í baráttunni við matvælasvindl, þvert á landamæri.

100 manna sérsveit Breta

Jónas Viðarsson, fagstjóri hjá Matís, segir að athyglin á þessum málaflokki hafi aukist mjög í kjölfar hneykslis sem greint var árið 2013 þegar hrossakjöt var selt sem nautakjöt í Evrópu. Hann segir að Bandaríkjamenn séu komnir býsna langt í þessum efnum, en Bretar standi fremst og hafi m.a. sett á laggirnar 100 manna sérsveit sem fylgist með þessu vandamáli. Þar sé hart tekið á brotum og geti þau varðað sektum eða fangelsi. Málaflokkurinn hafi verið skilgreindur sem sakamál í Bretlandi.

Jónas rifjar upp að Matís hafi fyrir tveimur árum gert litla rannsókn og farið á nokkur veitingahús og greint fisktegundir. Komið hafi í ljós að um fimmtungur sýna hafi verið ranglega merktur, oft hafi ódýrari tegund verið á boðstólum sem dýrari tegund. Í einu tilviki hafi til dæmis keila verið seld sem skötuselur. Miklir hagsmunir Íslendinga felist í útflutningi á fiski og það geti hæglega haft miklar afleiðingar ef keppinautar erlendis kynni ódýrar eða óæðri fisktegundir sem verðmætan þorsk. Neytendur geti orðið fráhverfir neyslu á fiski.

Svindlað með sjávarfang

Matís tók þátt í Evrópuverkefni um matvælasvindl, sem lauk á síðasta ári. Á heimasíðu Matís segir m.a. um það verkefni: „Vörusvik í viðskiptum með matvæli eru stórt alþjóðlegt vandamál og eru sjávarafurðir meðal þeirra matvæla sem mest er svindlað með. Rannsóknir benda meðal annars til þess að tegundasvik eigi sér stað með um þriðjung sjávarafurða sem seld eru í mörgum af okkar helstu viðskiptalöndum.

Það er því ljóst að hér er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir íslenska framleiðendur þar sem íslenskt sjávarfang á í samkeppni við „svikin matvæli“, auk þess sem „svikin matvæli“ eru hugsanlega seld sem íslensk framleiðsla.“

Þar kemur fram að það teljist einnig til matvælasvika þegar fiskur sé seldur undir fölsku flaggi, þar með talið afli frá sjóræningjaveiðum, ef nauðungarvinna er stunduð við framleiðsluna og þar sem hreinlætiskrafna/matvælaöryggis er ekki gætt.

Svínakjöt selt sem nautakjöt

Jónas segir að matvælasvindl hafi lengi verið þekkt í ákveðnum greinum. Hann nefnir í því sambandi framleiðslu og sölu á áfengi. Einnig hafi lengi verið svindl í gangi með sölu á olíum þar sem ódýrara hráefni hafi gjarnan verið selt sem ólífuolía. Einnig megi nefna að ákveðnir úrvalsbitar af nautakjöti standi stundum alls ekki undir nafni.

„Eitt furðulegasta dæmi sem ég hef heyrt er frá Svíþjóð,“ segir Jónas. „Þar var svínakjöt selt sem nautakjöt og hafði litarefni verið sett í svínakjötið, sem var þar með orðið rautt á litinn. Ég hefði haldið að fólk áttaði sig á því hvort það borðaði naut eða svín, en þetta sýnir að margt er gert til að blekkja neytendur.“