Einar Kristinsson fæddist á Eyvindarstöðum í Vopnafirði 17. mars 1932. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki 3. september 2019.

Foreldrar hans voru hjónin Björg Sigríður Einarsdóttir, f. 9. júní 1901, d. 17. apríl 1981, og Kristinn Daníelsson, f. 9. október 1889, d. 13. október 1969.

Einar var næstyngstur af sjö systkinum sem öll eru nú látin. Þau eru Guðrún, f. 1920, d. 2013, Bergljót, f. 1921, d. 1996, Margrét, f. 1922, d. 2010, Sigrún, f. 1924, d. 2004, Hallbjörn, f. 1927, d. 2012, og yngstur var Haukur, f. 1937, d. 1978.

Eiginkona Einars var Sigrún Hróbjartsdóttir frá Hamri í Hegranesi en leiðir þeirra lágu fyrst saman er hann var við nám í Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal þar sem hún vann sem ráðskona.

Sigrún fæddist 23. maí 1927 og lést 16. október 2015. Foreldrar hennar voru Vilhelmína Helgadóttir, f. 1894, d. 1986, og Hróbjartur Jónasson, f. 1893, d. 1979.

Einar og Sigrún gengu í hjónaband 26. desember 1954 og voru þau bændur á Hamri allan sinn starfsaldur, síðustu tvö æviárin dvaldi Einar á dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki.

Börn þeirra eru: 1) Björg Kristín, f. 30. júní 1957, gift Óskari F. Halldórssyni. Börn þeirra eru Sigrún Svanhvít, gift Önundi Hafsteini Pálssyni, og eiga þau dæturnar Magneu Björgu og Védísi Ósk. Einar Haukur kvæntur Guðrúnu Þuríði Höskuldsdóttur, þeirra dætur eru Sigríður Sóllilja og Helga Margrét. Ingvi Þór, sambýliskona hans er Rakel Ýr Jakobsdóttir. 2) Ásdís, f. 27. febrúar 1959, gift Svanlaugi H. Halldórssyni. Börn þeirra eru Einar, hans sambýliskona er Bylgja Ösp Pedersen og eiga þau Hafþór Breka og Sædísi Ebbu. Halldór, kvæntur Jónínu Pálmarsdóttur og eiga þau fjögur börn; Brynjar Snæ, Sunnevu Dís, Karenu Sif og Kristófer Orra. Svandís Ósk, í sambúð með Jóhanni Þórði Ásmundssyni, sonur hennar er Heiðar Leó. Yngst er Heiðrún Helga. 3) Sævar, f. 11. júlí 1962, kvæntur Unni Sævarsdóttur. Börn þeirra eru Kristinn í sambúð með Ásdísi Helgu Arnardóttur, börn þeirra eru Eyþór Smári og Ingunn Ósk. Eyrún, hennar sambýlismaður er Jón Dagur Gunnlaugsson, dóttir þeirra er María Sjöfn, fyrir átti Unnur synina Gunnar Helga og Ragnar Smára. Gunnar er kvæntur Sigurlínu Hrönn Einarsdóttur og eiga þau börnin Einar Örn, Unni Maríu og Helgu Hrönn. Kona Ragnars er Kolbrún Stella Indriðadóttir, börn þeirra eru Rakel Gígja og Indriði Rökkvi. 4) Ragnar Þór, f. 25. ágúst 1969, kvæntur Margréti B. Arnardóttur. Dætur þeirra eru Rebekka Dröfn og Tanja Kristín, fyrir átti Ragnar synina Kristþór og Gísla Felix. Samtals eru barnabarnabörnin nítján.

Útför Einars fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 20. september 2019, klukkan 14.

Þegar ég nú kveð föður minn hinstu kveðju er mér efst í huga þakklæti.

Þakklæti fyrir allt sem foreldrar mínir voru mér alla tíð. Þakklæti fyrir að fá að alast upp við öryggi og eiga góðar minningar um hamingjuríka bernskudaga. Það eru viss forréttindi að fá að alast upp í sveit og eru margar minningar tengdar því umhverfi.

Pabbi var mikill náttúruunnandi og dýravinur, kindurnar voru alltaf í mestu uppáhaldi og voru þær mjög gæfar og hændar að honum og þekkti hann þær allar með nafni.

Pabbi var fæddur og uppalinn á Eyvindarstöðum í Vopnafirði og talaði hann oft um dalinn sinn fyrir austan og sagði okkur sögur frá uppvaxtarárum sínum, þar sem veðrið var alltaf svo gott. Það vakti því undrun okkar krakkanna þegar við fórum í fyrsta skiptið í heimsókn til Vopnafjarðar að það skyldi rigna allan tímann sem við stoppuðum. En þær hlýju móttökur sem við fengum hjá afa og ömmu á Eyvindarstöðum gleymast ekki og öll vorum við leyst út með nýjum lopapeysum.

Þegar börnin mín voru að alast upp áttu þau því láni að fagna að fá að vera af og til í sveitinni hjá ömmu og afa, það var þeim dýrmætur tími að fá að stússa í útiverkunum með afa og fara með ömmu í gróðurhúsið og tína jarðarber og taka upp gómsætar gulrætur og ekki má gleyma öllum sögunum og ævintýrunum sem amma kunni svo vel að segja, það var eins og hún hefði alltaf tíma.

Þegar halla tók undan fæti hjá pabba fyrir tveimur árum fékk hann pláss á dvalarheimili aldraðra hér á Sauðárkróki. Það reyndist honum erfitt í fyrstu að flytja úr sveitinni sem var honum svo kær og vildi hann alltaf fá að fylgjast með og spurði mig oft að því hvað „þeir“ væru nú að gera og átti þá við þá bændur á Hamri, Sævar og Kristin. Langafabörnin voru hænd að honum eins og barnabörnin og voru það hans bestu stundir þegar litla fólkið kom að heimsækja hann á dvalarheimilið. Ég vil þakka öllu því ágæta fólki sem þar vinnur fyrir góða umönnun og hlýhug í hans garð. Ég trúi því að nú séu þau pabbi og mamma saman á ný og hafi það fínt í Sumarlandinu.

Með hjartans þökk fyrir allt.

Björg Kristín.

Afi var stór faðmur og hlýtt bros, hafragrautur í morgunmat, pípulykt í Gamla rauð, sérstakt jafnaðargeð og væntumþykja á dýrum, hákarl og bismarkmolar, spjall um veðrið og sprettu á grasi, bíltúrar án þess að hann léti vita af sér og súkkulaðiskúffa handa langafabörnunum.

Við sjáum þig á tröppunum á Hamri og þú veifar okkur bless.

Takk fyrir okkur.

Einar Haukur og fjölskylda.

Það er mér minnisstætt að vakna á sólríkum sumardegi, stökkva fram úr rúminu og gá hvort rauði pallbíllinn Einars afa standi ekki enn á hlaðinu. Það átti nefnilega að fara að vitja um í vötnunum og kannski fengi ég að stýra bílnum þegar við keyrðum niðureftir. Silungsaflinn var oftast drjúgur enda var afi glöggur á hvar væri best að draga fyrir, soðinn silungur og nýuppteknar kartöflur voru svo borin á borð af ömmu í hádeginu.

Já þær eru sko ófáar minningarnar sem skjóta upp kollinum þegar hugsað er til baka enda voru afi og amma dugleg að leyfa okkur systkinunum á Hamri að taka þátt í hinum daglegu störfum í sveitinni. Það eru forréttindi að hafa fengið að alast upp í skjóli ömmu og afa, þau kenndu okkur svo margt nytsamlegt og voru dugleg að fræða okkur um gamla tímann.

Afa þótti sérstaklega vænt um gömlu sveitina sína, Eyvindarstaði í Vopnafirði, og sagði hann okkur gjarnan sögur af búskapnum fyrir austan. Hugurinn leitaði oft heim en þrátt fyrir það sagðist hann hvergi annars staðar vilja búa en á Hamri, þar sem hann byggði upp sitt bú með ömmu og bjó bróðurpart ævinnar.

Sigrún amma og Einar afi voru einstaklega samrýnd hjón og þegar amma kvaddi var líkt og hluti af afa hefði kvatt sömuleiðis. Róðurinn þyngdist hjá gamla manninum og þótt við fjölskyldan gerðum okkar besta til að aðstoða og vera til staðar fyrir hann var enginn sem gat fyllt það stóra skarð sem amma skildi eftir.

Elsku afi, vinátta okkar var sterk og þú passaðir alla tíð vel upp á stelpuna þína. Þú varst alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd og er ég þér innilega þakklát fyrir allt sem við höfum brallað saman í gegnum tíðina. Það er sárt að kveðja, en ég veit að nú eruð þið amma sameinuð á ný.

Elsku afi „það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig“.

Þín

Eyrún Sævarsdóttir.

Einar bóndi Kristinsson á Hamri í Hegranesi er fallinn í valinn. Síðustu mánuðina hefur hann verið á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki, þar sem honum leið eins vel og kostur var miðað við hans heilsufar.

Einar var kvæntur Sigrúnu Hróbjartsdóttur frá Hamri, og bjuggu þau allan sinn búskap þar á bæ, fyrst í félagsskap við foreldra Sigrúnar og bræður hennar, en þau tóku síðar alfarið við öllum búrekstri en undir það síðasta sem þau voru við búskap voru þau í félagi við son sinn Sævar og konu hans og þeirra afkomendur.

Sigrún lést árið 2015 og það var öllum ljóst að Einari fannst lífið ansi litlaust eftir að hennar naut ekki lengur við, enda hafði hjónaband þeirra verið einstaklega farsælt og traust.

Einar var með hæstu mönnum vexti, fríður sýnum og karlmannlegur, frekar fámáll og hafði sig lítt í frammi í fjölmenni, en gat verið ræðinn og skemmtilegur í einkasamtölum. Öll hans búsumsvif og athafnir allar einkenndust af stakri reglusemi, vinnusemi og snyrtimennsku svo af bar, enda er búið á Hamri með þeim snyrtilegustu og glæsilegustu sem sjá má í Skagafirði.

Því merki hafa núverandi bændur, Sævar sonur Einars og Sigrúnar ásamt Unni konu sinni og síðustu árin í félagi við son sinn og tengdadóttur, haldið dyggilega á lofti, ræktað jörðina og byggt m.a. nýtt og glæsilegt fjós með öllum nýjasta búnaði.

Einar var afskaplega vandaður og áreiðanlegur maður í öllum samskiptum og voru orð hans ekki síðri en skjalfestir samningar hjá öðrum. Hjálpsamur var hann og greiðvikinn og til hans var gott að leita þegar þörf krafði. Þeir eiginleikar hafa svo vissulega erfst hjá afkomendum þeirra hjóna.

Einar Kristinsson er kvaddur að leiðarlokum með virðingu og þökk fyrir vináttu og góða viðkynningu, um leið og fjölskyldunni er vottuð innileg samúð.

Guðbrandur Þ.

Guðbrandsson.

Ég kynntist Einari á Hamri vorið 1974, þegar ég var 10 ára gamall.

Leikfélagi úr blokkinni í Reykjavík hafði verið í sveit á öðrum bæ í Hegranesi og ég nauðað í foreldrum mínum þar til fundin hafði verið vist fyrir mig á Hamri. Þetta þætti jafnvel einkennileg ráðstöfun í dag, því mín fjölskylda þekkti ekkert til á svæðinu eða til þess fólks sem ég átti að dvelja hjá og hafði engin tengsl þangað.

Mér er minnisstætt þegar Einar tók á móti mér með sínu hlýlega og brosmilda viðmóti, þegar ég kom einn með flugi til Sauðárkróks. Ég bar strax traust til þessa hávaxna og hraustlega manns, sem sjálfur var þá ekki nema liðlega fertugur.

Er skemmst frá því að segja að það var mikil gæfa fyrir mig að fá að dvelja næstu sumur hjá því einstaka sómafólki sem þau voru, hjónin Sigrún Hróbjartsdóttir, sem lést 2015, og Einar Kristinsson. Mynduðust tengsl við heimilið og annað gott fólk á svæðinu sem hafa haldist æ síðan.

Einar var framúrskarandi bóndi og það var ávallt vel búið á Hamri og af miklum hyggindum. Góður bragur á öllu og snyrtimennska í hávegum höfð. Einar var laghentur og vel búinn tækjum til viðhalds, meðal annars á öllum vélakosti. Var hann ávallt tilbúinn að liðsinna öðrum í þeim efnum eins og fleirum.

Fannst mér reyndar skemmtilegt að sjá í heimsókn fyrir fáum árum hvað tækjaáhuginn var víðtækur, þegar Einar bóndi sat spenntastur allra yfir formúlukappakstrinum í sjónvarpinu.

Ég hef verið svo heppinn á lífsleiðinni, ekki síst á mótunarárum, að kynnast, auk foreldra minna, góðu fólki sem ég gat litið upp til og reynt að taka mér til fyrirmyndar. Í þeim hópi hefur Einar á Hamri alltaf verið mér ofarlega í huga. Hann var mjög góður maður.

Því miður get ég ekki verið við jarðarför Einars vegna ferðalags erlendis.

Fjölskyldu Einars og öðrum ástvinum votta ég mína dýpstu samúð.

Ari Edwald.