Sýningarstjórar (F.v.) Guðrún Vera Hjartardóttir, Jón B.K. Ransu, Sigrún Halldóra Gunnarsdóttir og Jasper Bock.
Sýningarstjórar (F.v.) Guðrún Vera Hjartardóttir, Jón B.K. Ransu, Sigrún Halldóra Gunnarsdóttir og Jasper Bock. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VIÐTAL Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.

VIÐTAL

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

„Við vonumst ekki til þess að svipta burt hulunni á milli þess andlega og þess efnislega, á sýningunni erum við raunverulega að svipta henni burt,“ segir Guðrún Vera Hjartardóttir, einn af fjórum sýningarstjórum listsýningarinnar Fullt af litlu fólki sem var opnuð í Gerðarsafni í gær.

Á sýningunni má finna verk heimsþekktra listamanna sem fallnir eru frá, verk Hilmu af Klint, Josephs Beuys og Rudolfs Steiners auk verka Gerðar Helgadóttur og átta samtímalistamanna.

„Það er ákveðinn hluti af myndlist að finna andann í efninu, að láta efnið tjá sig, að þar kvikni eitthvert líf, myndist einhver tengsl. Góðir listamenn svipta í sjálfu sér burt þessari hulu,“ segir Jón B.K. Ransu sem fer einnig með sýningarstjórn.

Sýningin er innblásin af hugmyndinni um að andlega reynslu megi tjá á ólíkan máta og birtingarmyndir hennar séu margs konar í menningu samtímans. Kenningar Rudolfs Steiners eru þær sem helst búa að baki sýningunni.

Steiner var austurrískur listamaður, vísindamaður, bókmenntafræðingur og heimspekingur sem meðal annars þróaði mannspeki (antroposofíu) sem „vísindi andans“, leið einstaklings til andlegs þroska.

Guðrún og Sigrún Halldóra Gunnarsdóttir, þriðji sýningarstjóri sýningarinnar, hafa báðar lengi haft mikinn áhuga á mannspeki Steiners en rannsóknarferlið fyrir sýninguna hófst fyrir tveimur árum með sameiginlegum lifandi áhuga þeirra á andlegum vísindum Steiners. Þær eru báðar í Antroposofiska félagi Íslands.

„Upphafið að þessu er okkar samtalsferli, stúdía okkar tveggja sem hefur átt sér stað reglulega í gegnum árin,“ segir Sigrún. Eiginmaður Sigrúnar, Jasper Bock, er fjórði sýningarstjórinn.

„Ég hef lesið fyrirlestra Steiners og hún líka og svo tengjum við það í listina. Þannig gerist þetta. Við tvær förum með þessa löngun að kalla til okkar fólk sem er á svipuðum slóðum og er að spá svipað og tengist listum,“ segir Guðrún.

„Í antroposofíu felst heildræn athugun á lífinu og staðhæfingin um að ekkert sé fast. Í antroposofíunni fáum við frelsi. Aðalgrunnurinn að allri antroposofíu sem var mikilvægast fyrir Steiner var frelsi einstaklingsins. Að vera aldrei niðurnjörvaður í hans hugmyndum og því sem hann segir heldur finna það, reyna það og upplifa með eigin reynslu,“ segir Sigrún.

„Steiner kemur fyrst inn. Okkur langaði að flytja inn töflurnar sem fylgja fyrirlestrum Steiners,“ segir Guðrún. Í ferlinu var þeim svo boðið að sýna einnig verk Klint og Beuys. Ransu, sem er eiginmaður Guðrúnar, hafði þá verið að rannsaka Klint og þótti Guðrúnu því við hæfi að fá hann með í ferlið.

„Ég er ekkert sérstaklega mikið inni í Steiner. Mínar pælingar komu miklu frekar frá Hilmu Klint og listasögu sem tengist svo sum andlegum pælingum. Svo hef ég auðvitað mikinn á áhuga á Gerði Helgadóttur og hennar tengslum við Gurdjieff. Hann var dulspekingur og ég hafði stundað hugleiðslur sem voru úr hans smiðju,“ segir Ransu.

Bæði Hilma og Beuys tengjast Steiner. Hilma, sem faldi sín merkustu verk svo þau voru ekki uppgötvuð fyrr en eftir andlát hennar, fór á fund Steiners til þess að bera verkin undir hann. Beuys hafði mikinn áhuga á Steiner og er skýr tenging á milli æviverks Beuys, svokallaðs samfélagsskúlptúrs, og heildrænnar samfélagssýnar sem birtist í antroposofíu Steiners.

„Svo þetta gerist allt í einhverju frábæru flæði og það eru einhvern veginn töfrarnir í sýningunni, hvernig hún mótar sig sjálf. Hvað verður til í samtali á milli verka, samtali á milli listamanna,“ segir Sigrún.

22 viðburðir á sýningunni

Allir listamennirnir eru í antroposofíska félaginu eða hafa einhvers konar tengingu við andleg vísindi.

„Allir listamennirnir eru í sambærilegum pælingum um þetta efni,“ segir Ransu.

Samt sem áður eru birtingarmyndir listarinnar mjög ólíkar. „Það er líka það sem er mikilvægt. Sýningin er þverskurður af listgreinum. Það er dans, grafísk hönnun, tónlist. Það eru sjónlistamenn og svo eru fræðingar. Og það er mikil dagskrá í kring um sýninguna, það eru 22 viðburðir í tengslum við hana og við teljum að þeir séu jafngildis verkunum á sýningunni,“ segir Sigrún.

Sýningin stendur fram í janúar og munu viðburðirnir dreifast yfir sýningartímann. Guðrún nefnir sérstaklega helgina sem er fram undan þegar hún er spurð út í hápunkta dagskrárinnar.

„Um helgina má finna lykla sem dýpka skilning gesta á sýningunni. Þá sérstaklega á málþinginu. Þar tala fræðimenn, til dæmis Walter Kugler sem er sérfræðingur í Steiner.“

Á sunnudaginn klukkan eitt verður sérstök stund sem gestir þurfa að skrá sig í. „Það er teseremónían sem kjarnar núvitund. Það er svona kjarni í henni. Það eru tólf sem geta tekið þátt. Þú átt eftir að skilja margt ef þú ferð þarna inn,“ segir Guðrún. „Þú færð dýpri skilning á sjálfum þér og þar af leiðandi á öllu öðru.“

Áhrifin sem sýningarstjórarnir vilja hafa á áhorfendur eru skýr. „Að þú komist nær kjarna þínum, hver sem hann er,“ eins og Guðrún orðar það.

„Þess vegna er viðburðadagskráin líka svo mikilvæg því hún dýpkar og styður við allt annað sem á sér stað,“ segir Sigrún.

„En verkin eiga í sjálfu sér líka þetta samtal,“ bætir Guðrún við.

„Vegna þess að listamennirnir eru innblásnir af því andlega,“ segir Ransu.

„Það væri líka gaman ef einhverjar spurningar myndu vakna. Málþingið er akkúrat fullkomið tækifæri til að spyrja spurninga á,“ segir Sigrún.

Ransu segir mikilvægt að skynja sýninguna. „Skilningur á sýningunni fer eftir því hvaðan þú horfir. Greinirðu þetta eða upplifirðu þetta?“

Guðrún segir að tengsl á milli verkanna séu mikil þrátt fyrir að listsköpunin sé fjölbreytt. „Mér finnst vera svona sterkt samtal á milli verkanna og það er alveg nýtt fyrir mig. Það var líka þessi ósk einhvern veginn, að okkur langaði í samtal við hina.“

Ransu samsinnir því. „Ef það er ekki samtal á milli verka þá er samsýningin ekki að heppnast. Það er lykilatriði þegar margir eru að sýna saman.“

Guðrúnu er sérstaklega annt um barnasvæðið sem staðsett er nálægt verkum hennar. „Við tökum það inn í sýninguna, þetta er ekki bara eitthvert barnahorn. Það er annars konar og með áhöldum sem líkjast svolítið því sem er notað í Steiners-skólum, þarna verða töflur, ull og fleira.“

Meðan á sýningunni stendur verða sömuleiðis smiðjur fyrir foreldra og börn sem tengjast efni sýningarinnar. Waldorfs-skólarnir eru byggðir á hugmyndafræði Steiners en Waldorfs-skólarnir áttu einmitt 100 ára afmæli þegar sýningin var opnuð í gær.

Titillinn Fullt af litlu fólki vísar í skýringarmynd sem Steiner teiknaði á fyrirlestri sem hann hélt árið 1922. Titillinn fangar hina breiðu sýningu, að mati sýningarstjóranna. Hægt verður að hlusta á fyrirlestra Steiners á kaffihúsinu í Gerðarsafni meðan á sýningunni stendur.

„Það er ekki auðvelt að hlusta á þetta og skilja þetta eins og við viljum skilja þetta í samtímanum. Við viljum harða þekkingu, kalda þekkingu. Ég hef lært í gegnum árin hvernig ég eigi að lesa þetta og hvernig ég geti nýtt þetta sem myndlistarmaður. Fyrir mig virkar þetta bara upp á ímyndunarafl og innsæi. Þetta er svo stór mynd sem hann er inni í þegar hann er að tala.“

Sigrún segir boðskap Steiners mikilvægan í nútímasamfélagi.

„Einn fyrirlesturinn sérstaklega. Hann fjallar um næringarfræði, líkamann og heildræna sýn á manneskjuna. Hann endar á að tala um menntastefnur og allt það sem er að eiga sér stað í menntakerfinu núna, þeir vilja brjóta upp, taka inn meiri sköpun, hann er bara að tala um þetta 1920. Þetta er ekkert nýtt. Það þarf ekki að finna upp hjólið. Það þarf bara að taka inn reynslu, 100 ára reynslu.“

Samtímann skorti þolinmæði

Sýning margra listamanna og margra sýningarstjóra krefst þolinmæði.

„Þegar upp hafa komið aðstæður þar sem maður þarf að segja já eða nei er best að segja bara: „skoðum það“. Það hefur virkað rosalega vel í okkar hóp að mínu mati að sleppa jái og sleppa neii og sjá hvað sýningin sýnir okkur,“ segir Sigrún.

Allir sýningarstjórarnir sýna einnig sín eigin verk á sýningunni.

„Þegar upp kemur spurning um að breyta einhverju sem tengist manns eigin verki þarf maður að pína sig í að prófa það og þá kemur alltaf ný sýn, eitthvað sem maður hefði annars ekki séð. Það segir mér að þetta sé aðeins stærra en maður einn með sjálfum sér í sínu. Þetta tekur lengri tíma og ég held að samtíminn þurfi það. Það þarf meiri hlustun og meiri tíma í hlutina. Við förum svolítið hratt,“ segir Guðrún.

Að lokum þakka sýningarstjórarnir Gerðarsafni og starfsfólki safnsins sérstaklega fyrir.

„Safnið er náttúrlega búið að vera stórkostlegt og það er magnað að vinna hérna með þessu fólki. Þetta er svo góður hópur og ótrúlega gott að vinna hérna.“