Bjarni Eyjólfur Guðleifsson fæddist 21. júní 1942. Hann lést 7. september 2019.
Útför Bjarna Eyjólfs fór fram 16. september 2019.
Bjarni Guðleifsson var góður félagi og vinur. Hann var örlagavaldur í mínu lífi þegar kom að því að velja framhaldsnám eftir menntaskóla.
Ég átti gott spjall við Bjarna og hann hreif mig með sér inn í heim plöntulífeðlisfræðinnar. Hann kunni fræðin vel en hafði einnig gott lag á því að fræða aðra og vekja áhuga fólks á ýmsum fyrirbærum í náttúrunni.
Hann var sannur náttúrufræðingur, þolinmóður, skipulagður, hlýr, réttsýnn, tillitssamur og mikill húmoristi. Ég var eitt sinn að mæla út fyrir tilraun á Möðruvöllum ásamt Bjarna þegar við unnum saman á RALA.
Mér tókst illa að ná taki á endanum á málbandinu, teygði mig eftir því í þrígang en það rann alltaf úr höndunum á mér. „Afskaplegur klaufi er ég,“ hugsaði ég um leið og ég leit upp. Þar sá ég prakkarasvipinn á Bjarna við hinn enda málbandsins sem hann hafði kippt í lauslega í hvert skipti sem ég teygði mig eftir málbandinu!
Bjarni var virtur vísindamaður á alþjóðavísu.
Hann var frumkvöðull í mörgum sínum rannsóknum og nýtur virðingar fyrir störf sín á kali og vetrarþoli jurta. Margir samstarfsfélagar víða um heim hafa unnið með Bjarna í tugi ára og þar hefur myndast góður vinskapur.
Fleiri félagar Bjarna frá Noregi, Kanada, Bandaríkjunum og Japan hafa beðið mig fyrir kveðju, þeir minnast góðs félaga og mikilvægs fræðimanns í heimi plöntuvísindanna.
Ég votta Pálínu, börnum Bjarna og fjölskyldum innilega samúð.
Minningin um góðan mann lifir ásamt sögunum hans og vísindagreinum.
Sigríður Dalmannsdóttir.