Sigurður Axel Gunnarsson fæddist 30. desember 1958 á Ísafirði. Hann lést á heimili sínu og systur sinnar á Selfossi hinn 10. september 2019.

Sigurður var sonur hjónanna Ebbu Dahlmann og Gunnars Kristjánssonar. Þau eru bæði látin. Eldri systir hans var Guðlaug Ebba, d. 11. mars 2012. Eftirlifandi er systirin Hanna Lára.

Sigurður átti dæturnar Fanneyju Ebbu og Rakel Björk, með þáverandi konu sinni, Dagmar Gunnarsdóttur, og gekk hennar dóttur, Fjólu Katrínu, í föðurstað.

Minningarathöfn um Sigurð Axel verður haldin í Fossvogskapellu í dag, 20. september 2019, klukkan 13.

Fallinn er frá náinn vinur og frændi, Sigurður Axel Gunnarsson, langt um aldur fram.

Við Sigurður Axel, eða Bóbó eins og hann var ávallt kallaður, kynntumst á okkar fyrstu æviárum þar sem við vorum fæddir á sama árinu og mikill samgangur var á milli mæðra okkar sem voru systur.

Reyndar hélst þetta samband okkar Bóbós á meðan hann lifði en með hléum þó. Í viðbót við reglulegar heimsóknir hans frá Ísafirði til okkar í Reykjavík á sínum yngri árum þá bjó ég eitt sumar heima hjá honum á Ísafirði.

Þar bjó Bóbó ásamt foreldrum sínum, Gunnari Kristjánssyni og Ebbu Dahlmann, svo og systrum sínum Guðlaugu Ebbu Gunnarsdóttur og Hönnu Láru Gunnarsdóttur. Þar undi ég mér vel í góðu yfirlæti þessarar gestrisnu fjölskyldu.

Síðar bjuggum við bræðurnir með Bóbó á Ásvallagötunni í nokkur ár þegar við vorum nálægt tvítugsaldrinum. Þetta voru árin sem við vorum enn að mótast og íhuga hvert við ætluðum að stefna í framtíðinni. Ekki vorum við þó svo uppteknir af þeim hugleiðingum að ekki gæfist tími til umtalsverðra skemmtanahalda. Verður ekki farið nánar út í það hér en þetta voru góðir tímar.

Bóbó var stór maður og sterkur á þessum árum sem kom sér oft vel ef einhverjir voru ekki alsælir með tilsvör okkar eða athugasemdir þegar við heimsóttum skemmtistaði í höfuðborginni eða nágrannabæjum. Það réðst enginn á þann mann sem hafði Bóbó sér við hlið sama hvað sá maður hafði unnið sér til saka. Bóbó var nefnilega, fyrir utan að vera stæðilegur, bæði fórnfús og hjálpsamur einstaklingur sem gætti vel að sínum.

En Bóbó var líka með gott skopskyn og sagt er að fyndnu fólki sé allt fyrirgefið og það á vel við hann Bóbó.

Bóbó var góður skákmaður og stundaði þá íþrótt á yngri árum. En einhvern veginn minnkaði sá skákáhugi þegar hann flutti til okkar bræðranna á Ásvallagötuna.

En síðan skildi leiðir, Bóbó stofnaði fjölskyldu og ákvað hann að flytja til Svíþjóðar með fjölskyldu sína. En hann kom þó ávallt heim til Íslands á ættarmótin okkar sem haldin eru reglulega á Tannstaðabakka í Hrútafirði. Og þar var aftur tekinn upp sá grallaraskapur og ungæðisháttur sem við höfðum að mestu skilið eftir á Ásvallagötunni mörgum árum áður.

Bóbó ákveður síðan fyrir nokkrum vikum að flytja aftur heim til Íslands og flutti þá til systur sinnar, Hönnu Láru enda börn hans orðin fullorðin og flutt að heiman. Það var eftir því tekið hvað hann var jákvæður og fullur bjartsýni þegar hann flutti heim, honum hafði ekki liðið svona vel lengi. Því er það einstaklega sorglegt að einmitt þá skuli hjarta hans hafa gefið sig eins sterkt og gott hjartað hans þó ávallt var.

Þetta fráfall Bóbós skilur Hönnu Láru eftir eina af fimm manna fjölskyldu Gunnars Kristjánssonar og Ebbu Dahlmann en áður hafði Guðlaug systir hennar einnig fallið frá. Því er erfitt að hugsa til þess hve þungbært þetta fráfall er fyrir hana og börn Bóbós.

Ég votta fjölskyldu Bóbós samúð mína og vona að þær dragi úr söknuðinum minningarnar góðu sem Bóbó skilur eftir sig og verða aldrei frá okkur teknar.

Sigurður Bragi

Guðmundsson.

Skemmtilega stríðinn og glettinn var hann móðurbróðir minn Sigurður Axel. Nú þegar leiðir skilur hefur maður góðar minningar um uppáhaldsfrænda til að hugga sig við. Ber þar hæst heimsóknirnar á Engjaveginn í æsku. Þar tók frændi vel á móti manni ekki síður en afi og amma. Á Engjaveginum var ýmislegt gert og lært með stóra frænda, s.s. kíkja á gaukinn, lesa heimsbókmenntir (Andrésblöð) á eldhúsbekknum og eyru manns stækkuðu um allan helming þegar hann upplýsti mann um að „fiskur er fiskur en kjöt er matur“. Stríðnin var þó hans aðalsmerki. Ávallt beið maður spenntur eftir hver næsti grikkur væri. Iðulega var það góðlátlega stríðnisglottið sem sat svo oft á andliti Sigurðar Axels, sem gaf til kynna að hann væri líklegast að stríða einhverjum. Jafnvel manni sjálfum. Ég sakna míns kæra frænda fjarska mikið, bæði gæsku hans og glettni.

Sólveig Sif.

Þá er höggvið enn eitt skarð í móðurlegg fjölskyldu minnar. Sigurður Axel hefur kvatt okkur allt of fljótt aðeins sextugur að aldri. Ég þekkti Sigurð nægilega vel til þess að geta fullyrt að það síðasta sem hann hefði viljað væri einhver lofræða um hann í minningargrein í Morgunblaðinu. Hins vegar verður ekki hjá því komist að þegar kemur að vali á uppáhaldsfrænda stelur hann fyrsta sætinu auðveldlega. Allt frá bernsku minni til fullorðinsára héldum við góðu sambandi. Þótt stundum liði langt á milli þess sem við hittumst gátum við alltaf tekið upp þráðinn þá og þegar eins og ekkert hefði ískorist og fagnaðarfundirnir voru innilegir og ekta.

Þótt líf þitt frændi hafi oft á tíðum verið brekka barstu alltaf höfuðið hátt, varst alltaf léttur, kátur og hrókur alls fagnaðar. Árin á milli okkar voru nokkur en við gátum alltaf brúað bilið og fundið okkur sameiginlegan flöt. Þú gafst þér tíma til að rækta frændsemina af kostgæfni og við gátum endalaust spjallað um fótbolta, golf, Leeds Utd., Rolling Stones og allt þar á milli. Þessar stundir eru mér mikilvæg minning, sem ég geymi um aldur og ævi.

Ég er svo þakklátur fyrir að hafa átt þig að sem frænda kæri vinur og gleðst yfir því að hafa náð að hitta á þig í lok sumars ásamt Lindu og að þú hafir fengið tækifæri til að hitta og kynnast örverpinu okkar, honum Vigfúsi Þorra. Á sama tíma finnst mér sárt að strákarnir mínir þrír fái ekki að njóta uppáhaldsfrænda míns lengur, heldur einungis heyra af honum skemmtilegar sögur.

Takk fyrir samfylgdina í gegnum lífið, kæri frændi og vinur.

Fjóla Katrín, Fanney Ebba, Rakel Björk og fjölskyldur, ég og fjölskylda mín sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.

Minning um góðan og skemmtilegan mann lifir.

Jón Vídalín Halldórsson.