Margrét Kristjánsdóttir (Maddý) fæddist á Ísafirði 8. september 1935 og ólst þar upp. Hún lést á heimili sínu 11. september 2019.
Foreldrar hennar voru hjónin Kristján Hannes Jónsson forstjóri og hafnsögumaður og Anna Sigfúsdóttir húsmóðir. Bróðir Maddýjar var Jón Símon og uppeldisbróðir hennar Sigmundur.
Maddý útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands árið 1954. Hún stundaði nám í píanóleik og tónsmíðum við Tónlistarskólann í Reykjavík. Á námsárum sínum í Reykjavík bjó Maddý hjá fjölskylduvinum, þeim Láru Arnardóttur og Steingrími Jónssyni. Maddý gegndi um tíma starfi hjá Útvegsbankanum í Reykjavík.
Árið 1957 hélt Maddý utan til náms og útskrifaðist í gluggaútstillingum frá hönnunarskólanum Bergenholtz í Kaupmannahöfn. Heim komin að námi loknu vann hún við fag sitt í versluninni Kjörgarði í Reykjavík. Árið 1960 flutti Maddý til Bandaríkjanna þar sem verðandi eiginmaður hennar, Örn Arnar, var við framhaldsnám í læknisfræði.
Maddý og Örn giftust í desember 1960 í Minneapolis og hafa búið þar síðan, að undanskildum tveimur árum er þau bjuggu á Íslandi í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar.
Maddý vann við gluggaútstillingar í stórversluninni Dayton’s til ársins 1962. American Swedish Institute hefur árlega sett upp sýningu á norrænum jólastofum. Maddý nýtti hönnunarhæfileika sína við uppsetningu þessara sýninga þar sem hún hannaði íslensku jólastofuna í yfir fjörutíu ár.
Maddý og Örn eiga fjögur börn sem öll eru búsett í Bandaríkjunum. Þau eru: Anna Sigríður, f. 1962, Bernhard, f. 1964, Rannveig, f. 1965, og Kristján Örn, f. 1970. Barnabörnin eru átta. Auk húsmóðurstarfa tók Maddý virkan þátt í íslenska samfélaginu í Minneapolis, m.a. í kvenfélaginu Heklu og Íslendingafélaginu.
Frá árinu 1997 aðstoðaði Maddý Örn í starfi hans sem ræðismaður Íslands í Minneapolis. Maddý var virk í tónlistarlífi tvíburaborganna St. Paul og Minneapolis, eins og t.d. í „Thursday Musical“. Síðast en ekki síst stóðu Maddý og Örn í áraraðir fyrir fjölmörgum samkomum fyrir íslenska námsmenn sem komu til tvíburaborganna til náms við háskólann í Minnesota.
Útför Margrétar fer fram í Minneapolis í dag, 20. september 2019.

Með hlýju, gleði og þakklæti minnist ég Maddýar sem ég hef þekkt alla mína ævi.

Á næsta ári eru 60 ár síðan foreldrar mínir og foreldrar Önnu Siggu, minnar elstu og kæru vinkonu, kynntust sem Íslendingar í útlandinu. Tveimur árum seinna fæddumst við Anna Siggu með fjögurra daga millibili á Northwestern-sjúkrahúsinu í St. Paul í Minnesota. Þetta var á þeim tíma sem konur lágu sængurlegu á spítala þannig að Maddý kom náttúrulega strax eftir að ég fæddist til að heilsa upp á okkur mæðgur. Mikill vinskapur var á milli fjölskyldnanna og við Anna Sigga vorum mikið saman fyrstu fjögur ár ævi okkar. Í gegnum fjölda frásagna og ljósmynda þá man ég þetta allt vel og þetta voru ljúfir tímar. Maddý svo hress, skemmtileg og smart. Fölskylda mín flutti til Íslands og Maddý, Örn og börnin þrjú bjuggu áfram í Minneapolis. Myndir af þeim komu með jólakortum en við hittumst ekki. Tengslin voru samt mjög sterk þar sem mikill vinskapur og tengsl höfðu myndast á milli mömmu minnar og fjölskyldu Arnars heima á Íslandi. Þannig var ég stundum að skottast í Stórholtinu hjá tengdaforeldrum Maddýjar og í Safamýrinni og síðar í Aratúni hjá Ernu mágkonu hennar þegar ég var lítil.

Maddý og Örn fluttu til Íslands árið sem við Anna Sigga urðum átta ára gamlar. Með fjórða barnið, nýfætt krútt vafið í teppi. Fyrstu mánuðina bjuggu þau á Húsavík og svo fluttu þau suður. Þetta var dýrmætt skref og dásamlegur tími. Það var líflegt og gaman á Lindarflötinni. Maddý flotta, skemmtilega mamman, einstaklega frumleg og hafði endalausa orku og tíma fyrir okkur börnin. Afmælisveislur voru eftirminnilegar, húsið skreytt hátt og lágt, nýstárlegir leikir og flottar veitingar. Hún saumaði svuntur utan um gosflöskurnar og teiknaði andlit sem hún festi á drykkjarrörin. Maddý hélt hrekkjavöku og það var eins og að ganga inn í ævintýraheim um leið og maður kom inn í forstofuna á Lindarflötinni. Maddý var líka sýnileg út á við og vakti athygli í Garðabænum þegar hún tók sig til og málaði húsið í sterkum lit. Bæði þótti litavalið sérstakt og ekki síður að húsmóðir stæði í þessum framkvæmdum. Mér er líka einkar minnistætt þegar við Anna Sigga fóru í sumarbúðir. Maddý dressaði okkur upp, enda lék allt í höndum hennar. Punkturinn yfir i-ið voru derhúfur í sitthvorum litnum með sama munstrinu. Mín skærgræn, vakti mikla athygli og ég notaði húfuna fram á unglingsár. Þegar við komum heim úr sumarbúðunum var Maddý búin að taka herbergið mitt í gegn, setja litríkt, röndótt veggfóður sem var í mörgum djúpum bleikum litum og breyta flestu þar inni. Ég var svo hissa og þakklát. Hafði aldrei séð svona flott herbergi. Já hún Maddý var ótrúleg. Þessi tvö ár á Íslandi voru dýrmæt á svo marga vegu. Elstu börnin lærðu íslensku og eignuðust vini sem þau eiga enn tæpri hálfri öld seinna. Þannig var lagður grunnur að góðri tengingu barnanna við Ísland og ég er viss um að þessi ár á Íslandi hafi haft áhrif á að Anna Sigga og Rannveig kusu að dvelja og starfa hér um tíma þegar þær voru unglingar og ungar konur. Maddý þótti afar vænt um sterk tengsl barna hennar við Ísland.

Leiðin lá aftur til Minneapolis. Tengslin slitnuðu ekki, þó stundum teygðist á. Alltaf var gaman og áhugavert að vera með Maddý og Erni hvort sem það var hér heima eða í Minneapolis. Eftir að ég varð fullorðin og komin með eigin fjölskyldu breyttust tengslin. Maddý var ekki lengur bara mamma Önnu Siggu heldur líka kær vinkona. Ég var samt kannski stundum litla stelpan. Minnistætt er þegar Anna Sigga kom í heimsókn til Íslands þegar við vorum rúmlega fertugar. Meðferðis hafði hún íslenska seðla í umslagi merktu okkur sem pabbi hennar og mamma höfðu sent hana með svo að við gætum farið saman tvær út að borða á veitingastað. Við máttum eiga afganginn. Maddý sagði mér oft hvað henni þætti gaman að við Anna Sigga værum vinkonur. Gaman þótti henni líka að yngsti sonur minn og Liv Margrét væru nánast jafnaldrar. Arnarhóll var unaðslegur enda heimilið hannað af Maddý og Erni. Pláss fyrir gesti og vel tekið á móti öllum. Við sátum tvær niðri í stofu eða eldhúsi þegar aðrir voru farnir að sofa og spjölluðum langt fram á nótt. Á Arnarhóli leið mér eins og ég væri heima hjá mér og hér heima var alltaf notalegt að vera með Maddý. Maddý var ung í anda í ungum líkama, óhefðbundin, bætti allt í kringum sig og gerði lífið litríkara. Brosið hlýtt, innilegt og náði til augnanna. Og ljúfir voru tónarnir þegar Maddý settist við píanóið. Maddý var alltaf í núinu. Það er notalegt og gaman að vera í samskiptum við gott, skemmtilegt og uppbyggilegt fólk sem þekkir mann vel. Ég átti þess kost að vera með allri fjölskyldunni, þ.e. Maddý og Erni, börnum, tengdabörnum og barnabörnum, á Neskaupstað fyrir nokkrum árum og er sú dvöl ógleymanleg. Einnig var gaman að hitta allan fjölskylduna þegar hún kom til Reykjavíkur eftir mjög svo ánægjulega för á æskuslóðir Maddýar á Ísafirði.  Það var frá mörgu skemmtilegu að segja. Við fjölskyldan dvöldum um jólaleytið hjá Maddý og Erni og ákváðum að dvelja með Önnu Siggu, Rannveigu og fjölskyldum í Litlu-Hlíð yfir áramótin. Maddý og Örn fóru á ball með vinum sínum á gamlárskvöld.  Þegar við komum heim á Arnarhól á nýárskvöld var búið að breyta skreytingum í húsinu og setja upp nýársskreytingu. Dimmblátt var ríkjandi, silfraðar stjörnur og mörg hvít kerti. Girnilegt norrænt hlaðborð, með skinku, danskri rúllupylsu, síldarsalati með rauðrófum, norskum lefsum og fleira góðgæti, beið okkar. Tæplega sex ára sonur minn varð svo heillaður að ári síðar hafði hann það í gegn að keyptur var dimmblár dúkur með silfruðum stjörnum sem við höfum síðan þá notað um áramótin. Það voru ekki bara svunturnar á gosflöskunum sem heilluðu mig þegar ég var lítil. Í Litlu-Hlíð settum við Anna Sigga á okkur sitthvora Marimekko svuntuna. Mér fannst þær flottar og hafði orð á því að ég hafði aldrei séð þessa tegund áður. Það var ekki furða. Í ljós kom að Maddý hafði útbúið tvær svuntur úr einni til að nýta betur svona fallega svuntu.

Maddý ólst upp á Ísafirði, fór í framhaldsskóla og tónlistaskóla í Reykjavík og virtan hönnunarskóla í Kaupmannahöfn. Var kona þriggja landa. Unni Íslandi og þjónaði landinu í áratugi á erlendri grundu. Átti nána ættingja í Danmörku sem hún hélt alltaf sambandi við. Bjó og starfaði í nær sex áratugi í Bandaríkjunum. Hún sagði mér fyrir nokkrum árum að þar ætti hún mest heima. Þar væru börn og barnabörn þeirra hjóna, yndislegar minningar sem og ævistarf þeirra. Eftir að ég varð fullorðin fannst mér eins og Maddý og Örn gerðu allt saman og nær óhugsandi að það hafi einhvern tímann verið öðruvísi. Maddý sagði mér að það hafi verið stórt skref fyrir hana að fara til Ameríku og alls ekki auðvelt. Örn hafi verið í strembnu námi, mikilli vinnu og lítið sést heima fyrir. Lífið hafi bara oft verið erfitt og hún stundum einmanna og af og til með heimþrá. Félagsskapur eiginkvenna annarra lækna og ýmis félagsstörf hjálpuðu henni sem og að vera í samskiptum við Íslendinga. Maddý vann að góðgerðarmálum á sviði heilbrigðismála og sinnti ýmsu öðru sjálfboðastarfi, m.a. fyrir Íslensk-ameríska félagið í Minneapolis. Setti árlega upp íslenskt jólaborð og hélt barnajólaböll í The Swedish Institute. Lagði sitt af mörkum til tónlistalífs í Minneapolis. Greiddi götu íslenskra nemanda og fjölskyldna þeirra í áratugi. Þá eru ótaldar allar stórveislurnar og móttökurnar sem hún hélt fyrir Íslendinga heima á Arnarhóli eða í Grænuhlíð. Þessari opinberu hlið á Maddý kynntist ég lítið nema af afspurn. Ég var með henni þar sem saman voru komin fjölskyldan og nánir vinir. Ég þekkti hlýju, innilegu og skemmtilegu fjölskyldukonuna en vissi auðvitað af því mikla starfi sem Maddý sinnti við að kynna Ísland og aðstoða Íslendinga í Minneapolis.

Ellikerling, sú leiðindatuðra, fór ekki blíðum höndum um Maddý og tók mikið frá henni. Það var sárt. Maddý sem hafði ánægju að vera með fólki, spjalla, syngja og hafa gaman missti málið og fleira. Það var erfitt. Maddý breyttist þó ekkert, fylgdist vel með öllu, hafði sama brennandi áhuga á lífinu og unga fólkinu og brosti sínu fallega, hlýja brosi. Með hjálp tölvu sem ljáði Maddý rödd gat hún verið í samskiptum. Í fyrsta sinn sem ég var með henni eftir að hún fór að nota tölvuna sátum við á Kvisthaganum þar sem Maddý og Örn hafa dvalið síðustu ár þegar þau hafa verið í Reykjavík. Fyrsta sem hún spurði mig með hjálp tölvunnar var hvort að 17 ára sonur minn væri kominn með kærustu. Já, Maddý var söm við sig. Örn og Maddý ferðuðust mikið, sinntu vel fjölskyldu sinni og stórum vinahópi, komu reglulega til Íslands og tóku virkan þátt í menningarlífinu þar sem þau voru stödd hverju sinni. Örn lagði sig allan fram við að Maddý gæti notið alls þessa sem lengst. Þau fluttu nýlega í hentugra húsnæði nær sonum sínum og hafa notið góðs af nálægðinni við þá.

Gengin er yndisleg kona og nú er komið að kveðjustund.  Ég mun sakna Maddýjar.  Örn hefur misst mest.  Hugur minn er hjá honum og fjölskyldu hans.

Við fjölskylda mín sendum Erni, Önnu Siggu, Benna, Rannveigu, Kristjáni og allri fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.


Sigurbjörg (Idda).