Árni Vilhjálmsson fæddist í Bakkakoti, Rangárvallasýslu, 4. júlí 1941. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 29. ágúst 2019.

Foreldrar hans voru Þórsteinunn Stefánsdóttir húsfreyja, f. 5. júlí 1919 á Eskifirði, d. 2. mars 1978, og Vilhjálmur Pálsson bóndi, f. 1. júní 1900 á Gaddastöðum, Rangárvallasýslu, d. 4. maí 1961. Árni átti einn albróður og tvö hálfsystkini sammæðra.

Hinn 13. febrúar 1963 kvæntist Árni Bryndísi Guðrúnu Kristjánsdóttur, f. 22. október 1942, en þau skildu árið 1971. Árni og Bryndís tóku aftur saman árið 1992 og giftu sig 20. febrúar 2018. Bryndís lést eftir erfið og stutt veikindi 1. nóvember 2018.

Börn Árna og Bryndísar: 1) Kristjana Sólborg Árnadóttir, f. 15. jan. 1960, gift Kristjáni G. Guðmundssyni, f. 2. okt. 1953, dætur þeirra a) Bryndís Guðrún, f. 26. nóv. 1976, Magðalena Margrét, f. 17. okt. 1979, Magnea Freyja, f. 17. mars 1989. 2) Pétur Gunnar Þór Árnason, f. 22. nóv. 1962, d. 12. maí 1969. 3) Guðlaug Brynhildur Árnadóttir, f. 18. des. 1963, gift Jóni Pálma Bernódussyni, f. 22. ágú. 1962, börn þeirra b) Jónína, f. 24. des. 1982, Kristján, f. 24. nóv. 1990. 4) Vilhjálmur Árnason, f. 15. maí 1966, sambýliskona Sigfríður G. Sigurjónsdóttir, f. 12. des. 1964, börn þeirra c) Hjálmdís Ólöf, f. 2. maí 1988, Anna Margrét, f. 19. okt. 1992, Hafsteinn Árni, f. 14. apr. 1997, Björn Matthías, f. 21. nóv. 1999, Berglind Eir, f. 7. júl. 1986, Guðbjartur Gísli, f. 16. júl. 1988, Jón Hákon, f. 10. okt. 2000. 5) Kristján Sólberg Árnason, f. 27. ágú 1967, giftur Önnu Kristínu Grettisdóttur, f. 11. feb. 1971, börn þeirra d) Jóel Grettir, f. 28. apr. 1990, Birkir Þór, f. 18. jún. 1996, Sandra Ósk, f. 23. feb. 2000. 6) Pétur Gunnar Þór Árnason, f. 25. maí 1970, giftur Ingibjörgu Kristínu Þórarinsdóttur, f. 2. okt. 1982, börn þeirra e) Bjarni Snæbjörn, f. 17. sep. 1994, Guðný Magnea, f. 7. sep. 2005, Rannveig Perla, f. 30. jún. 2010. 7) Ástrós Hjálmtýsdóttir, f. 30. október 1974, gift Kristjáni Bjarnasyni, f. 12. mars 1969, börn þeirra e) Alexander, f. 2. maí 1996, Birta Líf, f. 22. feb 2000, Ísabella Schöbel, f. 11. ágú 2004, Hjálmtýr Daníel Schöbel, f. 25. jan 2006, Kristján Högni, f. 10. mar 1992, Lena Rut, f. 28. mar. 2001.

Þegar Árni og Bryndís endurnýjuðu kynnin var Bryndís orðin ekkja og átti hún eina dóttur úr fyrra hjónabandi. Þá átti Bryndís einnig soninn Svan Gunnar Guðlaugsson, f. 1961.

Afkomendur Árna og Bryndísar eru orðnir 37 talsins, 36 þeirra eru á lífi og eru dreifðir víða um heimsbyggðina.

Fyrstu árin á vinnumarkaði vann Árni við ýmis verkamannastörf, var á togurum en lengst af vann hann sem verkstjóri hjá Bifreiðum og landbúnaðarvélum.

Útför Árna fer fram frá Fella- og Hólakirkju í Reykjavík í dag, 25. september 2019, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku Árni minn, það er skrítið að sitja hérna úti á Spáni og skrifa þessi kveðjuorð. Þú ætlaðir að vera með mér og Didda hér á Spáni, þú varst byrjaðar að undirbúa þig fyrir ferðina og láta þig hlakka til. Tveimur dögum áður en þú kvaddir fór ég með þér til læknisins þar sem heilsan hafði ekki alveg verið nógu góð. Þú vildir fá grænt ljós frá lækninum áður sem þú fékkst. Það sem við vissum ekki þá var að þú varst að undirbúa þig í annað ferðalag en með okkur. Þú varst á leiðinni í Draumalandið til mömmu og Péturs heitins.

Ég man þegar þið mamma tókuð aftur saman eftir að ég missti pabba, þú fluttir inn til mömmu þegar ég flutti að heiman. Það voru ekki allir hrifnir af því að þið tækjuð saman og á þeim tíma pældi ég lítið í því þar sem ég var svo upptekin af að vera fullorðin of snemma. Þið mamma áttuð sögu saman frá fyrri tíma, áttuð börn saman og voruð búin að upplifa mikla sorg þegar þið misstuð litla strákinn ykkar.

Ég man þegar mamma greindist með krabbamein snemma á árinu 2018, þá kom ekki annað til greina en að þið létuð pússa ykkur saman. Þú varst ekki alveg á því en ég tók ekki annað í mál og sagði að það væri það eina í stöðunni og þið fenguð litlu að ráða um það. Ég hringdi í prestinn og sagði að ég yrði að láta gifta mömmu mína, þegar ég, þú og mamma fórum á fund til prestsins, þá sá hann að mamma var skráð ekkja í þjóðskrá og þú fráskilinn, hann bað því um nafn fyrrverandi eiginkonu þinnar og þegar ég nefndi við hann að það væri mamma, þá skildi hann ekkert í því og sagði: bíddu er hún ekki ekkja? Það var mikið hlegið að því og óhætt að segja að fjölskyldumynstrið er flókið.

Það að þið tókuð saman aftur var best fyrir ykkur og best fyrir okkur systkinin. Mamma var stóra ástin í lífi þínu og þú gerðir allt fyrir hana. Þegar mamma veiktist stóðst þú við hlið mömmu og vékst ekki frá henni. Ég veit að þú saknaðir hennar alltaf mikið.

Þú varst mér alltaf góður og börnunum mínum líka. Þú varst þeim góður afi og þau gátu alltaf leitað til þín. Við áttum öll ógleymanlegar stundir saman. Hvort sem var á jólunum, ferðalögum, heima hjá þér og mömmu eða hjá okkur.

Elsku Árni minn, við þökkum þér allar samverustundirnar, umhyggjuna fyrir okkur og fjölskyldunni allri og öllu heima.

Ástar- og saknaðarkveðjur,

Ástrós.

Elskulegi afi okkar, nú ertu búinn að kveðja og kominn til ömmu. Við erum þakklát fyrir tímann sem við fengum að njóta með þér. Við kveðjum þið með söknuði og hugann fullan af ljúfum minningum.

Við elskum þig, sofðu rótt, afi okkar.

Í bænum okkar, besti afi

biðjum fyrir þér

að Guð sem yfir öllu ræður,

allt sem veit og sér

leiði þig að ljóssins vegi

lát' þig finna að,

engin sorg og enginn kvilli

á þar samastað.

Við biðjum þess í bænum okkar

bakvið lítil tár,

að Guð sem lífið gaf og slökkti

græði sorgarsár.

Við þökkum Guði gjafir allar

gleði og vinarfund

og hve mörg var ávallt með þér

ánægjunnar stund.

(Sigurður Hansen)

Alexander, Birta Líf, Ísabella og Hjámtýr (Hjalli).

Örfá kveðjuorð um elsku mág minn, Árna Vilhjálmsson, sem lést aðfaranótt 29. ágúst síðastliðinn. Árni var búinn að vera lengi hjartveikur og varð bráðkvaddur á heimili sínu. Árni stundaði ýmis störf, var á sjó, vann við pípulagnir, á bílaklæðningarverkstæði Elfars og síðan í mörg ár hjá B&L sem verkstjóri. Árni var mjög dulur maður og lét ekki mikið fyrir sér fara en var mikið ljúfmenni.

Árni missti konu sína, Bryndísi, 1. nóvember 2018 og stóð sig eins og hetja í heilt ár í hennar miklu veikindum. Árni og Dísa systir mín voru afskaplega samrýnd hjón og fóru í margar utanlandsferðir. Þeim þótti mjög gaman að ferðast og við fórum þrjú saman í eina ferð. Ég kom oft í heimsókn til Árna og Dísu systur. Það var yndislegt að koma í heimsókn til þeirra í kaffisopa og spjalla um lífið og tilveruna, þá var oft hlegið. Eftir að Dísa dó hélt ég áfram að fara í morgunkaffi til Árna til að athuga hvernig honum liði. Alltaf sagði hann að það væri allt í lagi með sig en hann var mjög einmana eftir lát hennar. Ég kom til hans morguninn áður en hann dó. Við ræddum um ferðina sem hann hlakkaði mikið til að fara í. Hann ætlaði til Alicante með krökkunum í september en það fór á annan veg. Hann fór í staðinn í sína hinstu ferð og ég trúi að hann sé búinn að hitta Dísu sína aftur.

Við munum sakna Árna og Dísu sárt.

Bið ég góðan Guð að styrkja börn Árna og Dísu og fjölskyldur þeirra og votta þeim mínar innilegustu samúð.

Sólbjört (Sóla systir) og fjölskylda.

Elsku afi minn, mikið er sárt að kveðja þig, mér finnst þetta vera allt svo óraunverulegt, fyrir 13 mánuðum komuð þið amma til okkar í grillveislu hér í Grindavík. En tveimur mánuðum síðar kveður hún okkur og mikið var það sárt. Nú um 10 mánuðum seinna kveður þú okkur.

Elsku afi, ég vil þakka þér fyrir allt það sem þið amma gerðuð fyrir okkur. Ég vil þakka ykkur fyrir að leyfa mér að búa hjá ykkur í þessa mánuði meðan ég var í skólanum og var ekki flutt til Grindavíkur, alla hundapössunina fyrir snúllu okkar allra, og fyrir að hafa verið tilbúin í sumar að þurrka rennblaut fótboltafötin fyrir langafastrákinn þinn.

Ég á eftir að sakna allra kaffibollanna okkar saman þar sem við sátum við eldhúsborðið og ræddum um allt sem var að gerast hverju sinni.

Ég hlakkaði svo til að fara út með þér og var það hræðilegt að vita svo að þú kæmir daginn eftir að ég færi heim. Ég er svo þakklát fyrir að hafa hringt í þig deginum áður en þú fórst og spjallað við þig, ég var nefnilega næstum búin að sækja hundinn og ætlaði bara að hafa hann hér þangað til þú næðir betri heilsu, þrátt fyrir að vera með tvo hunda og kött en ég vissi líka vel hversu einmana þú varst eftir að amma fór og sorgmæddur.

Mér fannst þessi hugmynd frábær, við yrðum með hann saman og ég gæti tekið hann þegar þú þyrftir og passað. Þú varst ekki tilbúinn akkúrat þarna eins og mig grunaði en þú slóst ekki hendinni á móti og sagðir við mig að ég yrði bara að taka hann þrátt fyrir hunda og kött, þeir myndu venjast þessu og hann myndi skoða þetta seinna þegar heilsan væri orðin betri.

Það verður skrítið að geta ekki kíkt til þín eða boðið þér í Ikea í mat fyrir jólin, elsku afi minn. Við komum til með að minnast þín með hlýju og þakklæti fyrir allar þær minningar sem við eigum og geymum við þær í hjarta okkar þar til við hittumst á ný. Guð geymi þig, elsku afi okkar, við kveðjum þig með söknuði en vitum að nú ertu kominn til ömmu og þið farin í ykkar ferðalag saman á ný

Magðalena (Lena), Guðni, Elma Rún, Freyþór Már og Freyja.