Teitur Gissurarson
teitur@mbl.is
Héraðsskólunum gömlu og andanum sem margir upplifðu við skólagönguna þar, eru gerð góð skil í Nikka kúr , nýjustu skáldsögu Guðmundar Óla Sigurgeirssonar sem starfaði áður sem kennari. Nikki kúr fjallar um sveitadreng á sjöunda áratug síðustu aldar sem fer í héraðsskóla, hvar bíða hans ævintýri og erfiðleikar. Rokkið og stelpurnar raska hugarró saklausrar sálar, eins og segir aftan á kápu bókarinnar.
Má segja að Guðmundur haldi að einhverju leyti í þemað sem hann byrjaði með 2016 þegar hann gaf út fyrstu bókina, Við ána sem ekki var , sem hafði að geyma æskuminningar frá sjötta áratug 20. aldar af bökkum Þverár á Rangárvöllum.
Héraðsskólarnir nauðsynlegir
„Ég upplifði þessa tíma sjálfur, en þetta er klárlega skáldsaga samt. Það sem vakti fyrir mér var að kannski myndi þetta höfða til alls þess fólks sem í gegnum tíðina stundaði nám við þessa héraðsskóla. Það er að segja fólk, af fátæku fólki komið, hverra eini möguleiki á að fara í frekara nám en barnaskóla var að sækja héraðsskóla,“ segir Guðmundur Óli um nýju bókina, sem segir sögu hans, það er aðalpersónunnar sem er einungis einkennd með persónufornafninu hann , og spannar árin sem hann gengur í héraðsskólann.„Sem slíkir voru héraðsskólarnir nauðsynlegir. Og hann kemur fram fyrst í sögunni, þessi draumur hans um að komast úr sveitinni og fá að læra, en síðan kemur í ljós að sá vegur var þyrnum stráður á köflum. Það verður enginn óbarinn biskup. Það er kannski meginþemað í bókinni.“
Engin rannsóknarvinna
Eins og gefur að skilja þurfti Guðmundur ekki að leggjast í miklar rannsóknir til að sækja innblástur fyrir söguna, kominn hátt á sjötugsaldurinn og man vel eftir tímanum sem um ræðir. „Ég stundaði enga rannsóknarvinnu. Ég er sjálfur nemandi úr héraðsskóla. Þeir sem leggja saman tvo og tvo geta ímyndað sér í hvaða héraðsskóla ég var,“ segir hann hlæjandi og bætir við að hann telji og voni að þeir sem gengu í sama skóla og hann átti sig strax þegar þeir lesa Nikka kúr.Spurður um vinnslu bókarinnar segir Guðmundur: „Ég vil gjarnan þakka það einum manni að bókin varð til. Það er góðvinur minn og kennari Finnur Torfi Hjörleifsson. Hann hefur alla tíð hvatt mig mjög til að skrifa. Hann kenndi mér nú þegar ég var í mínum héraðsskóla.“
Segir hann aðspurður að hann hafi skrifað bókina hratt, enda kominn á eftirlaun og „gat því hagað tímanum eins og mér sýnist“. „Hún var auðvitað búin að vera að gerjast í kollinum á mér. Ég hugsa að hún hafi komist á harðan kubb á tveimur mánuðum. Eitthvað svoleiðis. En svo hendir maður svona hlutum í salt og lætur þá gerjast svolítið. Tekur svo til, bætir í og sker niður. Eins og gengur. Meðgangan hefur því verið, frá því að ég byrjaði að skrifa, svona í kringum ár.“
„Erfitt fyrir ungan dreng“
Hugmyndir Guðmundar um gagnfræðaskólaárin sækja þó innblástur í fleira en hans eigin skólagöngu enda var hann sjálfur kennari alla sína starfsævi.„Ég hef oft hugsað um það hvað er í forgangi hjá nemendum. Er það námið, er það félagsskapurinn, eða er það eitthvað allt annað?“
Eins og áður segir var skólaganga sögupersónunnar, hans, ekki átakalaus og segir Guðmundur: „Eitt sem hann upplifði, og ég líka, var að fá ekki að fara heim. Fyrsta skólaárið fékk hann að fara þrisvar sinnum heim. Þetta var erfitt fyrir ungan dreng.“
Spurður hvort hann ætli að halda áfram með þemað, skrifa aðra bók og taka jafnvel áttunda áratuginn fyrir í henni, segist Guðmundur ekki vita hvort bækurnar verði nokkuð fleiri. „Ég er nú að verða sjötugur á næstu dögum. Það færi þá bara að verða eitthvert öldungarugl,“ segir hann léttur í lundu.