[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjónin Sigríður María og Júlíus Sólnes eiga 60 ára brúðkaupsafmæli, eða demantsbrúðkaup, í dag.

Hjónin Sigríður María og Júlíus Sólnes eiga 60 ára brúðkaupsafmæli, eða demantsbrúðkaup, í dag. Þau gengu í hjónaband í Reykjavík haustið 1959 og hafa átt búsetu víða um heim, um margra ára bil í Danmörku og líka í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku, meðal annars í Mexíkó og Síle.

Sigríður María og Júlíus bjuggu lengi í Kaupmannahöfn, þar sem þau stunduðu bæði nám. Sigríður María í heimilisfræðum við Suhrs Madakademi og Júlíus í byggingarverkfræði við Tækniháskóla Danmerkur (DTU). Júlíus lauk doktorsprófi frá DTU árið 1966, en þar áður hafði hann lagt stund á nám í jarðskjálftaverkfræði í Tókýó. Júlíus varð prófessor í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands árið 1972, þar sem hann starfaði nær óslitið uns hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 2007.

Síðustu árin hefur Júlíus kynnt sér loftslagsmál og rannsóknir á veðurfarsbreytingum vegna hnattrænnar hlýnunar. Hefur hann skrifað bók um gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar, sem kom út á ensku hjá Amazon.com 2017.

Júlíus var bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Seltjarnarnesi frá 1978 til 1986. Hann tók sæti á Alþingi fyrir Borgaraflokkinn árið 1987 og varð fyrsti umhverfisráðherra Íslands árið 1990.

Börn þeirra Sigríðar Maríu og Júlíusar eru: Lára fædd 1959; hún rekur eigið bókhaldsþjónustufyrirtæki í Reykjavík; Jón Óskar fæddur 1962, rithöfundur og fyrrv. fréttamaður hjá RÚV, búsettur í Washington D.C., en kona hans Bergdís Ellertsdóttir er sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, og Inga Björk tvíburasystir Jóns Óskars, sem rekur eigið þjónustufyrirtæki í Reykjavík fyrir kvikmyndaiðnaðinn.

Barnabörnin eru sex talsins, fjórar uppkomnar stúlkur og tveir unglingsdrengir.

Demantsbrúðkaupshjónin munu fagna þessum áfanga með nánum vinum og ættingjum á brúðkaupsdaginn.