Magnús Berg Magnússon tók við forstjórastöðunni hjá skandinavíska hönnunarhúsgagnafyrirtækinu NORR11 árið 2017. Fyrirtækið selur vörur sínar í 40 löndum en stefnir á Bandaríkjamarkað. „Stefnan er á næstu árum að ráða sölufólk inn á Bandaríkjamarkað og vonandi koma upp vöruhúsi og vera með söluskrifstofur þar. Það er náttúrlega gríðarlega kostnaðarsamt að gera þetta rétt, að ráða rétta fólkið frá byrjun og setja þetta rétt upp,“ segir Magnús í ítarlegu viðtali á miðopnu ViðskiptaMoggans í dag. Fyrirtækið leitar nú að fjárfestum til að leiða þá uppbyggingu en verði af því má í raun segja að hringnum hjá Magnúsi og Júlíönu Sól Sigurbjörnsdóttur, konu hans, sem opnaði verslun NORR11 hér á landi ásamt Magnúsi, verði lokað. Upphaflega gerðu þau hjónin, er þau bjuggu í New York, viðskiptaáætlun með það í huga að opna verslun NORR11 vestanhafs. Stofnendur fyrirtækisins töldu þá að í ljósi ungs aldurs NORR11 væri það ekki reiðubúið fyrir svo stórt skref og sköluðu þá niður viðskiptaáætlunina fyrir Íslandsmarkað. ViðskiptaMogginn