Safngripurinn Það verður ekki annað sagt en að eigandi þessa málverks eftir götulistamanninn Banksy hafi valið rétta tímann til að selja, nú þegar allt er á suðupunkti hjá breska þinginu og Brexit við það að bresta á.

Safngripurinn

Það verður ekki annað sagt en að eigandi þessa málverks eftir götulistamanninn Banksy hafi valið rétta tímann til að selja, nú þegar allt er á suðupunkti hjá breska þinginu og Brexit við það að bresta á. Verkið heitir Devolved Parliament , kom fyrst fyrir sjónir almennings árið 2009, og er stærsta málverkið á striga sem Banksy á heiðurinn að; meira en 420 cm á breidd og 250 á hæð án ramma. Núverandi eigandi keypti verkið beint af listamanninum árið 2011, og sýnir það breska þingið í miklum smáatriðum – nema hvað búið er að skipta þingmönnunum út fyrir apa.

Kannski ekki frumlegasti brandarinn sem frá Banksy hefur komið, en klassík engu að síður og verkið eigulegt.

Athygli hefur vakið að verkið virðist hafa breyst lítillega frá því það var sýnt síðast, og gæti það verið enn eitt uppátækið hjá Banksy blessuðum, en fyrirtæki hans hefur staðfest að um upprunalega málverkið sé að ræða.

Aparnir á þinginu fara á uppboð hjá Sotheby‘s 3. október og er búist við að gripurinn seljist fyrir allt að tvær milljónir punda. ai@mbl.is