Loksins eftir hin mögru eftirhrunsár glittir í samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.

Loksins eftir hin mögru eftirhrunsár glittir í samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Þó að undanfarin ár hafi einkennst af litlu fjármagni til samgangna um allt land þá verður að segjast að stórhöfuðborgarsvæðið hefur verið undanskilið lengur heldur en bara hrunárin telja. Ókláruð tvöföldun Reykjanesbrautar er augljósasta dæmið um það. Nú liggur fyrir allt nema undirritun á samkomulagi ríkisins við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu á bráðnauðsynlegum samgönguframkvæmdum.

Áætlunin lítur mjög vel út í nær alla staði og er það mjög ánægjulegt að menn séu loksins að nálgast skóflustungu í þessum málum. Áætlunin er um svo margar mikilvægar framkvæmdir að það ættu ekki að sjást nein andmæli um þann hluta áætlunarinnar. Hún er byggð á gríðarlega mörgum góðum greiningum um umferðarþróun til næstu áratuga, hvað varðar umferðarálag, slysatíðni og umhverfismál.

Engin áætlun er hins vegar það góð að hún sé samþykkt án athugasemda. Í þessu tilfelli snúast athugasemdirnar um fjármögnun framkvæmdanna, nánar til tekið veggjöldin. Þrátt fyrir harða gagnrýni á veggjaldaáform ríkisstjórnarinnar sl vor eru veggjöld enn sú leið sem ríkisstjórnarflokkarnir ætla að nota til að fjármagna þessa mikilvægu uppbyggingu.

Frá mínum bæjardyrum séð virðist það vera krafa Sjálfstæðisflokksins að veggjöld séu skilyrði fyrir því að framkvæmdir hefjist. Ég sé ekki að Framsókn og VG séu á sama máli en gott og vel, þau kvitta samt undir að veggjöld séu fjáröflunarleið ríkisins í þessu. Ég sé hins vegar aðrar leiðir, eins og FÍB bendir á þá gæti sparnaðurinn af færri slysum auðveldlega borgað upp framkvæmdirnar en kostnaðurinn af slysum er metinn í kringum 50 milljarða á ári.

Stundum er sagt að við verðum að fara í veggjöld, út af orkuskiptum. Veggjöldum er t.d. ætlað að koma í stað bensíngjalda, sem er líka verri kostur en aðrar leiðir sem í boði eru. Augljósara væri að leggja niður bensíngjaldið og taka upp kílómetragjald með þyngdarstuðli. Það myndi hvetja til að kaupa léttari bíla sem myndi minnka álagið á vegina og draga úr viðhaldskostnaði, sem myndi svo lækka gjaldið sjálft. Kostnaðurinn vegna útblásturs er svo innheimtur í gegnum kolefnisgjaldið. Þannig væri jarðefnaeldsneytisbíll að borga kílómetragjald og kolefnisgjald en rafmagnsbíll bara kílómetragjald. Léttari bíll væri að borga lægra kílómetragjald og þyngri bíll meira. Nákvæmt gjald fyrir notkun.

Áhersla ríkisstjórnarinnar á veggjöld er því undarleg, það er hægt að fjármagna þetta á ýmsan annan hátt ef lægri slysatíðni dugar ekki til, en með þessa flokka við völd eru veggjöld óumflýjanleg. Flýjum þá í næstu kosningum, kjósum Pírata. bjornlevi@althingi.is

Höfundur er þingmaður Pírata.

Höf.: Björn Leví Gunnarsson