Í þriggja daga opinberri heimsókn til Grænlands sem nú stendur yfir átti Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í gær fundi með Kim Kilsen forsætisráherra um málefni landanna og viðræður við nemendur háskólans í Nuuk. Málefni norðurslóða, barnaverndarmál og stöðuna í málefnum fatlaðs fólks á Íslandi bar þar á góma.
„Grænlendingar bera hlýhug til Íslendinga og líta til okkar þegar þeir vinna að því að þróa sitt samfélag í rétta átt,“ segir Guðni í samtali við Morgunblaðið. „Báðum þjóðum er hagur í auknu samstarfi. Grænlendingar horfa nú til þess að efla ferðaþjónustu og má þar nefna að flugvallargerð er nú í undirbúningi í Nuuk, Ilulissat Qaqortoq. Aukin samvinna við Íslendinga þar liggur í augum uppi. Jafnframt horfa Grænlendingar til þess að efla siglingar milli Íslands og Grænlands.“
Í gærkvöldi áttu forseti Íslands og Eliza Reid eiginkona hans fund með landstjóra Dana, Mikaelu Engell, og sátu hátíðarkvöldverð í boði forsætisráðherra. Í dag heimsækja þau miðstöð loftslagsrannsókna og eiga fund með borgarstjóra Nuuk. sbs@mbl.is