Bókin Spennan magnast í vali Financial Times á bestu viðskiptabók ársins, og við hæfi að kíkja á fleiri titla sem komust á stuttlistann, eins og var gert í síðustu viku. Þannig á Raghuram Rajan, fyrrverandi seðlabankastjóri Indlands, bók í toppslagnum.

Bókin Spennan magnast í vali Financial Times á bestu viðskiptabók ársins, og við hæfi að kíkja á fleiri titla sem komust á stuttlistann, eins og var gert í síðustu viku. Þannig á Raghuram Rajan, fyrrverandi seðlabankastjóri Indlands, bók í toppslagnum. Blaðið hefur áður fjallað um eina af bókum hans, en það var árið 2017 þegar Rajan tók saman ræður sínar og greinar, og gaf innsýn inn í það sem gerðist á bak við tjöldin í peningamálum Indlands á miklum breytingatímum. Þá hlaut önnur bók hans, Fault Lines , verðlaun FT og Goldman Sachs árið 2010.

En verkið sem FT hefur augastað á að þessu sinni er af allt öðrum toga, og ekki laust við að Rajan geri þar atlögu að því að skrifa tímamótagreiningu á togstreitunni milli kapítalisma og lýðræðis. Bókin heitir The Third Pillar: How Markets and the State Leave the Community Behind .

Titillinn á að vísa til samfélagsins sjálfs, sem Rajan lítur á sem þriðju undirstöðu þjóðfélaga af öllum stærðum og gerðum – ásamt markaðnum og ríkinu. Vill hann meina að á vissan hátt falli þessi meginstoð utan sjónsviðs flestra hagfræði- og stjórnmálakenninga, og allt of oft vill það gerast að markaður og ríki fái að ráða ferðinni á meðan þrengt er að samfélaginu. Er samfélagið þó, þegar allt kemur til alls, límið sem heldur þjóðfélaginu saman, og feitin sem fær hjól atvinnulífsins til að snúast með sem minnstu viðnámi. Hluti af lausninni á þeim vanda sem núna er komin upp, á tímum hnattvæðingar, ójöfnuðar, sjálfvirknivæðingar og lýðskrumsstjórnmála, er að mati Rajans að efla samfélagið með ýmsum leiðum. ai@mbl.is