Fjárfest Nýr Vísbátur, Páll Jónsson, í smíðum í Alkor. Skipið er væntanlegt til landsins á haustdögum.
Fjárfest Nýr Vísbátur, Páll Jónsson, í smíðum í Alkor. Skipið er væntanlegt til landsins á haustdögum. — Ljósmynd/Aðsend
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Farsælt samstarf Atlas í Hafnarfirði og Alkor í Gdansk í Póllandi. Skipasmíðastöð í fremstu röð. Gott samstarf og vandamálin eru leyst. Margvísleg þjónusta og búnaður er keyptur frá Íslandi.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Smíði við Pál Jónsson GK, nýtt línuskip Vísis hf. í Grindavík, lýkur í næsta mánuði í skipasmíðastöðinni Alkor í Gdansk í Póllandi. Þá er eftir að koma beitingarvélum og vinnslulínu um borð í skipið sem er væntanlegt til Íslands fyrir áramót svo það verði tilbúið á vetrarvertíðina á næsta ári. Hér heima hafa starfsmenn frá Atlas hf. í Hafnarfirði verið í lykilhlutverki við smíðina, en fyrirtækið hefur umboð á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum fyrir skipasmíðastöðina ytra.

Á undanförnum árum hafa raunar allmörg íslensk skip farið í endursmíði hjá Alkor og reynslan er góð, segir Grímur Gíslason, framkvæmdastjóri Atlas, í samtali við Morgunblaðið.

Leitaðir uppi

Samstarf Alkor og Atlas hófst árið 2004. „Við vorum leitaðir uppi. Alkor-menn höfðu áhuga á að stofna til viðskipa við Íslendinga og fengu okkur til samstarfs sem hefur verið sérstaklega ánægjulegt,“ segir Grímur.

Fyrsta íslenskra skipið sem fór utan í krafti þessa samstarfs var Ljósfell SU frá Fáskrúðsfirði, sem tekið var í rækilega klössun. Síðan hafa farið togararnir Helga María AK , Málmey SK , loðnuskipið Huginn VE , varðskipið Þór og svo mætti áfram telja fjölda íslenskra skipa. Páll Jónsson GK er hins vegar fyrsta nýsmíðin sem Alkor hefur með höndum ef frá er talinn annar Vísisbátur úr Grindavík, Sighvatur GK . Á árunum 2017-2018 var hann endursmíðaður frá strípuðum skrokki, sem raunar var lengdur nokkuð. Útkoman varð stórt og gott sjóskip sem hefur verið í útgerð síðasta árið og fiskað frábærlega vel.

Stanslaus verkefni

Síðustu þrjú til fjögur árin hafa í Alkor verið stanslaus verkefni í gegnum okkur, án þess að komið hafi nein hlé að ráði. Núna er þar í viðgerð Norma Mary , sem er í eigu DFFU dótturfyrirtækis Samherja. Þetta er gamli Baldvin Þorsteinsson EA, sem skemmdist fyrr á þessu ári í eldsvoða en væntanlega verður skipið klárt aftur nú í nóvember.

„Við erum ekki með nein verkefni í hendi nú þegar viðgerðinni á Norma Mary lýkur. Hinu verður þó að halda haga að yfirleitt koma verkefnin inn fyrirvaralítið og hlutina þarf að gera strax í gær,“ segir Grímur og hlær.

„Þegar útgerðarmenn eru með hugmyndir að verkefnum koma Pólverjarnir yfir hingað til lands og þá er farið yfir málin,“ segir Grímur. „Oft eru til skissur á blaði sem eru útfærðar nánar. Allt svona byggist á samvinnu og því að menn tali saman. Í starfsemi skipasmíðastöðvarinnar pólsku finnst mér líka mikill plús að yfirbyggingin er sáralítil, verkkaupi hittir sömu menn við undirritun kaupsamninga, á gólfinu þegar framkvæmdir standa yfir og við lokauppgjör. “

Áætlaður kostnaður við smíði hins nýja Páls Jónssonar er um 7 milljónir evra, eða um 960 milljónir íslenskra króna. Á allan mælikvarða telst það hagstætt verð og langt undir því sem til dæmis nýsmíði á Íslandi hefði kostað. Því verður þó að halda til haga að búnaður í skipið nýja er að stærstum hluta keyptur í gegnum íslensk umboðsfyrirtæki, svo sem ýmis rafbúnaður, siglingatæki, krapavél, björgunarbúnaður og svo mætti áfram telja.

Einnig eru allar teikningar og tæknivinna við skipið unnar af verkfræðistofunni Navis hf. í Reykjavík. Verkefni þetta skilar því, eins og Grímur bendir á, talsverðum virðisauka inn í íslenska hagkerfið þegar öllu er á botninn hvolft.

Eftirlitsmaður í Gdansk

„Mitt hlutverk í svona verkefnum er að vera stuðpúði milli skipasmíðastöðvarinnar og verkkaupa. Stundum koma upp ágreiningsmál sem þarf að leysa, svo sem vegna aukaverkefna eða þegar víkja þarf út frá fyrirliggjandi teikningum. Yfirleitt eru þetta samt mál sem er auðvelt að leysa. Núna í smíðinni fyrir Vísi er Willum Andersen, vélstjóri úr Eyjum, eftirlitsmaður Vísis með smíðinni. Sjálfur er ég í sambandi við hann oft á dag og fer utan til skrafs og ráðagerða nokkuð reglulega,“ segir Grímur. Atlas sinnir margvíslegri þjónustu við sjávarútveginn og fleiri; selur vélar, dælur og fleira slíkt Frá 2003 hefur Grímur verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins en var áður til sjós í áraraðir, meðal annars vélstjóri á Herjólfi. Einnig um nokkurra ára skeið kennari, blaðamaður og fréttaritari Morgunblaðsins í heimabæ sínum; Vestmannaeyjum.