Davíð Hjálmar í Davíðshaga skrifaði í Leirinn á sunnudag: Langflestar beygjurnar tók ég á tveim, á troginu ferðina jók ég og yfir þrjá ketti með bröndur og breim á bíllausa deginum ók ég.

Davíð Hjálmar í Davíðshaga skrifaði í Leirinn á sunnudag:

Langflestar beygjurnar tók ég á tveim,

á troginu ferðina jók ég

og yfir þrjá ketti með bröndur og breim

á bíllausa deginum ók ég.

Á laugardaginn skrifaði Pétur Stefánsson á leir – „Gangan“:

Haustsins litir hugann fanga,

hér er allt með sama brag.

Mín er ævin gleðiganga

gegnum lífsins bjarta dag.

Út í daginn held ég hljóður,

úr holdsins þjálfun lítt ég dreg.

Þó að fölni gras og gróður

geng ég kátur lífsins veg.

Sólargeislar bjartir baða

og bjarma ljá mér enn um skeið,

þó ævi mín með ógnarhraða

áfram haldi sína leið.

Fía á Sandi brást fljótt við:

Í austri stendur fjallið í indígóbláum lit

efst á því er harðangurinn hvíti.

Í hlíðinni er lyngið líkt og saumað glit

á litinn eins og glóðirnar í Víti.

Pétur Stefánsson heldur vana sínum og er drjúgur við morgunverkin:

Korter í sjö var ég kominn á stjá,

keikur frá draumanna gleðskap.

Sjóðheitu kaffi ég sötraði á,

settist svo niður við kveðskap.

Ingólfur Ómar lítur til veðurs:

Vindar gjalla viknar jörð

varmi allur þrýtur,

blikna hjallar hlíð og skörð

hærast fjallastrýtur.

Hallmundur Guðmundsson segir á Boðnarmiði; „Í dag fór ég fótgangandi til fjalla og þangað teymdi mig, fótafúið gamalmennið, Gísli nokkur Einarsson, landabruggari og fararstjóri hjá Bændaferðir.is. Hann bað Guðs blessunar að fjallaferð lokinni“:

Í hægðum sínum Gísli gekk

og gætti lítt að meinum.

Hann á þessu flandri fékk

fullt af smáum skeinum.

Hagyrðingar hafa haft gaman af því að snúa afa mínum á honum Rauð á ýmsa vegu. Indriði á Skjaldfönn er í þeim hópi, – en þykir meira til „afrekskonunnar“ koma en gamals bónda:

Amma mín fór á honum Rauð

er afi kvaddi sviðið,

að ýta þessum ógnarsauð

inn fyrir Gullna hliðið.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is