Það skiptir miklu um úrslit máls, þegar það hendir menn að skjóta sig í löppina, hvaða verkfæri þeir hafa í höndunum. Loftbyssa gerir minni skaða en haglabyssa en öllu verra getur það orðið ef menn hafa mundað eldvörpu eða eitthvað þaðan af stærra.
Því hafa Íranar mögulega kynnst af eigin raun í liðinni viku en stjórnvöld þar í landi eru talin hafa lagt til atlögu við olíuhreinsistöðvar í Abqaiq og Khurais í Sádi-Arabíu. Sprengjum rigndi yfir verksmiðjurnar og notuðust illvirkjarnir við mannlausa árásardróna sem erfitt getur reynst að verjast.
Afleiðingar árásarinnar komu fram um allan heim og olíuverð hækkaði skarpt, enda Sádarnir fremri flestum öðrum í að útvega tunnur fullar af olíu inn á hinn sísvanga heimsmarkað. Fréttaskýrendur telja árásina mesta inngrip í olíuframleiðslu heimsins frá því að Persaflóastríðið stóð sem hæst í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar.
En afleiðingarnar kunna að verða aðrar og af nokkuð öðrum toga en Íranar sáu fyrir. Á það bendir Abrose Evans-Pritchard í snjallri fréttaskýringu í Telegraph þar sem óróleiki á orkumörkuðum ásamt hækkandi heimsmarkaðsverði á olíu er sagður munu kynda verulega undir rafbílavæðingu heimsins. Hann bendir raunar á að það sé ekki aðeins sennileg afleiðing heldur næstum því óhjákvæmileg sökum þess að verð á slíkum búnaði hefur þokast hratt niður á við á sama tíma og drægi hans hefur aukist til muna. Nær allir bílaframleiðendur heimsins eru í kapphlaupi við að kynna sem öflugasta rafbíla fyrir markaðnum.
Ef spádómur Evans-Pritchards reynist réttur fyrir heimsbyggðina þá á hann óvíða eins vel við og hér á landi þar sem orkuframleiðslan er eins hrein og hugsast getur og orkuverðið lágt í öllum samanburði. Að minnsta kosti ennþá.