Meistarar Gróttumenn, sem léku í 2. deild í fyrra, tryggðu sér meistaratitil 1. deildarinnar í lokaumferðinni á laugardaginn við mikinn fögnuð á Nesinu.
Meistarar Gróttumenn, sem léku í 2. deild í fyrra, tryggðu sér meistaratitil 1. deildarinnar í lokaumferðinni á laugardaginn við mikinn fögnuð á Nesinu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grótta Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Grótta kom öllum á óvart í sumar og stóð uppi sem sigurvegari í Inkasso-deild karla í fótbolta, 1. deild, og tryggði sér í leiðinni sæti í efstu deild í fyrsta skipti. Liðið endaði í öðru sæti í 2. deildinni á síðasta ári og bjuggust flestir við erfiðu sumri hjá nýliðunum.

Grótta

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Grótta kom öllum á óvart í sumar og stóð uppi sem sigurvegari í Inkasso-deild karla í fótbolta, 1. deild, og tryggði sér í leiðinni sæti í efstu deild í fyrsta skipti. Liðið endaði í öðru sæti í 2. deildinni á síðasta ári og bjuggust flestir við erfiðu sumri hjá nýliðunum.

Þess í stað gekk allt saman upp og Grótta endaði með 43 stig, einu stigi meira en Fjölnir, og tapaði aðeins þremur leikjum allt tímabilið. Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við Gróttu í október 2017 er liðið var nýfallið úr 1. deild. Á aðeins tveimur árum hefur Óskar komið Gróttu upp í efstu deild. Gróttumenn skoruðu 45 mörk í sumar og skoraði framherjinn Pétur Theodór Árnason 15 þeirra og var markahæstur í deildinni ásamt Framaranum Helga Guðjónssyni. „Maður er enn að átta sig á því að við höfum náð þessu og þetta er búið að vera geggjað,“ sagði Pétur í samtali við Morgunblaðið.

Markmiðið ekki að fara upp

Framherjinn viðurkennir að markmiðin innan félagsins fyrir mót hafi ekki endilega snúist um að fara upp um deild. „Við vissum eiginlega ekki alveg hvað við værum að fara út í. Við ætluðum ekki bara að taka þátt og gefa öllum fimmu, við ætluðum að reyna að safna eins mörgum stigum og við gátum.

Eftir því sem leið á mótið sáum við að við áttum fullt erindi í þessa deild. Með góðri liðsheild og góðum þjálfurum er hægt að ná langt. Við töluðum saman í æfingaferðinni í vor og töluðum um einhver markmið, en að fara upp um deild var ekki eitt af þeim. Við ætluðum að gera betur en Grótta hefur gert áður í deildinni og við gerðum það áður en fyrri umferðin var búin. Við skoðuðum þetta aftur um mitt sumar og breyttum markmiðunum okkar.“

Flugum of hátt

Grótta var í öðru sæti með 34 stig, einu stigi meira en Þór, að 18 umferðum loknum. Þá átti liðið eftir að leika við Aftureldingu, Hauka, Magna og Njarðvík, en þau voru öll í fjórum neðstu sætunum. Grótta vann þrjá af síðustu fjórum leikjunum og hafði 0:5-skellur gegn Aftureldingu ekki teljandi áhrif. „Við gerðum okkur grein fyrir því að við áttum fjögur neðstu liðin í fjórum síðustu leikjunum. Það eru auðvitað erfiðir leikir en við vorum komnir í mjög góða stöðu eftir leikinn við Magna. Þá vorum við fjórum stigum á undan þriðja sætinu. Við flugum kannski aðeins of hátt eftir það enda fengum við skell á móti Aftureldingu í næsta leik. Við gerðum vel í að koma til baka eftir það og klára þetta.“

Grótta var með fjórða besta árangur allra á heimavelli og tapaði tveimur af þremur leikjum sínum á Seltjarnarnesi. Engu liði gekk hins vegar eins vel á útivelli, þar sem Grótta vann sjö af ellefu leikjum. „Ég man ekki hvenær við töpuðum á grasi síðast. Það gengur vel í þessum útileikjum hjá okkur og að ferðast. Það er gaman að mynda stemningu í rútunni á leiðinni og það gekk rosalega vel.“

Sleit krossband tvisvar

Pétur hefur verið lengi í Gróttu og einnig leikið með Kríu, eins konar varaliði Gróttu í 4. deild. „Ég hef verið hjá félaginu síðan 2011 en ég lenti í tveimur krossbandsmeiðslum 2013 og 2014. Það var erfitt að stíga upp úr því. Svo 2017 spilaði ég nánast ekki neitt og dró mig aðeins til hliðar. Ég tók seinni hluta tímabilsins hjá Kríu og byrjaði þar aftur 2018 en svo fannst mér ég vera kominn það vel af stað að ég gat tekið þátt í þessu með Gróttu og mér leist vel á verkefni liðsins. Ég spurði Óskar Hrafn hvort ég mætti mæta á æfingar og hann tók vel á móti mér,“ sagði Pétur, sem var aðeins með eitt mark í 27 leikjum í 1. deild fyrir sumarið. Hann skoraði 15 mörk í 22 leikjum á tímabilinu.

„Ég fór aðeins í krossfit og það hjálpaði mér líkamlega. Ég er búinn að styrkjast mjög mikið. Þjálfunin hjá Óskari er líka mjög góð, ég hef aldrei fengið svona góða framherjaþjálfun áður. Boltinn sem við spilum hentar mér síðan mjög vel. Óskar og Dóri [Halldór Árnason, aðstoðarþjálfari Gróttu] eru búnir að vera frábærir. Þeir eiga allt hrós skilið. Æfingarnar hjá þeim eru vel skipulagðar og þeir ná vel til okkar. Það vita allir sín hlutverk í liðinu. Við erum á svipuðum aldri og því ungir og graðir í að ná markmiðunum.“

Pétur er spenntur fyrir því að spreyta sig í efstu deild. „Ég ætla að taka slaginn þar. Það er draumur að fara með Gróttu upp í efstu deild, en ég sá það kannski ekki alveg gerast þegar ég fór að æfa í þessu litla bæjarfélagi. Ég fer ekki að fara frá Gróttu núna. Félagið ætlar að bæta í á öllum stöðum, bæði innan hópsins og utan hans. Félagið mun bregðast við stærri áskorunum. Við munum gera okkar besta og við erum komnir þangað því við unnum deildina og við eigum þetta sæti skuldlaust,“ sagði Pétur, sem er nokkuð brattur að hann geti skorað mörk í úrvalsdeildinni.

„Vonandi tek ég þetta sumar með mér núna inn í næsta mót og held áfram að spila vel,“ sagði Pétur Theodór.