Ástbjartur Sæmundsson fæddist 7. febrúar 1926. Hann lést 9. ágúst 2019.

Útför Ástbjarts fór fram í kyrrþey.

Handan við fjöllin heimabyggð mín er

hrjóstrugu fjörugrjóti

bundin

úr múgsins hrunadansi hugann þangað ber

því hjörtu sorgmædd tregi sker.

Brimströndin heima hlustar eftir

mér

hrollköldum nætur skugga vafin,

í móðurgleði brosir birta þegar fer

og bíður meðan dagur er.

(Helgi Sæmundsson)

Nú þegar afi Ástbjartur er horfinn á braut er léttir að hann skuli hafa fengið friðinn sem hann þráði.

Samt er treginn til staðar. Ég trúi því þó að hann hafi nú haldið á nýjar slóðir, á vit nýrra ævintýra, með öllum sem hann saknaði. Orðið sem helst kemur upp í hugann þegar ég minnist afa míns er nefnilega ævintýri. Því afi sagði sögur af hjartans lyst, þannig að löngu horfnir atburðir urðu einhvern veginn nýir í huga manns.Til dæmis þegar hann hélt til sjós, ungur að árum, ásamt Guðmundi Vigfússyni, skipstjóra í Holti, og fleiri hraustmennum úr Eyjum. Einnig voru honum minnisstæðir hermenn sem hann kynntist kornungur í vegavinnu fyrir austan og voru honum góðir. Þegar afi sagði sögur skipti nú kannski ekki alltaf öllu þótt svolítið væri kryddað á köflum, því skáldaleyfi taka sér allir góðir sögumenn.

Afi var sannkallað náttúrubarn og leið einna best úti í fallegu veðri með Maggý sinni. Að nýta það sem fékkst var þeirra háttur og sóðaskap eða sóun var ekki að finna í þeirra orðabók. Afi og amma voru miklir dýravinir og fengu margir fuglar góða aðhlynningu í bílskúrnum við Álfhólsveginn. En stundum birtist kærleikurinn með öðru móti. Ég man þegar ég var lítill er afi gekk um móa og endaði þjáningar máva, sem einhverjir höfðu gert að leik sínum að skjóta og særa illa.

Eftir að amma lést snögglega var afi á hálfgerðum hrakhólum í kerfinu áður en hann eignaðist fallegt heimili á Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili á Akranesi. Það sem helst stendur upp úr frá þessum tíma er þó sú hlýja og velvild sem honum var alltaf sýnd og þakka ég fyrir það hér. Einnig vil ég þakka Vegagerðinni fyrir að muna alltaf eftir fyrrum aðalgjaldkera sínum, þótt hann væri löngu, löngu kominn á eftirlaun og fluttur á Skagann.

Á Höfða leið afa mjög vel og þar vildi hann helst alltaf vera. Honum fannst þó gaman að skreppa í bíltúr, en virtist alltaf feginn að komast aftur heim. Því þrátt fyrir að hafa verið svona fyndinn og skemmtilegur fannst honum líka stundum gott að vera einn. En á meðan afa entist heilsa þótti honum líka mjög gaman að ræða við fólk á staðnum um gömlu tímana. Langar mig að þakka starfsfólki og íbúum á Höfða af öllu hjarta fyrir einstaka góðmennsku og hlýju. Þar átti afi sannarlega griðastað.

Að lokum biðjum við feðgarnir og mamma og pabbi innilega að heilsa í Sumarlandið.

Góða ferð, elsku afi, og takk fyrir allt. Takk fyrir að vera svona góður afi og langafi. Fyrir stuðninginn, skilninginn, gjafirnar og vináttuna. Fyrir minningarnar. Fyrir ævintýrið. Svo þegar ég loksins kem því í verk að heimsækja Vestmannaeyjar, eins og við töluðum nú um, þá verðið þið amma með í för. Við sjáumst, einhvern tímann. Í hjarta mínu geymi ég þig.

Þinn dóttursonur,

Bjarki Þór.