Reynsla Ásdís Sigurðardóttir á langan feril að baki og tók þátt í að tryggja Akureyrarliðinu fimmta sæti deildarinnar á síðasta tímabili.
Reynsla Ásdís Sigurðardóttir á langan feril að baki og tók þátt í að tryggja Akureyrarliðinu fimmta sæti deildarinnar á síðasta tímabili. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KA/Þór Kristján Jónsson kris@mbl.is Ásdís Sigurðardóttir, einn reyndasti leikmaður KA/Þórs, er bjartsýn fyrir veturinn í Olísdeildinni í handknattaleik eftir fínan árangur í fyrra. „Við viljum alltaf gera betur.

KA/Þór

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ásdís Sigurðardóttir, einn reyndasti leikmaður KA/Þórs, er bjartsýn fyrir veturinn í Olísdeildinni í handknattaleik eftir fínan árangur í fyrra.

„Við viljum alltaf gera betur. Við misstum Sólveigu (Láru Kristjánsdóttur) en það kemur alltaf maður í manns stað. Við fengum króatískar stelpur til okkar, markvörð og skyttu, auk þess sem það urðu þjálfaraskipti. Við höfum allt til þess að gera betur en í fyrra þótt við höfum ekki farið nógu vel af stað í deildinni. En við mættum mjög sterkum liðum í fyrstu leikjunum. Mannskapurinn og viljinn er til staðar,“ sagði Ásdís, en Sólveig Lára var næstmarkahæst hjá KA/Þór á síðasta tímabili. Martina Corkovic getur leikið allar stöðurnar fyrir utan og ætti því að reynast liðinu vel.

„Hún er ekki dæmigerð hávaxin skytta en ætti að nýtast okkur mjög vel. Þessar erlendu falla mjög vel inn í hópinn hjá okkur og eru frábærar persónur.“

Markmiðin náðust að mestu

Lið KA/Þórs hefur sótt í sig veðrið undanfarin ár. Liðið fór í undanúrslit í bikarnum árið 2018 og var þá í b-deildinni. Sem nýliði í efstu deild síðasta vetur hafnaði liðið í 5. sæti.

„Í fyrra var markmiðið að halda liðinu uppi í efstu deild og komast í bikarhelgina. Okkur gekk mjög vel og þá bættum við markmiði sem var að komast í úrslitakeppnina. Á heildina litið var árangurinn mjög góður,“ sagði Ásdís, en hún og Martha Hermannsdóttir búa að mikilli reynslu sem er dýrmæt því margar í leikmannahópnum eru ungar að árum.

„Þegar erum í stuði spilar liðið hrikalega góða vörn og við fáum helling af hraðaupphlaupum, meðal annars vegna þess að við erum með fljóta hornamenn. Sá leikstíll er mjög skemmtilegur. Leikur okkar breytist svolítið við að missa Sólveigu en við erum alltaf að verða betur samstilltar. Liðið er ungt og við þekkjumst æ betur, ekki það að við Martha séum eitthvað voðalega ungar,“ sagði Ásdís og hló.

Hefur áður unnið með Gunnari

Ásdís varð bæði Íslands- og bikarmeistari með Stjörnunni um miðjan síðasta áratug. Hún lék auk þess í Noregi og var þá einmitt undir stjórn Gunnars Líndals Sigurðarsonar sem tók við liði KA/Þórs í sumar.

„Ég spilaði hjá honum í Stryn en liðið var þá í 2. deildinni. Gunnari gekk mjög vel í Noregi og var valinn þjálfari ársins 2015.“

Heimavöllurinn hefur oft reynst KA/Þór vel og Ásdís segir starfið í kringum liðið vera gott.

„Stemningin er fín. Umgjörðin í kringum liðið er mjög góð og flott fólk sem stendur á bak við okkur í stjórninni. Við fórum til dæmis í æfingaferð til Danmerkur á undirbúningstímabilinu og var vel staðið að öllu í kringum það. Fólk mætir vel á leikina og áhorfendur styðja vel við bakið á okkur,“ sagði Ásdís Sigurðardóttir, leikmaður KA/Þórs, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Lið KA/Þórs 2019-20

MARKVERÐIR:

Matea Lonac

Ólöf Maren Bjarnadóttir

Selma Sigurðard. Malmquist

HORNAMENN:

Ásdís Sigurðardóttir

Katrín Vilhjálmsdóttir

Rakel Sara Elvarsdóttir

Svala Svavarsdóttir

LÍNUMENN:

Anna Þyrí Halldórsdóttir

Ásdís Guðmundsdóttir

Helga María Viðarsdóttir

ÚTISPILARAR:

Aldís Ásta Heimisdóttir

Anna Marý Jónsdóttir

Anna Valgerður Erlingsdóttir

Hulda Bryndís Tryggvadóttir

Kolbrún Gígja Einarsdóttir

Kristín A. Jóhannsdóttir

Martha Hermannsdóttir

Martina Corkovic

Telma Lísa Elmarsdóttir

Þjálfari : Gunnar Líndal

Sigurðsson.

Aðstoðarþjálfari : Sigþór Árni Heimisson.

Árangur 2018-19 : 5. sæti.

Íslandsmeistari : Aldrei.

Bikarmeistari : Aldrei.

*KA/Þór tapaði 29:38 fyrir Fram á heimavelli í fyrstu umferð og 23:26 fyrir Stjörnunni á útivelli í 2. umferð. KA/Þór tekur næst á móti HK 4. október.

Breytingar á liði KA/Þórs

KOMNAR

Kolbrún Gígja Einarsdóttir ,

úr barneignarfríi

Martina Corkovic frá Cluj

(Rúmeníu)

Matea Lonac frá Stryn (Noregi)

FARNAR

Olgica Andrijasevic , óvíst

Ólöf Marín Hlynsdóttir í ÍR

Sólveig Lára Kristjánsdóttir í ÍR (barneignarfrí)

Una Kara Vídalín Jónsdóttir , hætt

Þóra Björk Stefánsdóttir , hætt