Tottenham féll gríðarlega óvænt úr leik gegn D-deildarliði Colchester í enska deildabikarnum í fótbolta í gærkvöldi. Tottenham var 75% með boltann í venjulegum leiktíma en tókst þrátt fyrir það ekki að skora. Eftir markalausan leik réðust úrslitin í vítakeppni. Þar hafði Colchester betur, 4:3. Colchester sló Crystal Palace úr leik í síðustu umferð, einnig í vítakeppni.
Arsenal vann sannfærandi 5:0-heimasigur á B-deildarliði Nottingham Forest á heimavelli. Hinn 18 ára gamli Gabriel Martinelli skoraði tvö mörk.
Manchester City vann þægilegan 3:0-sigur á Preston úr B-deildinni og Gylfi Þór Sigurðsson lék síðustu 14 mínúturnar í 2:0-útisigri Everton gegn Sheffield Wednesday úr B-deildinni. Átta leikir eru á dagskrá í keppninni í kvöld þegar þriðju umferð lýkur.