Guðni Einarsson Ragnhildur Þrastardóttir Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur fengið mál níu ára gamallar stúlku sem brotið var á á skólatíma fyrr í þessum mánuði inn á borð til sín og leggst nú yfir það hvernig sé best að bregðast við.

Guðni Einarsson

Ragnhildur Þrastardóttir

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur fengið mál níu ára gamallar stúlku sem brotið var á á skólatíma fyrr í þessum mánuði inn á borð til sín og leggst nú yfir það hvernig sé best að bregðast við. Engin ákvörðun hefur verið tekin um hert eftirlit í skólum borgarinnar.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, segir að Íslendingar hafi til þessa ekki verið hlynntir lokuðum grunnskólum. „Íslendingar vilja hafa skólana opna, meiri sveigjanleika og frelsi en tíðkast erlendis,“ segir Helgi.

Hann segir umræðu um það hvernig eigi að haga þessum málum í gangi en samtalið sé stærra en margir geri sér grein fyrir. „Þetta er samtal sem við þurfum sífellt að vera vakandi fyrir og stór samfélagsleg umræða sem varðar foreldra, börnin og aðra aðila,“ segir Helgi.

„Foreldrar sem hafa verið með börn í skólum erlendis kannast við það að þar eru skólar gjarnan læstir þar til skólinn er opnaður og öryggislæsingar á öllum hurðum svo enginn komist inn án þess að gera grein fyrir sér,“ segir Helgi. Hérlendis er staðan önnur. Að mati Helga er mikilvægast að starfsfólk sé á verði en umgengnisreglur um skólana gera ráð fyrir því að utanaðkomandi aðilar geri grein fyrir sér á skrifstofu skólans.

Vilja herða eftirlit við skóla

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu til á fundi skóla- og frístundaráðs í gær að eftirlit við grunn- og leikskóla í borginni verði endurskoðað sem og allir öryggisferlar. Starfsmenn og kennarar verði auðkenndir t.d. með nafnspjaldi til að tryggja betur öryggi nemenda. Eins er lagt til að kannaðir verði kostir þess að koma upp öryggismyndavélum við skólana og að þeim skólum sem þess óska standi slíkur búnaður til boða.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að brýnt sé að tryggja betur öryggi skólabarna, hvort heldur er í skólahúsnæði eða á skólalóðum og er vitnað til atviksins í Austurbæjarskóla í því sambandi. Þá er bent á að öryggismyndavélar séu við innganga og lóðir sumra skóla og hafi þegar sannað gildi sitt.