Það er af mörgu að taka þegar horft er til breskra stjórnmála þessa dagana

Það er margt mótdrægt Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þessar vikurnar og flest af því á rót í meginvanda hans, þótt á honum séu ýmsar hliðargreinar.

Meginvandi hans er sá að ríkisstjórnin hefur ekki meirihluta á breska þinginu. Theresa May, fyrirrennari hans í embættum leiðtoga og forsætisráðherra, glutraði niður tæpum meirihluta í kosningum sem hún „fékk náðarsamlegast að halda“ með leyfi Corbyns, leiðtoga Verkamannaflokksins, vorið 2017. May var þó vorkunn því þá benti flest til þess að Íhaldsflokkurinn myndi fjölga atkvæðum sínum á þingi um nokkra tugi og tryggja sér þar með það svigrúm sem forsætisráðherrar þar þurfa helst að hafa til að þola að einstakir þingmenn og jafnvel smáhópar þeirra geti hlaupið út undan sér í einstökum málim. En reynslan sýnir að við slíku megi búast oftar en ekki.

May bætti sex prósentustigum við fylgi Íhaldsflokksins. Ef kerfi hlutfallskosninga væri í Bretlandi hefði það væntanlega fjölgað þingmönnum hennar um a.m.k. tvo tugi. En í kerfi einmenningskjördæma þarf heppni að leggjast með atkvæðunum í kjörkassana og dreifing atkvæða á flokka getur skipt miklu máli. May bætti engum þingmanni við meirihluta sinn. Þvert á móti. Hún missti þann starfhæfa meirihluta sem hún hafði og varð að tryggja sér slíkan áfram með samningi við„systurflokk“ á Norður-Írlandi, þótt þann stuðning fengi hún ekki ókeypis. En samkvæmt reglum stjórnmálanna gat hún sent þann háa reikning til skattborgaranna.

En síðan hefur rjátlast enn af þeim meirihluta Íhaldsflokksins bæði í tíð May og Johnsons, í þessum tveimur mánuðum hans. En þá ákvað allstór hópur þingmanna, sem allir höfðu lofað að styðja niðurstöðu þjóðaratkvæðis, og voru flestir fráfarandi ráðherrar, að gera allt sem þeir gætu til að svíkja það loforð og skeyta hvorki um skömm né heiður. Þetta er höfuðvandi forsætisráðherrans.

En við hann bætist að valdið sem forsætisráðherra hafði farið með um aldir í umboði þjóðhöfðingjans seldi Cameron, einn af fyrirrennurum hans, frá sér fyrir stjórnarmeirihluta með Frjálslynda flokknum og náði þar með að koma Gordon Brown frá, sem var svo sem bæði æskilegt og nauðsynlegt. En samkvæmt lögum sem byggðu á kaupsamningi við Frjálslynda þarf forsætisráðherra nú að fá stuðning 2/3 hluta þingmanna til að tillaga hans um kosningar nái fram að ganga. Corbyn, sem lengi hefur krafist kosninga þegar í stað, lét sína menn nú sitja hjá eða greiða atkvæði gegn kosningum og kom þannig í veg fyrir kosningar.

Þá hafði Boris Johnson forsætisráðherra ákveðið þingfrestun sem stjórnarandstaðan sagði að væri stytting um 15 daga en ríkisstjórnin að væri aðeins um fimm daga því hefðbundin flokksþing allra helstu flokka féllu inn í þau. Fordæmi eru fyrir slíkri frestun og raunar mun lengri. Stjórnarandstaðan (eða fulltrúar hennar utan þings) fór með málið fyrir dómstóla, hvar sem hún kom því við. Skoskur dómstóll dæmdi að þingfrestunin stangaðist á við lög en enskur dómstól að lög stæðu ekki gegn slíkri frestun. Þá var Hæstiréttur kallaður úr fríi og hann sagði samhljóða að frestunin stangaðist á við lög. Kemur óneitanlega á óvart að dómstólar skuli blanda sér í stjórnmálalegt þras með þessum hætti enda mun það fara illa með trúverðugleika þeirra til lengdar. Nú síðast benti forseti Mannréttindadómstólsins á að íslenski fulltrúinn þar hefði náð að fá aðra með sér í að dansa með pólitísku upphlaupi á Íslandi. Og hvorki dómsmálaráðuneytið hér né dómstólar hafa dug eða reisn til að taka ekki þátt í slíku. Ekki er hins vegar sjáanlegt hvaða þýðingu þessi niðurstaða hefur.

Verkamannaflokkurinn segist tilbúinn að hætta við flokksþing sitt og kemur ekki á óvart, því að þar er allt í stórkostlegu uppnámi svo slíkt hefur ekki sést í áratugi.

Breski þingforsetinn, sem er á útleið eftir mánuð, ætlar að kalla þing saman til umræðu í dag en ekki er víst hvort það hafi nokkra þýðingu. Þingforsetinn þessi hefur verið á miklu „egóflippi“ þessar síðustu vikur í embættinu svo að hvað sem öðru líður gæti orðið þarna nokkurt fjör. Forsætisráðherrann er á þingi SÞ þegar þetta er skrifað og ekki er ljóst hvort hann breytir þeim áætlunum.

Þeir eru til í þessari álfu og þar með hér á landi sem halda því fram að áhættulaust sé að ganga í ESB því þjóðir geti bara hætt mislíki þeim vistin. Þegar ein öflugasta þjóðin í þeim félagsskap er tekin í fantalega gíslingu og ekkert gert með ákvörðun hennar geta menn rétt ímyndað sér hvernig smáfiskum myndi líða lokuðum í þess háttar fiskabúri.